11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (3216)

148. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri þál., sem hv. fyrirspyrjandi lýsti og samþ. var 11. marz 1959, skipaði menntmrn. 13. apríl f. á. þá Finnboga R. Þorvaldsson prófessor, Gils Guðmundsson framkvæmdastjóra menntamálaráðs, Svein Björnsson framkvæmdastjóra Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Steingrím Hermannsson framkvæmdastjóra rannsóknaráðs ríkisins og Hrólf Ásvaldsson fulltrúa í hagstofunni til þess að gera till. til rn. um, með hvaða hætti skuli aflað upplýsinga um og hvernig fylgzt verði með þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk. Þessir menn skiluðu áliti til rn. í nóvemberlok 1959, og gat hv. fyrirspyrjandi um það í ræðu sinni, hverjar hefðu verið tillögur þessara manna. Rn. taldi þær skynsamlegar og féllst algerlega á þær fyrir sitt leyti að lokinni athugun á málinu.

Í sambandi við afgreiðslu síðustu fjárlaga fór menntmrn. þess vegna hinn 14. jan. s.l. fram á 20 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, en sú till. náði ekki fram að ganga. Var litið svo á af fjárveitingavaldinu, að menntamálaráði væri unnt að sinna þessu verkefni án sérstakrar greiðslu eða án sérstakrar þóknunar. Ráðuneytinu hefur hins vegar ekki enn tekizt að fá menntamálaráð til þess að taka þetta starf að sér án endurgjalds, Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, og mun rn. halda áfram tilraunum sínum til þess að hrinda því í framkvæmd á þeim grundvelli, sem lagður var með till. fyrrgreindra manna og lýst hefur verið. Það mun halda áfram tilraunum sínum til þess að hrinda málinu áfram, annaðhvort á þann hátt, að menntamálaráð taki að sér að vinna verkið án sérstaks endurgjalds, eða ef það reynist ekki unnt, þá að næsta þing veiti 20 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni.