08.02.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

42. mál, fjárlög 1960

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Nú hefur ein mýksta silkitunga Sjálfstfl. gert grein fyrir nýju fjárlfrv. fyrir árið 1960. En þrátt fyrir alla mýktina mun þó athugull hlustandi hafa skynjað, að ýmislegt í hinni nýju efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. muni eiga eftir að koma allharkalega við íslenzka þegna, ef framkvæmd verður. Ekki var hæstv. fjmrh. sízt tungumjúkur um sparnaðarmöguleika í skrifstofubákni ríkisins og í vegamálum. En ég spyr: Varð þá ekki einhverjum hugsað til skrifstofubákns Reykjavíkurbæjar og til þess vegarspotta, sem dýrastur mun á Íslandi og frægastur, en það er Miklabrautin í Reykjavík? Áformaður sparnaður er sjálfsagt góður. En sparnaður, sem kominn væri í kassann, hygg ég þó að teldist miklu betri.

Að réttu lagi átti að afgreiða fjárlög ársins 1960 fyrir áramót, en nú er 1. umr. um þau að hefjast og komið fram í febrúarmánuð. Sjálfsagt getur Alþingi því ekki lokið afgreiðslu fjárl. í þetta sinn fyrr en einhvern tíma í marzmánuði. Þetta er fjarri því að vera eins og það ætti að vera.

Það var einnig brot á öllum sjálfsögðum venjum, er fjmrh. fékkst ekki til að segja aukatekið orð um fjárlfrv. eða fjármálaástand ríkissjóðs í þingbyrjun í haust, þegar fjárlfrv. var þó lagt fram. Nei, hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, þagði þá sem fastast, og svo var þingið, eins og landslýður veit, rekið heim frá öllum sínum ábyrgðarmiklu skyldustörfum og óleystu vandamálum. Ríkisstj. sagðist ekki hafa nokkurn frið til þess að hugsa og starfa. Og fyrir hverjum? Fyrir hinum nýkjörnu þjóðfulltrúum. Stjórnin tilkynnti í blöðum sínum, Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, að hún hefði ákveðið að reka þingið heim. Síðan var þessi blaðafrétt lögð fyrir Alþingi í tillöguformi, hún samþykkt af handjárnuðu stjórnarliði og þingið rekið heim. Dálítið nýstárleg vinnubrögð í þingræðislandi að vísu, en nauðsyn brýtur lög. Og nú stóð mikið til. Ríkisstj. Íslands ætlaði að leggjast undir feld eins og spekingurinn Þorgeir Ljósvetningagoði og upphugsa nýtt fjármála- og efnahagskerfi. Síðan heyrðist lengi vel hvorki stuna né hósti sjömenninganna undir feldinum, þar til vinnufriðnum var slitið og þingið kom saman á ný í janúarlokin. Þá var lagt fram nýtt fjárlfrv., byggt á djúphugsuðum grundvelli hins nýja efnahags- og fjármálakerfis. Upplag gamla fjárlagafrv., sem Guðmundur Í. Guðmundsson hafði samið í sumar, var orðið ónýtt, það var til einskis nýtilegt, aðeins til uppfyllingar í öskutunnunum. Var það nú annars nokkuð skrýtið, þótt það frv. yrði ónýtt? Í fyrsta lagi eru nú öll mannanna verk forgengileg, jafnvel verk mikilmenna, og svo hefur það frv. auðvitað verið samið undir áhrifum eyðslu- og sukkstefnu undanfarinna ára. Nú höfðu spekingarnir undir feldinum uppgötvað, að þjóðin hafði lengi lifað um efni fram. Nú skyldi henni kennd ráðdeild og sparsemi. Og hvað var þá eðlilegra en að byrja kennsluna ofan frá, með sparnaði og ráðdeild í ríkisbúskapnum, auðvitað með lækkuðum fjárl., niðurskurði á öllu rekstrarbákni ríkisins? Og svo hlaut hið nýja fjármála- og efnahagskerfi og þar með hið nýja fjárlfrv. auðvitað að verða í nánu samræmi við kosningastefnuskrá stjórnarflokk anna, Sjálfstfl. og Alþfl.

Af þessu tilefni er sjálfsagt að rifja upp helztu atriði þeirrar stefnu, sem þessir flokkar túlkuðu fyrir kjósendum fyrir kosningarnar í haust og lofuðu að framkvæma, ef þeir fengju aðstöðu til þess.

