11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

913. mál, vextir af íbúðarlánum sparisjóða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessari síðustu spurningu hv. þm. er vitaskuld ekki hægt að svara nákvæmlega, því að þetta getur enginn sagt fyrir með neinni vissu. Þessar efnahagsaðgerðir, sem gerðar hafa nú verið, miða að því að ná vissu ástandi í efnahagskerfi þjóðarinnar, og þegar því ástandi er náð, er ætlað að aflétta sumum þeim ráðstöfunum, sem erfiðast er að sætta sig við fyrir almenning í landinu, eins og t.d. hinum háu vöxtum.

Þeir, sem bjartsýnir eru, hafa t.d. vonazt eftir því, að þessar vaxtahækkanir þyrftu ekki að vera í gildi meira en 1, 2 eða 3 ár eða eitthvað þess háttar, og þá væri hægt að afnema þær eða lækka. Hvað verður í þessu efni, er vitaskuld erfitt eða ómögulegt að segja. En sem sagt, þær miðast við það, að viss árangur náist og vextirnir verði aðlagaðir því ástandi. sem stefnt er að því að ná.