01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er brbl., sem út voru gefin 15. des. s.l., en þau koma í staðinn fyrir önnur brbl., sem út voru gefin á s.l. hausti af fyrrverandi ríkisstjórn. Þau lög voru það mikið rædd, að allir hv. þm. þekkja þau gerla, og þarf ekki út í það að fara, en aðdragandi þeirrar löggjafar var sá, að fulltrúar í sex manna nefnd, fulltrúar neytenda og fulltrúar bænda, komu sér ekki saman um nýjan verðgrundvöll á s.l. hausti, og var þess vegna ekki unnt þá að verðleggja landbúnaðarvörur eins og lög stóðu til, og tók fyrrv. hæstv. ríkisstj. það ráð að gefa út brbl., sem tryggðu óbreytt verð s.l. haust. Eins og kunnugt er, undu bændur því illa, að þessi lög voru gefin út og verðlagið bundið.

Báðir aðilar, bændur og neytendur, hafa í mörg ár samið um verðlagið í svokallaðri sex manna nefnd og verðlagið verið ákveðið eftir útreikningum og föstum reglum samkv. framleiðsluráðslögunum. Það, sem bændur höfðu krafizt s.l. haust, var það, að framleiðsluráðslögin yrðu aftur gerð starfhæf, að sex manna nefndin yrði skipuð á ný svo og yfirdómurinn, ef sex manna nefnd kæmi sér ekki saman. Nýju bráðabirgðalögin tryggja þetta, og vil ég við þetta tækifæri færa þeim fulltrúum bænda og fulltrúum neytenda, sem unnu að þessu samkomulagi, þakkir fyrir góðan skilning á þessum málum og samstarfsvilja. Það er enginn vafi á því, að skilningur þeirra manna, sem að þessari löggjöf unnu, þessu samkomulagi, er hollastur, bæði fyrir neytendurna og eins fyrir bændurna. Þetta frv. tryggir nánara samstarf, tryggir betra samkomulag milli bænda og neytenda en gömlu lögin gerðu.

Þetta frv. gefur neytendunum kost á því að fylgjast með og vera með í að ákveða dreifingarkostnað varanna, en það hefur að undanförnu verið nokkurt ágreiningsefni, valdið misskilningi og tortryggni, að neytendur hafa ekki, jafnvel þótt þeir hafi haft nokkurt vald til þess samkv. gömlu framleiðsluráðslögunum, notað sér það að kynna sér sem skyldi, hvernig dreifingarkostnaðurinn er ákveðinn. Það er enginn vafi á því, að það er hollast bæði fyrir bændur og neytendur, að þarna sé ekki um neinn misskilning að ræða. Fulltrúar bænda í framleiðsluráði hafa sagt, að það væri ekki nema velkomið, að neytendur fylgdust með hvað þetta snertir og væru með í ákvörðun um þetta, vegna þess að það væri auðvelt að leggja öll gögn á borðið og það væri ekki neitt að fela í þessu efni. Ég hygg, að það sé gott, að neytendafulltrúarnir eigi þess kost að sannfæra sig um það, hvort dreifingarkostnaðurinn er óþarflega hár eða hvort hann er eðlilegur, eins og hann hefur verið ákveðinn að undanförnu.

Þá hefur það og valdið deilum í sex manna nefndinni á milli fulltrúa bænda og fulltrúa neytenda, að í gömlu framleiðsluráðslögunum var heimild til þess að hækka útsöluverð innanlands til þess að bæta upp halla á útfluttum vörum. Þrátt fyrir heimild í framleiðsluráðslögunum hefur þetta ekki verið gert nema örsjaldan, og hafa bændur því oft orðið að taka á sig það tap eða halla, sem orðið hefur á útflutningi landbúnaðarvara. Er skemmst að minnast þess, að árið 1958 töpuðu mjólkurframleiðendur 23 aurum af hverjum innvegnum lítra, vegna þess að þá voru fluttar út landbúnaðarafurðir, sem fengust ekki bættar. Hafa bændur og oft áður orðið fyrir tapi af þessum ástæðum, vegna þess að framleiðsluráð þrátt fyrir heimild í lögum hefur ekki treyst sér til að hækka innanlandsverðið svo mikið, að það gæti borið upp þennan halla. Með þeim lögum, sem hér er um að ræða, er ekki lengur um ágreiningsefni að ræða á milli fulltrúa bænda og fulltrúa neytenda, því að nú er það ákveðið, að ekki skuli vera heimilt að hækka verð innanlands til þess að bæta halla á útflutningnum, heldur er ákveðið að bæta hallann af útflutningnum úr ríkissjóði, en þó ekki yfir 10% af heildarverðmæti landbúnaðarvara, miðað við næsta ár á undan. Þetta ætti hins vegar að vera nægileg trygging, því að árið 1957 og 1958 var heildarútflutningurinn 5.4% og má þess vegna aukast talsvert til þess, að þessi 10% nægi ekki.

Hér er á tvennan hátt með þessu frv. komið í veg fyrir það, að deilur geti risið upp á milli framleiðenda og neytenda, sem hafa orsakað það m.a. síðastliðið sumar, að upp úr slitnaði í sex manna nefndinni.

Það er ekki ástæða til að fara mjög mörgum orðum um þetta frv. að öðru leyti. Þetta er viðauki við framleiðsluráðslögin, raskar þeim ekki að öðru leyti en þeim breytingum, sem ég nú hef lýst. Það er ekki nein grundvallarbreyting, þótt tveir nefndarmenn, sem taka sæti fyrir hönd bænda, séu kosnir af Stéttarsambandinu og einn af framleiðsluráði, en áður voru þeir allir kosnir af stjórn Stéttarsambandsins. Það út af fyrir sig er aðeins smávegis atriði, en um aðrar breytingar veigamiklar er ekki að ræða, aðrar en þær, sem ég hef lýst.

6. gr. frv. er samhljóða því, sem tekið var upp á s.l. ári. Hún er um það, að ef grunnkaup breytist og vísitala hækkar, megi hækka landbúnaðarvörurnar ársfjórðungslega í samræmi við það. En það hefur vantað í framleiðsluráðslögin veigamikið atriði til þess að tryggja bændum þann rétt, sem þeim er ætlaður, en hann er sá, að þeir skuli bera úr býtum svipað og aðrar vinnandi stéttir, verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn. Bændur hafa ekki alltaf náð því verði, vegna þess að eins og lögin voru, tryggðu þau þetta ekki. Eins og lögin voru frá 1947, var gert ráð fyrir verðlagningu aðeins einu sinni á ári. Þótt rekstrarvörur hækkuðu, jafnvel fyrri hluta ársins, var ekki heimilt að taka þá hækkun inn í grundvöllinn og hækka vörurnar af þeim ástæðum. Aðeins var heimilt að taka tillit til aukins dreifingarkostnaðar. Út af þessu hafa bændur ekki undanfarin ár, á þessum verðhækkanatímum, fengið sömu tekjur og ætlazt er til, þegar þannig er til orða tekið, að bændur skuli njóta sömu tekna og aðrar vinnandi stéttir, því að þeir hafa orðið að búa við óbreytt verðlág á framleiðsluvörunni, þótt rekstrarvörurnar hafi hækkað stórkostlega. Með þessu frv. er þetta ekki að öllu leyti tryggt heldur, ekki hvað rekstrarvörurnar snertir. Er nauðsynlegt á annan hátt og þá í sambandi við aðra löggjöf að koma því í lög, að ef rekstrarvörurnar hækka, gangi þær sjálfkrafa inn í verðlagsgrundvöllinn og leiði til hækkunar á verði landbúnaðarvara, þannig að bændur hafi svipaðar tekjur og verkamenn og aðrar vinnandi stéttir.

Ég veit það, að þeir, sem stóðu að samkomulaginu í desember, samkomulaginu um það að endurreisa sex manna nefndina, samkomulaginu um það að gefa út þessi brbl., þeir skilja það, að bændur, sem inna mikið starf af hendi, vinna einir með sinni konu að framleiðslu meðalbúsins, eiga að hafa ekki minni tekjur en aðrar vinnandi stéttir. Það er ekki nema gott, að skilningurinn fer vaxandi á milli framleiðenda og neytenda, vegna þess að bóndinn og bóndakonan og verkamaðurinn við sjóinn eru vissulega engir andstæðingar. Þetta er fólk, sem vinnur fyrir brauði sínu í sveita síns andlitís og hefur vissulega lítinn afgang, þótt vel sé starfað og vel unnið.

Ég verð að segja, að ég met mikils og mér var mikil ánægja að því að vinna með fulltrúum neytenda og bænda að því samkomulagi, sem náðist í sambandi við útgáfu þessara laga. Ég veit, að það samkomulag getur orðið hollur og traustur grundvöllur að framtíðarstarfi og bættri skipan í þessum málum.

Sex manna nefnd er nú að vinna að því að reikna út verðgrundvöll landbúnaðarvara, sem gilda á samkv. þessu frv. frá 1. sept. s.l. Þeir byrjuðu þetta starf í janúarmánuði, en hafa ekki lokið því enn. Eðlilegt er, að það taki nokkurn tíma, og ekkert er um það að sakast, þótt enn hafi ekki orðið samkomulag eða þótt ekki hafi enn slitnað upp úr, ef ekki næst samkomulag. Vitanlega væri það æskilegast, að samkomulag gæti náðst og að tölurnar og aðeins réttir útreikningar væru látnir tala og á því væri byggt.

Ég vænti þess, að þegar fulltrúar sex manna nefndar, fulltrúar bænda og fulltrúar neytenda, hafa gefið sér nægilegan tíma til þess að skoða þetta mál ofan í kjölinn, verði það til þess að færa þá nær hvora öðrum og að það bil, sem virtist vera óbrúanlegt á s.l. hausti, að minnsta kosti minnki, þótt ekki næðust endarnir alveg saman. En fari svo, að ekki verði um fullnaðarsamkomulag að ræða, verður málinu vísað til yfirdóms samkv. þessu frv., þar sem hagstofustjóri er oddamaður og einn fulltrúi er frá neytendum og annar frá framleiðendum, og verður sá dómur hæstaréttardómur í þessu máli, sem báðir aðilar væntanlega hlíta og una sæmilega við, vegna þess að það er engin ástæða til að ætla annað en sá dómur verði felldur eftir rökum einum, eftir glöggum og réttum útreikningum í þessu efni. Og það er enginn, sem óskar eftir öðru en því, að byggt verði á réttum útreikningum það, sem út úr þessu á að koma.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að sinni, en óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.