27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. leggur á það mikla áherzlu nú, hversu mikil trygging sé að tveim dómstigum og það sé þess vegna rangt að gera undanþágur frá því og semja um gerðardóm. En ef þessi er skoðun þessa hv. þm., hvernig í ósköpunum stendur á því, að hann hefur í fleiri dæmum en nokkur annar ráðh. á Íslandi samið um að víkja frá hinni venjulegu dómstólaleið um tvö dómstig og samið sjálfur um gerðardóm? Í flestum þeim dæmum, sem ég gat um hér áðan, er það þessi hv. þm. Eysteinn Jónsson, sem hefur samið um gerðardóm. Og eins og ég segi, ég veit ekki til, að neinn annar ráðh. á Íslandi hafi samið jafnoft um gerðardóm. En núna, þegar ég sem um gerðardóm með þremur hæstaréttardómurum til að úrskurða í þessu máli, þá á það að vera eitthvert reginhneyksli. Nei, það vantar hér eins og oftar samræmið hjá þessum hv. þm.