11.03.1960
Efri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki fara að ræða þessi brbl. efnislega, það hefur verið gert rækilega, bæði hér í þessari hv. d. og í Nd. og ekki þá síður utan þingsins. En mér þykir ástæða til að taka það fram, sem ég reyndar hélt að allir hv, þm. vissu, að þessi brbl. eru byggð á samkomulagi og eru samningur á milli deiluaðilanna, bændanna annars vegar og neytendafulltrúanna hins vegar, og ég lít þannig á, að þessum samningi væri ekki hægt að breyta nema með samkomulagi við þessa aðila. Ég hefði viljað halda þannig á þessu máli, að ekki verði hægt að halda því fram, að það væri brotinn samningur á nokkurn hátt Og enda þótt á það megi benda, að þessi lög gætu staðið til bóta og að flytja mætti till. til breytinga á þeim, sem eru til bóta, mundi ég samt sem áður standa algerlega á móti þeirri breyt., vegna þess að það var ekki samið um það.

Ég vil t.d. nefna hér till. á þskj. 157, sem tveir hv. framsóknarmenn hafa flutt. Ég tel, að það sé til bóta að hafa í lögunum ákvæði eitthvað í þessa átt, sem þar um ræðir. Ég tel þó, að það væri eðlilegra, að maðurinn eða mennirnir, sem skipaðir yrðu í yfirdóminn, væru úr hópi sexmannanefndarmanna, og þá eingöngu vegna þess, að þeir hafa kunnugleika á þessum málum fram yfir aðra.

Nú er það sýnilegt, að þessi till. er ekki flutt í samráði eða í samkomulagi við þá, sem standa að brbl. Þess vegna vil ég gera það að tillögu minni, að hv. flm. taki till. aftur til 3. umr. og sannprófi það í nefnd ásamt því að leita til fleiri aðila, sem þetta mál er skylt, t.d. hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, sem stóð að samningunum, hvort þeir aðilar, sem að lögunum standa og samningunum í heild, geta sætt sig við að bæta inn í lögin ákvæði, sem nær þeim tilgangi, sem þessari till. er ætlað að ná. Ef ekki næst samkomulag um þetta, finnst mér ekki koma til mála annað en að fella till., því að annars væri verið að brjóta þann samning, sem búið er að gera. Og þyki nauðsynlegt samt sem áður að fá þetta ákvæði inn í lögin, legg ég til, að flutt verði sérstakt frv. í því skyni.

Ég vil sem samt leggja það til, að hv. flm. till. á þskj. 157 taki hana aftur til 3. umr. og sannprófi það, hvort samkomulag getur fengizt um flutning á till., sem nær því marki, sem þessari till. er ætlað að ná, en væri samt sem áður öðruvísi orðuð, og ég tel heppilegra, að gengið væri út frá því, að þeir, sem skipa yfirdóminn, séu teknir úr hópi sexmannanefndarmanna.

Um till. á þskj. 159 er ekkert að segja. Það virðist vera samkomulagstill., sem allir geta fellt sig við, og er að sjálfsögðu þá ekkert við það að athuga, þótt sú brtt. verði samþykkt.

Um till. á þskj. 153 er öðru máli að gegna. Hún virðist ekki vera samkomulagstillaga. Ég tel ekki þörf á því að fara að ræða hana ýtarlega eða efnislega. Það eru ekki neinar stórvægilegar breytingar, sem í henni felast. Ég tel, að það, sem hv. flm. leggur mest upp úr og talaði mest um, séu útflutningsuppbæturnar. Ég tel, að hann geri óþarflega mikið úr því atriði. Það, sem felst í lögunum, er það, að bændur fái útflutningstryggingu fyrir allt að 10% af heildarmagni landbúnaðarafurða framleiddra á árinu áður, og þá er það rétt, sem hv. þm. sagði, að þessi upphæð gæti numið allt að 73 millj. kr., ef útflutningsmagnið yrði svona mikið. Nú hefur verið á það bent áður, að þegar útflutningurinn var mestur, nam hann aðeins 5.45%. Og nú er öllum sú staðreynd ljós, að landbúnaðarframleiðslan vex ekkert í hlutfalli við aukna notkun innanlands, ekkert í samræmi við það, sem fólkinu fjölgar í landinu, og þess vegna er það rétt, sem hv. frsm. n. sagði hér áðan, að það eru litlar líkur til þess, að útflutningsbæturnar verði þungur baggi á ríkissjóði, einvörðungu vegna þess að notkun landbúnaðarvara í landinu vex stöðugt með fólksfjölguninni. En eins og hv. flm. till. sagði hér áðan, er það eðlilegt, að úr því að bændur hafa þá mórölsku skyldu að framleiða nægilegar landbúnaðarvörur fyrir innlenda markaðinn, sé þeim tryggt fullt verð fyrir umframframleiðslu til dreifingar og sölu á erlendum mörkuðum.

Það má deila um það, hvað hátt á að fara í þessu. Það mundi kannske einhver segja, að það væri alveg nóg að miða við 5%. En ég hygg, að jafnvel þótt útflutningurinn að undanförnu hafi aldrei verið meiri en 5.4%, sé óþarfi að vera að takmarka þessa upphæð svo mikið, að það gæti verið, að bændur hefðu halla af því að uppfylla þessa mórölsku skyldu sína við þjóðfélagið að hafa ávallt nóg á markaðinum af innlendum vörum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Ég vænti þess, að hv. deild viti það, að þetta er á samkomulagi byggt, og það er vitanlega öllum frjálst að leita eftir því að fá breytingar á þessu með samkomulagi. En sé það ekki gert á samkomulagsgrundvelli, lít ég svo á, að það sé verið að brjóta það samkomulag, sem gert var, og það tei ég bæði hættulegt og alls ekki rétt af neinum ástæðum. Ég tel, að einmitt það samkomulag, sem náðist í desembermánuði s.l., eigi að standa. Ég skal ekkert fara út í það hér, hverjum það er að þakka. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að það væri fyrir harða baráttu Stéttarsambandsins. Við skulum lofa Stéttarsambandi bænda að eiga þann heiður, sem því ber, — og hvers vegna skyldi Stéttarsamband bænda láta það afskiptalaust, hvernig fer um verðlagsmál landbúnaðarins? Vitanlega vildi Stéttarsamband bænda skipta sér af þessu máli og leysa það sem bezt, og við skulum ekkert draga af því, að það eigi þakkir skilið fyrir að hafa staðið þar að. En þá eiga einnig aðrir þakkir skilið, sem stuðluðu að þessu samkomulagi, þ.e. fulltrúar neytendanna. Við skulum þakka öllum þeim, sem stóðu að því og gerðu það mögulegt. En við skulum, um leið og við gerum það, forðast að gera nokkuð, sem getur spillt þessu samkomulagi og getur orðið steinn í götu þess, að það sé hægt að halda áfram að vinna á samkomulagsgrundvelli. Það er það, sem við þurfum að tryggja, og þessi löggjöf er eitt stærsta sporið í áttina til þess að tryggja samkomulag, ekki aðeins nú, heldur og eftirleiðis, ef það næst með þessum aðgerðum, skapa aukið traust á milli bændanna og bændafulltrúanna og neytendanna. En traust verður aldrei hægt að skapa, nema staðið sé við gerða samninga.