01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Þetta er, eins og gefur að skilja, aðeins stutt aths. út af því, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann er, að því er mér virðist, í nokkrum vanda staddur með að útlista ganginn í þessu, og er það ekki einkennilegt. Og eitt af því, sem hann finnur upp, er það, að barátta framsóknarmanna fyrir því, að þinginu væri ekki frestað jafnsnemma og gert var fyrir jólin, — að einn þáttur í þeirri baráttu framsóknarmanna hafi verið, að þeir hafi viljað hafa Alþingi til þess að spilla fyrir því, að sá árangur næðist fyrir bændastéttina í þessu máli, sem varð. Ég hugsa, að hæstv. ráðh. sé nú nokkurn veginn einn um þennan hugsanagang, því að það er sjálfsagt ákaflega erfitt að fá menn til að trúa því, að það hefði spillt fyrir þessu máli, að þingið hefði setið hér að störfum venjulegan tíma fram að jólunum. Auðvitað hefðu samningar milli neytenda og framleiðenda farið fram alveg nákvæmlega jafnt eins og áður. Og það eitt er alveg víst, að Sjálfstfl. hefði ekki verið mínna hræddur við Framsfl. í þessu máli, þó að þingið hefði setíð áfram, en með því að þingið færi heim. En vitanlegt er, að sá árangur, sem í þessu máli hefur náðst, er fyrst og fremst fyrir þann beyg, sem Sjálfstfl. hefur af Framsfl., og það aðhald, sem hann hefur í því sambandi. Ég held, að um þetta sé nú lítill vafi.

Þá talaði hæstv. ráðh. þannig, að framsóknarmenn hefðu sennilega gert ráð fyrir því, að stjórninni væri sérlega erfitt að vinna að þessu máli vegna ósamkomulags innan hennar, og jafnvel, að þetta gæti orðið stjórninni að fótakefli. Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr. Mér hefur frá upphafi verið ljóst, að Sjálfstfl. ræður öllu um þessi mál og hefur gert, síðan þessi nýja valdasamsteypa kom til greina. Sjálfstfl. réð raunverulega brbl. og öllu, sem gert hefur verið í þessu efni, og hefur aldrei haft neitt að berjast við nema sjálfan sig í þessu sambandi og svo náttúrlega ótætis Framsfl. og Stéttarsambandið og allt það. Alþfl. hefur aldrei getað neitt annað í þessu gert en það, sem Sjálfstfl. sagði honum að gera. Það er því engin innanstjórnarbarátta eða stjórnin nokkru sinni verið í hættu út af þessu, enda sjáum við það á sjálfri niðurstöðunni, sem hér liggur fyrir og er fengin fyrir það, að Sjálfstfl. komst að þeirri niðurstöðu, að honum væri ekki pólitískt óhætt að halda fram stefnu brbl. Það er því alveg vonlaust fyrir hæstv. ráðh. að vera að reyna að draga athygli frá aðalatriði málsins með því að benda á þetta um þinghaldið.

Þá sagði hæstv. landbrh., að ég héldi því fram, að Framsfl. væri áhrifaríkastur, þegar hann væri ekki í stjórn. Þessu er auðvitað alveg snúið við. En hinu hef ég leyft mér að halda fram og mun leyfa mér að halda fram, að Framsfl. er ekki áhrifalaus í þessu landi, þó að hann sé ekki í ríkisstj., og það er mikill misskilningur, ef menn halda, að áhrif flokka í þjóðmálum varðandi það, hvaða úrlausnir eru teknar á hverjum tíma, séu eingöngu bundin við, hvort þeir eru í ríkisstj. eða ekki. Og ef einhverjir halda þetta, ættu þeir að endurskoða það, því að þannig gerast ekki hlutirnir, og hæstv. landbrh. hefur gott af að hugsa einmitt um þetta. Þó að ég vilji því alls ekki halda því fram, að Framsfl. sé áhrifaríkastur, þegar hann er ekki í stjórn, fer því alls fjarri, að hann sé áhrifalaus, þó að hann sé ekki í ríkisstj., eins og þetta fyrsta átakamál um landbúnaðinn sýnir, sem komið hefur upp, síðan þessi nýja samsteypa kom.

Svo skal ég ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta og láta hér við sitja.