03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

915. mál, afkoma útflutningssjóðs

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Það er aðdragandi þessarar fsp., að ég sneri mér til fyrrv. hæstv. ríkisstj. og bað hana um að fá upplýsingar um efnahagsmálin, sem ég vissi að hlutu að hafa verið teknar saman af efnahagsmálaráðunaut hæstv. ríkisstj. Bað ég um annaðhvort að fá það, sem ríkisstj. hefði sjálf fengið handa sér um þessi efni, eða þá a.m.k. útdrátt úr því, en mér var neitað um þessar upplýsingar. Ég fór enn fremur fram á það við núv. hæstv. ríkisstj. að fá upplýsingar um þessi efni, og útkoman varð sú sama. Þá vildi ég reyna þá leið til þess að fá þó einhverja hugmynd um vissa þætti í þessum efnum að notfæra mér þann rétt, sem þingmenn hafa til þess að gera fyrirspurnir, og samdi þess vegna þá fsp., sem hér liggur fyrir, um afkomu útflutningssjóðs á árinu 1959 og hvers væri að vænta fyrir það ár, sem nú er byrjað.

Ég ætlaðist auðvitað til þess að fá svar við þessari fsp. fyrir jól, áður en ráðstafanir væru ákvarðaðar í efnahagsmálunum, og er löng saga af því öllu. En fyrir ofríki hæstv. ríkisstj. og hv. þingmeirihluta og ofurkapps að senda þingið heim, án þess að upplýsingar væru gefnar um þessi mál, þá komst þessi fsp. ekki á dagskrá fyrir jólin. Það má kannske segja, að hún sé að vissu leyti úrelt orðin, ef það kæmi nú t.d. fram, að í grg. þeirra frv., sem nú á að fara að leggja fram hér á Alþingi, væru þær upplýsingar, sem þarna er beðið um.

En ég sé enga ástæðu til að taka þessa fsp. til baka, því að það er þýðingarmikið að fá þessar upplýsingar, jafnvel þótt seint sé, og jafnvel þótt þær kynnu að koma annars staðar fram einnig, þá sé ég ekki annað en fyrirspurnin eigi fullan rétt á sér. Ég þarf ekki að endurtaka efni hennar, og hún skýrir sig sjálf.