30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil taka undir tilmæli síðasta hv. þm. um áskorun til hæstv. forseta, að fundum verði nú hætt í kvöld og að hv. þdm. verði gefið frí. Mér er kunnugt um, að meðal hv. þdm. eru menn, sem hafa hugsað sér að taka þátt í hátíðahófi fullveldisins í kvöld og þegar keypt sér aðgöngumiða.

Annars langar mig til þess að spyrja hæstv. forseta: Hver er sú knýjandi nauðsyn fyrir því að halda störfum áfram í kvöld? Ég get vel hugsað mér svo knýjandi nauðsyn, að sjálfsagt væri fyrir alla hv. þm. að segja ekki orð við þessu. En hver er sú knýjandi nauðsyn? Ég er ekki enn þá farinn að heyra hana og vildi gjarnan óska þess, að hæstv. forseti svaraði þessu og kæmi með rök fyrir þessari miklu nauðsyn.