23.02.1960
Efri deild: 28. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki efnislega að ræða þetta frv. nú við 1. umr., því að að sjálfsögðu gefst mér kostur á að fjalla um það í n. og mun láta það bíða þess tíma. En það voru aðeins tvær fsp. á þessu stigi, sem ég vildi leggja fram fyrir hæstv. ráðherra. Það er í fyrsta lagi það, hvort samningsaðilar, sem hafa verið að semja um búvöruverðið núna undanfarandi, hafi náð samningum, hvort samkomulag sé komið um verðlagsgrundvöllinn fyrir árið 1959 og 1960. Og í öðru lagi, ef samningsgrundvöllur er þegar fenginn og hann er á þann veg, að það er um verðhækkanir að ræða, hvort þá er meiningin, að búvöruverðið hækki í verði til neytendanna eða að sá mismunur, sem kann að skapast nú við nýtt samkomulag, verði greiddur niður úr ríkissjóði. — Það eru aðeins þessar tvær fsp., sem ég vænti að hæstv. ráðh. svari.