18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

160. mál, alþýðuskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, samþykkti Alþ. 2. des. 1955 að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um stofnun æskulýðsskóla með lýðháskólasniði. 31. des. sama ár, 1955, fól menntmrn. þeim Helga Elíassyni fræðslumálastjóra, sr. Eiríki J. Eiríkssyni forseta Ungmennafélags Íslands og Magnúsi Gíslasyni námsstjóra að athuga þetta mál og gera um það till. til ráðuneytisins. Álitsgerð þeirra barst menntmrn. með bréfi, dags. 9. nóv. 1957, og leggur n. til í álitsgerðinni, að stofnaður verði lýðháskóli á einhverjum sögufrægum stað, t.d. Þingvöllum eða nágrenni og hafi helztu félagasambönd landsins forgöngu um stofnun hans. Er bent á eftirtalda aðila sem stofnendur skólans: Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands, Stórstúku Íslands, Norræna félagið, Búnaðarfélag Íslands og Alþýðusamband Íslands. Aðalmarkmið skólans skal vera að efla þjóðrækni, íslenzk fræði, félagsþroska og kristilegt siðgæðisuppeldi. Stofnendur skólans útvegi fé til þess að greiða a.m.k. ¼ stofnkostnaðar og annist greiðslu á a.m.k. helmingi rekstrarkostnaðar. Ríkissjóður greiði kostnað að öðru leyti.

Þetta mál hefur síðan verið í athugun í rn., en ekki enn þótt tímabært að hefjast handa um framkvæmdir, m.a. vegna þess, að staðið hefur yfir endurskoðun fræðslulöggjafarinnar í heild og þess vegna þótt rétt að bíða eftir því, hverjar lyktir yrðu þeirrar endurskoðunar, áður en ráðizt er í að stofna nýjar tegundir skóla. Þessari endurskoðun fræðslulöggjafarinnar er nú nýlokið, og eru tillögur þeirrar nefndar, sem um það mál fjallaði, til athugunar í rn., og mun menntmrn. leggja sérstaka áherzlu á að ljúka þeirri athugun af sinni hálfu í sumar, þannig að það af till. þeirrar n.. sem menntmrn. vill gera að sínum, verði komið fyrir Alþ. næsta haust. Í því sambandi er einnig eðlilegt, að þetta mál komi til athugunar.