01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í 3. málsgr. 3. gr. frv. þess, sem hér er til meðferðar, er það ákvæði, að ef ekki verður samkomulag í sex manna nefnd varðandi ákvörðun verðlagsgrundvallar eða varðandi verðlagningu söluvara landbúnaðarins, skuli sérstök yfirnefnd þriggja manna, sem sé þannig skipuð, að einn fulltrúi í hana sé tilnefndur af neytendum og annar fulltrúi af hálfu framleiðenda, en hagstofustjóri sé oddamaður, hafa úrskurðarvald. Nú skeði það á s.l. ári, þegar verðlagning á landbúnaðarafurðum átti að fara fram, að ekki varð samkomulag um hana í sex manna nefndinni, og átti þá samkv. réttum lögum að koma til kasta þriggja manna nefndarinnar, en það komst þó aldrei það langt, því að fulltrúi neytenda í þriggja manna n. var dreginn til baka út úr n., þannig að hún gat ekki starfað. Hv. þm. muna eflaust eftir þessu allir, ekki sízt kannske vegna þess, að menn aumkuðu þá mjög sjálfstæðismenn fyrir það, hvað þeir áttu ákaflega bágt með að taka afstöðu til þeirra brbl., sem þá voru gefin út um það, að verðlag landbúnaðarafurða skyldi verða óbreytt.

Mig langar til þess að beina fyrirspurnum til hæstv. landbrh. út af 3. mgr. 3. gr. þessa frv., sem hér er til meðferðar.

Í fyrsta lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. þess, hvort hann telji sig hafa heimild til þess, ef samkomulag verður ekki í 6 manna n. um verðlagninguna eða um verðlagsgrundvöllinn, að skipa mann í þriggja manna yfirnefndina, ef neytendahópurinn eða framleiðendahópurinn dregur sinn fulltrúa til baka. Og ég vil spyrja hann jafnframt í því sambandi, hvort hann geti lýst því yfir nú þegar, að hann mundi nota sér þá heimild, ef hann hefði hana.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, ef hann telur sig ekki hafa heimild til þess að skipa í þriggja manna n. og ef fulltrúar eru dregnir til baka úr henni, hvort hann geti lýst því hér yfir á þingi, að hann muni beita sér fyrir því að afla sér slíkrar heimildar.