20.04.1960
Sameinað þing: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3266)

102. mál, málaleitan Nýasalandsmanna um að kæra Breta fyrir mannréttindanefnd Evrópuráðsins

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum kom hingað til lands einn af foringjum þjóðfrelsishreyfingar Nýasalandsmanna, Kayama Kiume, ásamt fylgdarliði sínu. Erindi hans hingað var að reyna að fá ríkisstj. Íslands til þess að leggja fram kæru í mannréttindanefnd Evrópuráðsins á hendur Bretum fyrir framferði þeirra í heimalandi hans á s.l. ári, en þá sendu Bretar herliðinn í landið frá Suður-Rhódesíu undir því yfirskini, að íbúar Nýasalands brugguðu samsæri í þeim tilgangi að myrða hvítu landnemana þar. Í þessum herleiðangri felldu Bretar 60 menn, þ. á m. konur og börn, og handsömuðu um 1000 menn án dóms og laga og halda mörgum þeirra enn þá föngnum. Meðal þeirra manna, sem Bretar handtóku í þetta skipti, var dr. Kamutsu Banda, leiðtogi þjóðfrelsishreyfingar Nýasamanna. Dr. Banda er hámenntaður maður, læknir, sem um margra ára skeið hafði stundað læknisstörf í Bretlandi og Bandaríkjunum við góðan árangur, en hvarf frá starfi sínu og öryggi og fluttist til heimalands síns í þeim tilgangi að gerast foringi þjóðernishreyfingarinnar þar, hvað hann varð og mjög brátt.

Einmitt vegna þess, að Íslendingar eru smáþjóð, sem skilur, að tilvera hennar er undir því komin, að réttur og réttlæti ríki í skiptum stórra og smárra þjóða heimsins, og sérstaklega vegna sögulegrar, aldalangrar baráttu fyrir eigin frelsi munu Nýasamennirnir, sem hér voru á ferðinni, hafa gert sér vonir um, að Íslendingar mundu fúsir til að hjálpa smáþjóð suður í hinni svörtu Afríku, sem nú heyr frelsisstríð sitt með því að kæra villimannlegt framferði í þeirra garð fyrir þeirri stofnun Evrópuráðsins, sem dæma á um, hvort sjálfsögð og viðurkennd mannréttindi séu í heiðri höfð í aðildarríkjunum. Það einasta eina, sem um var beðið, var, að íslenzka ríkisstj. kæmi málefnunum fyrir dóm, sem síðar mundi um þau fjalla eftir löglegum leiðum.

Þegar Klume fór héðan, lét hann m.a. hafa það eftir sér í blöðum, að hann væri mjög ánægður með erindislokin. Tveir stjórnmálaflokkar, Framsfl. og Alþb., hefðu lýst yfir fylgi sínu við erindi sitt. Ýmsir þm. og ráðamenn aðrir hefðu tekið mjög vel undir málaleitan sína, m.a. var því yfirlýst, að stjórn SUJ, Sambands ungra jafnaðarmanna, mundi málinu fylgjandi. Kiume fór héðan í þeirri góðu trú, að Íslendingar mundu bráðlega verða við beiðni sinni.

Þegar rúmar fimm vikur voru liðnar frá brottför Kiumes héðan af landi, án þess að nokkuð heyrðist frá hæstv. ríkisstj. um málið, og mjög mikil óvissa var ríkjandi um afstöðu hennar í því, var ákveðið af þingflokki Framsfl., að ég bæri fram fsp. þá, sem liggur frammi á þskj. 223. Þingflokkur framsóknarmanna hafði samþ. á fundi 22. febr. s.l. að styðja af alefli málaleitan Nýasamanna, og fulltrúi flokksins í utanrmn. hafði skýrt þar frá þessari afstöðu hans. Fsp. þessa átti að ræða á fundi í Sþ. þann 30. marz s.l., en var þá frestað að beiðni hæstv. utanrrh. Nú í dag eru aðstæður allar breyttar við það, að dr. Banda hefur verið látinn laus og viðræður hafa verið upp teknar á milli hans og nýlendustjórnarinnar brezku um framtíð Nýasalands. Breytir þetta að sjálfsögðu málinu öllu, og vafasamt er, hvort Nýasalandsmenn halda fast við málaleitan sína, þótt mér sé ekki kunnugt um, að þeir hafi afturkallað hana formlega enn þá. Vegna þessara breyttu ástæðna sé ég ekki ástæðu til þess að leita eftir svari hæstv. ráðh. við fsp. minni.