11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

911. mál, gjaldeyrislántaka

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Ég sé ekki ástæðu til þess að hefja neinar umræður í framhaldi af því, vil aðeins enn þá einu sinni í framhaldi af því, sem ég og fleiri höfum sagt í sambandi við umr. um efnahagsmálin, vara hæstv. ríkisstj. við gjaldeyrislántökum, einnig gjaldeyrislántökum af þessu tagi, og það geri ég vegna þess m.a., að ég tel augljóst mál, að af þeim ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar, þó að þær séu hugsaðar til jafnvægis, muni, áður en mjög langir tímar líða, leiða mikið ójafnvægi og nýja verðbólguöldu. Og þá getur auðveldlega farið svo, að þau gjaldeyrislán, sem tekin hafa verið, frjósi og verði að varanlegum skuldum, sem verði landinu fjötur um fót. Þetta er nákvæmlega sama skoðun og kom fram af minni hálfu við efnahagsmálaumr. Ég vil láta hana í ljós með þessum örfáu orðum enn á ný, en þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar.