27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) Herra forseti. Ég sé, að hæstv. ríkisstj. hefur gert sér ljóst, hvert er tilefni þessarar fsp., vegna þess að á borð þm. í morgun hefur verið dreift úrskurði gerðardóms þess, sem fjallaði um mál kaupfélagsins á Hellu gegn ríkissjóði, og það er alveg rétt og eðlileg tilgáta hjá hæstv. ríkisstj., að að mál er tilefni þessarar fsp.

Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið farið rangt að, þegar það mál var lagt undir gerðardóm, og skal reyna að færa fyrir því rök í stuttu máli á þann hátt að rifja upp þær afsakanir, sem hafa verið færðar fyrir því, að málið var láti ganga þá leið.

Fyrsta afsökunin er sú, að með þessu hætti hafi úrslit málsins fengizt fyrr en ella. En mér finnst það alveg nægilegt svar við þeirri spurningu, að það lá ekkert á því að fá þennan úrskurð og þurfti þess vegna ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að hraða málinu.

Önnur afsökunin er sú, að fyrir gerðardómi hafi verið fjallað um sömu atriði og hefði veri fjallað um, ef málið hefði farið hina venjulegu dómstólaleið. Um þetta atriði er ekki neitt hægt að fullyrða, því að við frekari athugun málsins í tveimur dómstigum hafa bæði getað komið ram ný atriði og ný sjónarmið, sem hefðu geta valdið því, að niðurstaðan hefði orðið önnur.

Þriðja afsökun er sú, að með þessu hafi málsmeðferðin orðið ódýrari. Ef þessi röksemd væri yfirleitt tekin upp, mætti náttúrlega leggja alveg niður hin tvö dómstig og hafa það bara eitt, vegna þess að það er óneitanlega ódýrara að afa eitt dómstig heldur en tvö. En hingað til hefur það ekki verið talið heppilegt í réttarríki að hafa dómstigið eitt og yfirleitt farin sú regla að hafa þau tvö og jafnvel fleiri. En þó að maður sleppi þessu atriði, þá hygg ég, að það sé líka vafasöm fullyrðing, að nokkuð ódýrari málsmeðferð hafi fengizt með þessum hætti, því að samkv. gerðardómnum fær sækjandi málsins 40 þús. kr. málflutningslaun, vafalaust hefur verjandi málsins fengið sömu upphæð greidda, og dómendurnir hafa fengið um 60 þús. kr. samanlagt, þannig að málsmeðferðin virðist hafa kostað um 140 þús. kr., og það liggja engin rök fyrir um það, að hún hefði orðið dýrari, þó að venjuleg málsmeðferð hefði verið viðhöfð.

Þá er það fjórða afsökunin, að gerðar dómurinn hafi verið skipaður þremur hæstaréttar dómurum eða meiri hluta hæstaréttar og þess vegna mundi hafa orðið sama niðurstaða, þó að hæstiréttur hefði fjallað um málið. Þetta er líka fullyrðing út í bláinn, og ég vil minna á í þessu sambandi, þegar það var rætt á Alþ. á sínum tíma, að þá var það talið tryggja betur öryggi í dómum hæstaréttar, að þar sætu fimm menn heldur en þrír, og ef hinir fimm hæstaréttardómarar hefðu allir fjallað um málið, þá hefði það vel getað orðið til þess, að einhver ný atriði og ný sjónarmið hefðu komið fram, sem hefðu valdið því, að úrslitin hefðu orðið önnur.

Þá er það fimmta röksemdin, að þetta kunni að hafa verið gert einhvern tíma áður. Ég skal ekki um það fullyrða, hvort það hafi ekki átt sér stað, að gerðardómur hafi verið settur í einhverju skaðabótamáli á hendur ríkissjóði áður. En hitt held ég að sé alveg hægt að staðhæfa, að í jafnstóru og þýðingarmiklu prinsippmáli, sem getur dregið fjölda skaðabótakrafna á eftir sér, hefur það ekki verið áður gert að láta, einungis gerðardóm um slík mál fjalla.

Þau atriði, sem ég hef nú rifjað upp, sýna ljóslega frá mínu sjónarmiði a.m.k., að það hafi verið röng stefna að fara inn á þá leið í þessu máli að láta gerðardóm fjalla um það í staðinn fyrir að láta það ganga hina venjulegu dómstólaleið, og ég teldi mjög hættulegt, ef ríkisstj. færi almennt inn á þá braut að láta slík mál ganga undir gerðardóm í stað þess að láta hina venjulegu dómstóla fjalla um þau. Af því tilefni er þessi fsp. mín fram komin, sem er í höfuðatriðum sú, hvort það sé orðin hin almenna stefna ríkisstj. að láta gerðardóma fella úrskurð um skaðabótakröfur, sem gerðar eru á hendur ríkissjóði, í stað þess að dómstólarnir fjölluðu um þær, og við þessari spurningu vænti ég þess að fá greinileg svör frá hæstv. fjmrh.