11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

148. mál, þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. skýr og greinargóð svör við þessari fsp. Eins og hv. þm. heyra, mun hann hafa góðan skilning og áhuga á þessu máli og virðist hafa fullan hug á að gera reka að því, að úr framkvæmd þessa máls geti orðið. Aðrar þjóðir hafa séð sér hag í upplýsingagerð sem þessari, og hygg ég, að það væri ekki síður nytsamlegt fyrir okkur Íslendinga, að sem fyrst hefjist starfsemi, er miði að því, að jafnan séu tiltækar sem gleggstar og nýjastar upplýsingar um þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntað fólk.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vona, að sem fyrst geti orðið af framkvæmdum, og vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svörin.