11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3215)

148. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Á þskj. 382, í fyrsta tölulið, hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um, hvað líði framkvæmd þál. um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.

Hér á hv. Alþ. var hinn 11. marz 1959 samþ. svo hljóðandi þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma á fót starfsemi, sem miði að því, að jafnan séu tiltækar sem gleggstar og nýjastar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.“

Mig langar sem flm. þessarar þáltill. að fá vitneskju um, hvernig þessu er nú farið. Á þessu máli má segja að séu tvær hliðar: annars vegar sú, sem veit að unga fólkinu, sem er við nám hverju sinni og býr sig undir lífsstarf, og hins vegar sú, sem veit að þörf þjóðfélagsins fyrir starfskrafta þessa fólks.

Árlega útskrifast þúsundir æskufólks úr hinum almennu skólum þessa lands, og fer þá stór hópur beint út í atvinnulífið, en annar stór hópur hyggur á ýmiss konar sérnám. Er þá ekki lítils virði að geta með hægu móti fengið upplýsingar um, í hvaða starfsgreinum væri þörf á fólki með þá sérfræðimenntun, er til greina kæmi. Þá hefðu menn hugboð um, á hvaða sviði atvinnumöguleikar væru mestir og þá að öðru jöfnu afkomumöguleikar beztir. Sérnámið er oft langt, erfitt og kostnaðarsamt. Upplýsingastarfsemin gæti því gefið námsfólkinu nokkra leiðbeiningu um, út í hvað væri verið að fara og hvað biði þess að námi loknu.

Ef vikið er að hinni hliðinni, er á að líta, að hjá þjóð, sem á atvinnulíf sitt í uppbyggingu og þar sem svo margt stendur til bóta sem í okkar landi, er þörf á hinum færustu og fróðustu mönnum hverrar greinar til atvinnuveganna, ef þeir eiga að geta skilað þeim arði, sem á þarf að halda. Veltur þar ekki á minnstu að hafa á að skipa fólki, sem getur kynnt og fært sér í nyt hagnýtar nýjungar, sem gerast svo örar nú á þessum tímum framfara og tækni. Ég hygg, að ekki þurfi að leiða frekari rök að þessu máli, svo ljóst er, að um er að ræða hagsmunamál bæði unga fólksins og atvinnulífsins.

Nú er mér kunnugt, að skipuð var nefnd s.l. vor til að gera till. til menntmrn. um, með hvaða hætti skuli aflað upplýsinga um og hvernig fylgzt verði með þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk. Nefnd þessi skilaði áliti í nóvemberlok í vetur og gerði eftirfarandi tillögur, sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Menntamálaráði Íslands sé falið að hafa með höndum söfnun upplýsinga um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.

2) Ríkið veiti til þeirra framkvæmda nauðsynlegt fé, sem áætlað er allt að 20 þús. kr. í fyrsta sinn. “

Ég vil skjóta því hér inn í lesturinn, að þessi fjárveiting var aðeins áætluð til að byrja með, en gert ráð fyrir, að hún gæti fallið niður síðar eða a.m.k. yrði þarna um hverfandi lítinn kostnað að ræða. Ég vil svo leyfa mér að halda áfram lestri tillagnanna, með leyfi hæstv. forseta:

„3) Upplýsingasöfnun þessi sé í fyrstu einkum miðuð við þarfir atvinnuveganna, en þyrfti smám saman að verða víðtækari, svo að hún geti orðið grundvöllur að áætlun um þörf þjóðarinnar fyrir sérmenntað fólk í sem flestum starfsgreinum, og nái sú áætlun jafnan nokkur ár fram í tímann.

4) Áætlun sú, sem um ræðir í 3. tölulið, verði endurskoðuð á tveggja ára fresti.“

Nú vildi ég leyfa mér að spyrja, hvort till. nefndar þessarar hefðu verið teknar til greina, og ef svo er ekki, hvort hæstv. ráðh. hefði í hyggju að gera það eða hafa annan hátt á. M.ö.o., eins og segir á þskj., hvað líður framkvæmd þál. um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk?