30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. er nýbúinn að segja, að það má heita gefinn hlutur, að Alþ., sem kemur ekki saman til funda fyrr en 20. nóv., endist ekki tími til að ganga frá fjárlögum fyrir áramót, svo mikið starf og tímafrekt er það að ganga frá fjárlögum á ári hverju. Það er því ekkert undarlegt við það, þó að þetta Alþ., sem er að hefja störf svo síðla árs, þurfi að heimila bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði fyrstu tvo mánuði næsta árs. Mér hefði þess vegna ekki dottið í hug að blaka hendi við því frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., né andmæla því einu orði, ef ekki væru draugar í fylgd með því. Þeir draugar eru þingfrestun og fylgifiskar hennar. Við 1. umr. létu þessir draugar ekki á sér bæra, og þess vegna mælti heldur enginn á móti frv. eða systurfrv. þess hér í þessari hv. d. En í fjhn. kom strax í ljós, að afgreiða átti í flýti, — það átti að framkvæma afgreiðsluna með eldflaugarhraða, ef svo mætti að orði komast, — til þess að ríkisstj. gæti strax losað sig við þingið. Í nefndinni fékkst málinu með engu móti frestað, þar til í ljós kæmi, hvort samningar tækjust milli hæstv. ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar um eðlilegt þinghlé, en um það hafði hæstv. forsrh. gert ráð fyrir að láta form. stjórnarandstöðunnar vita um hádegi á laugardag. Meiri hl. í n. neitaði að láta afgreiðslu n. bíða þar til um hádegi á laugardaginn. Þetta hefur líka verið viðurkennt af ræðumönnum úr meiri hl. n., sem hér hafa talað í sambandi við annað mál. En ávöxtur þeirrar neitunar meiri hl. voru þingfundirnir á laugardaginn, sem þokuðu ekki málunum áfram um hænufet, að heitið gat. Ætti hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar að vera nokkur bending um það í þessu, að henni mun illa takast að beita minni hl. ofbeldi við afgreiðslu mála, enda hlýtur ofbeldið jafnan að hefna sín, ef það kemur fram í slíkri mynd og hér hefur fram komið.

Hæstv. fjmrh. reyndi að klóra í bakkann með ýmsu móti á laugardaginn, og það hafa í raun og veru hæstv. meirihlutamenn fjhn. líka reynt að gera, en tekizt miður vel, eins og er að vænta, því að það er ofvaxið hverjum manni. M.a. gerði hæstv. ráðh. mér upp að hafa haldið því fram, að framlengingarfrumvörpin væru ótímabær, og vildi hrekja með því, að stundum áður hefðu þau komið fram ekki síðar á ári. Þetta var hin ómerkilegasta rökblekking, vandræðaleg og bágborin í alla staði og ekki hæstv. ráðh. samboðin, sem venjulega kann góð skil á rökum.

Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) svaraði þessu mjög rækilega á laugardaginn, svo að ég lét niður falla að taka til máls um það þá. Ég hafði vitanlega talað um, hve snemma á starfstíma þingsins frumvörpin eru fram lögð, og þann óhæfilega hraða í afgreiðslu, sem á hér að viðhafa, og taldi þann hraða ótímabæran. Ég fullyrði, að aldrei hafa þessi frv., sem stjórnarflokkarnir kalla „gamla kunningja“ og það með nokkrum rétti, verið lögð fram eftir svo skamma setu þings né afgreidd í þeim tilgangi að senda heim þing, sem er nýkomið saman og hefur ekki lokið fyrsta áfanga verka sinna. En það kalla ég tilheyra fyrsta áfanga sjálfsagðra verka, að fjári. séu tekin til umr. og vísað til n. Þetta hefur ekki enn verið gert. Enn fremur tel ég það tilheyra fyrsta áfanga, að þingmönnum gefist sæmilegt tóm til að ganga frá og leggja fram tillögur og frumvörp, og þeim till. og frv. sé komið í nefndir og nefndirnar geti sent þau til umsagnar þeim aðilum, sem rétt þykir og nauðsynlegt að fá umsagnir frá, svo sem tíðkast mjög og er eðlilegt að tíðkist hér á hæstv. Alþingi.

Það eru mjög slæm vinnubrögð, að þinghlé sé strax tekið. Mörg mjög þýðingarmikil mál hafa þegar verið fram lögð á þinginu, og undarlegt væri, ef hinir mörgu nýju þm. væru ekki með till. í smíðum. Allir munu þeir á þingmálafundum a.m.k. þótzt hafa slík mál í höfðinu og talið sig búa yfir nýmælum, ef þeir fengju tækifæri til að koma þeim á framfæri á Alþingi. Ég kalla það harða meðferð á slíkum mönnum að reka þá heim, ekki sízt harða meðferð á stuðningsmönnum stjórnarinnar í því sambandi að reka þá heim með till. þeirra í burðarliðnum.

Að fresta þinginu strax væri, eins og tekið hefur verið fram, fullkomin óvirðing við þingræðið. Nú er sú lengi þráða stund upprunnin, sem stjórnarflokkarnir töluðu um í sambandi við stjórnarskrárbreytinguna á sumarþinginu, að þing hefur verið kjörið eftir reglum, sem þeir sögðu að ættu að tryggja það, að þingið yrði „starfhæft“. Nú á að senda þetta „starfhæfa“ þing heim, og svo mikill virðist áhuginn fyrir því hjá hæstv. ríkisstj. að fjarlægja þingið strax — til þess að fá frið fyrir því og það í raun og veru frið til að bíða, eins og sagt var hér áðan í ræðu, eftir niðurstöðum rannsóknar sérfróðra manna, er hæstv. ríkisstjórn hefur fengið til að fjalla um undirbúning efnahagsmála, — frið til að bíða. Það er svo mikil áherzla lögð á þetta. Það á svo mikinn hraða við að hafa, að manni getur jafnvel dottið í hug, að ef hæstv. ríkisstj. hefði haft ráð á öflugum „spútnik“, þá hefði hún reynt að skjóta þinginu til tunglsins í eitt skipti fyrir öll.

A.m.k. er hér um að ræða tilraun til skerðingar á þingræðinu, mjög athugaverða byrjun á skerðingu þingræðis, sem gæti boðað meira.

Á bak við það að vilja losna við þingið getur sá tilgangur legið að stjórna með brbl. Bent hefur verið í því sambandi á brbl. um búvöruverðið, sem vitanlega hefði verið skylt að leggja strax fyrir þingið, þegar það kom saman, og er engin fjarstæða að ætla, að láta eigi það mál drukkna í þinghléinu, enda sinn gildistíma og verða úr sögunni.

En svo kemur fleira til greina í sambandi við þetta þinghlé og þann frið, sem hæstv. stjórn vill skapa sér með því. Það kemur til greina, ef um ofstjórnarhug er að ræða, að verði þinginu frestað núna til seinustu daga janúar, þá er búinn sá réttur þm., sem þeir hafa til að leggja fram frumvörp án leyfis meiri hl. Eftir þann tíma verður þm. ekki frjálst að flytja og fá tekin til umr. ný frv., eins og 19. gr. í þingsköpunum tekur skýrt fram. Þá verður minni hlutinn að eiga það undir meiri hl., hvort hann fær að koma till. sínum til umr., hvað þá meir. Ég segi ekki, að þetta sé tilgangurinn, — ég segi það alls ekki, — en það gæti verið tilgangurinn, og svo kuldaleg er framkoma hæstv. stjórnarflokka í sambandi við till. um heimrekstur þingmannanna, að maður getur vei látið sér detta ýmislegt í hug.

Nú ætti að vera „starfhæft“ þing að dómi stjórnarinnar og þing, sem er í samræmi við þjóðarviljann samkv. kenningum stjórnarflokkanna, — nú ætti það að vera. En þó að stjórnarflokkarnir hafi meiri hluta á þingi og meiri hluta af atkvæðamagni að baki sér meðal þjóðarinnar, þá er sá meiri hluti þó ekki allur þjóðarviljinn. Og víst eru þau málefni, sem fyrir þessu þingi liggja, svo erfið viðfangs og vandleyst, að ekki mundi af því veita að reyna að fá fram samstöðu í þinginu um úrlausnir. En það er síður en svo, að til slíkrar samstöðu sé stofnað nú með þeirri till., sem fyrir liggur um frestun þings og upphafning þingfunda. Og því er það svo, að þó að hver maður geti séð, að fjárl. geti ekki orðið afgr. á þessu ári, þá er eðlilegt, að snúizt sé gegn þeim frumvörpum, sem gera stjórninni kleift að fresta þinginu strax.

Það er eins og hæstv. stjórnarstuðningsmenn, sem hafa hér talað, vilji líta svo á, að það eigi ekki að ræða þingfrestunina og frv. þau, sem fyrir þessari hv. d. liggja, saman. Hv. 9. landsk. (JÞ) fór nokkuð sterkum orðum um það, að slíkt væri fjarstæða, það væri hægt að veita þessar heimildir, sjálfsagt að veita þessar heimildir, þótt menn væru andstæðir þingfrestun. En ástandið er þannig, að framlenging þeirra laga, sem hér eru í frumvarpsformi, og heimildir til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði á árinu 1960 eru eins og lykill að samþykkt þinghlésins, lykill handa ríkisstj. Og ég hugsa, að ef t.d. 9. landsk. hefði lykil í hendi að einhverju húsi, — lykil, sem hann að vísu teldi sjálfsagt að afhenda einhverjum tilteknum manni, sem bæði um það, þá mundi hann þó hika við það, ef hann vissi, að þessi maður ætlaði, ef hann fengi lykilinn strax, að nota hann til þess að komast inn í húsið og vinna þar skemmdarverk, — hann mundi draga það, þangað til sá tími væri liðinn, sem maðurinn gæti haft not af því að komast í húsið til þeirra hluta.

Við, sem vorum í minni hl. hv. fjhn., höfum skilað áliti, sem útbýtt var í dag, og gerum þar grein fyrir afstöðu okkar, sem byggist einmitt á þessu, að afhenda ekki lykilinn, meðan til þess getur komið, að skemmdarverk verði unnin með honum á þinginu. Og við munum einmitt þess vegna greiða atkvæði, eins og við tökum fram, á móti þessu frv. nú. Við teljum, að þó að aðrir hv. þdm. tækju þessa afstöðu með okkur og meiri hl. felldi frv., þá væri aðeins þarft verk unnið, vegna þess að þingfrestunin er óþurftarverk, og það er hægt síðar að bera fram framlengingarfrv., þótt þetta falli, — framlengingarfrv. á hæfilegum tíma. Og ég mundi fyrir mitt leyti greiða slíku frv. sem þessu atkvæði, ef það væri borið fram á hæfilegum tíma. En að þessu sinni mun ég greiða atkvæði á móti því, af því að það er ótímabært, og hvet aðra til að gera hið sama.