27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir í upphafi, að ég get ekki verið ánægður með svar hæstv. ráðh., vegna þess að það var mjög loðið og raunverulega alveg út í hött, svo að af því er ekki hægt að marka neitt ákveðið um það, hver stefna stjórnarinnar muni vera í þessum málum eftirleiðis. Helzt mátti þó e.t.v. lesa það á milli línanna út frá því, sem hann sagði um það mál, sem hann ræddi aðallega, að stjórnin ætlaði að fara lengra inn á þá braut að nota gerðardómsleiðina heldur en hún hefur áður gert, því að það kom alveg greinilega fram af þeirri upptalningu, sem hæstv. ráðh. var hér með um þau fordæmi, sem áður væru fyrir um gerðardóma, að þar var yfirleitt um allt önnur málsatriði að ræða en þau, sem hér var fjallað um. Þar var um minni háttar atriði að ræða og ekki um slík atriði að ræða, að því er fram virtist koma, sem fælu í sér dóma um prinsipatriði, sem gætu leitt til þess, að af þeim úrskurðum hlytust mjög mörg skaðabótamál eða skaðabótakröfur á hendur ríkinu. En af þeim dómi, sem hefur fallið í umræddu máli, má vel búast við því, að í framtíðinni hljótist margar og jafnvel miklar skaðabótakröfur á hendur ríkinu. Þess vegna stóð þar öðruvísi á en um þau mál, sem hann nefndi sérstaklega, og þess vegna var það skylda hæstv. ríkisstj. að láta þetta mál ganga hina venjulegu dómstólaleið.

Hæstv. ráðh. var með útreikninga um það, hver kostnaður hefði orðið af málinu, ef það hefði farið hina venjulegu dómstólaleið. Þessir útreikningar hans eru að sjálfsögðu alveg út í loftið, vegna þess að hann hefur ekki minnstu hugmynd um það, hver niðurstaða málsins hefði orðið, ef það hefði gengið hina venjulegu dómstólaleið. Það eina, sem liggur fyrir um það þá, er, að þá hefði málið fengið miklu vandlegri athugun, þá hefði um það verið fjallað í tveimur dómstólum í staðinn fyrir einn, og þá hefðu fimm hæstaréttardómarar fjallað um það í staðinn fyrir þrjá, og það hefur komið hvað eftir annað fram hér á Alþingi, að Alþingi teldi hæstarétt skipaðan fimm mönnum öruggari dómstól heldur en rétt, sem væri skipaður þrem mönnum. Þess vegna hefði vel getað svo farið, ef málið hefði gengið þennan venjulega dómstólaveg, að úrskurðurinn hefði orðið á allt aðra leið og ríkið hefði engan kostnað þurft að hafa af málinu. Hins vegar liggur það fyrir, að með þeirri leið, sem hæstv. fjmrh. hefur valið, verður ríkið nú að borga 140 þús. kr. í laun til málfærslumanna og gerðardómsmanna og 750 þús. kr. í skaðabætur, sem ríkið hefði e.t.v. getað alveg losnað við, ef málið hefði fengið fullkomnari meðferð og farið hina venjulegu dómstólaleið.

Hæstv. ráðh. hélt því m.a. fram, að það hefði verið fjallað um nákvæmlega sömu atriði fyrir gerðardómi og hefði verið fjallað um, ef málið hefði farið venjulega dómstólaleið. Um það getur hann ekkert fullyrt, vegna þess að ef málið hefði farið hina venjulegu dómstólaleið, þá hefðu getað komið einhver ný atriði og ný sjónarmið, sem hefðu kollvarpað þeirri niðurstöðu, sem varð hjá gerðardómnum, og þess vegna er ekki hægt að halda þessu fram, eins og hann gerði.

Mér virðist það ljóst af öllu þessu máli, að hér er um ranga stefnu að ræða, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, að fara gerðardómsleiðina í jafnstóru prinsippmáli sem þessu, máli, sem er algerlega ólíkt öllum málum, sem gerðardómar hafa áður fjallað um, sem er miklu stærra og áhrifaríkara, sérstaklega þegar dómur hefur fallið á þá leið, eins og hér varð, og þess vegna verð ég að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel, að ríkisstj. hafi farið hér rangt að. Og ég tel eftir þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf, að hún ætli líka að fara rangt að í framtíðinni, ef hún ætlar að halda áfram að beita gerðardómum með svipuðum hætti og hún hefur gert í þessu máli.