Sjálfstfl. sendi inn á flest heimili landsins myndskreytt rit, sem hét: „Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins — leiðin til bættra lífskjara“. Fyrsta boðorðið og loforðið þar var stöðvun verðbólgunnar. Samkomulagi skyldi náð milli launþega og framleiðenda og unnið að allsherjarsparnaði í opinberum rekstri. Þetta forskeyti „allsherjar-“ framan við sparnað á sjálfsagt að þýða, að sparnaðurinn í opinberum rekstri skuli verða stórkostlegur. Fengu menn líka hugboð um, að alvara fylgdi máli um sparnað í framkvæmd, þegar aðalsparnaðargoði Reykjavíkur, Gunnar Thoroddsen, var gerður að fjmrh. Sparnaðarboðskapurinn var svo enn undirstrikaður með setningunni: „Kostað skal kapps um að tryggja hag sparifjáreigenda“. Og talsvert minntist hæstv. ráðh. í ræðu sinni áðan á sparnað. Annað boðorðið í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. var loforð um jafnvægi í þjóðarbúskapnum, felldar skyldu niður uppbætur og niðurgreiðslur, skattur á eyðslu skyldi koma í staðinn fyrir tekjuskatt. Tekjuskatturinn skyldi þannig hverfa með öllu. Þriðja boðorðið var hátíðlegt loforð um stéttafrið, enda skyldi öllum tryggð næg atvinna og lífeyrissjóðum komið á fót fyrir alla Íslendinga. Fjórði kafli kosningastefnuskrár íhaldsins hét: „Uppbygging atvinnuveganna,“ og þar var enn skýrt fram tekið, að sérstök áherzla skyldi lögð á að hlúa að allri sparnaðarviðleitni. Fimmta kosningaloforðið var stutt og laggott: .,Hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi“ — sjálfsagt miklu betri heimi en við höfum haft viðskipti við nú um skeið. Og sjötta og síðasta boðorðið í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. var: „Aukin framleiðsla og bætt lífskjör.“

Þannig var stefna Sjálfstfl. fyrir kosningar. Rauði þráðurinn í henni er greinilega þessi: Bætt lífskjör, mikill sparnaður í öllum opinberum rekstri, allsherjarsparnaður hét það, stéttafriður tryggður, afnám tekjuskatts, skattar bara á eyðsluna, óhófseyðsluna, skilst mönnum, næg atvinna fyrir alla skyldi vera tryggð, uppbygging atvinnuveganna vera meginverkefnið og enn hert á í niðurlagi stefnuskrárinnar um öryggi atvinnulífsins með setningunni: aukin framleiðsla og bætt lífskjör. Menn áttu sem sagt ekki að þurfa að óttast atvinnuleysi, ef þeir kysu Sjálfstfl. Yfir flestar götur Reykjavíkur voru svo strengdir stórletraðir borðar, hvar á stóð: Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, kross við D.

Það var upp á efndir þessarar stefnuskrár, sem þúsundir kjósenda kusu Sjálfstfl. í haust. Lítum nú andartak á kosningaloforð Alþfl.

Þau voru í flestum atriðum hin sömu og Sjálfstfl., og flokkarnir ásökuðu hvor annan, eins og menn muna, um að hafa stolið stefnu hins. En þar var hátrompið þó þetta: Stöðvun dýrtíðarinnar án allra nýrra skatta. — Og nú á þessi dýrðlega fyrirkosningastefna Sjálfstfl. og Alþfl. að speglast í fjárlfrv. nr. 2 fyrir árið 1960, sem hæstv. fjmrh. var að útskýra hér áðan. Nú á leiðin til bættra lífskjara að blasa við. Nú þurfum við ekki heldur lengur að bíða eftir lausnarorðinu á því, hvernig Alþfl. og íhaldið fara að því að stöðva dýrtíðina án nýrra skatta. Og þá er að snara sér í að athuga 2. gr. fjárlfrv., eins og hæstv. ráðh. gerði, því að hún er um álagða skatta og tolla til ríkissjóðs.

Tekju- og eignarskatturinn hefur lengstum verið fyrsti töluliður þeirrar greinar. Báðir stjórnarflokkarnir höfðu hátíðlega lofað að leggja hann niður og láta hið dýra innheimtukerfi hans vegna hverfa með öllu. Og er tekjuskatturinn þá ekki horfinn í hinu nýja fjárlfrv.? Nei, því miður ekki alveg, en hann hefur þó lækkað um 97 millj. kr., á að gefa ríkissjóði þó áfram 70 millj. og kannske dálítið meir, og víst er um það, að innheimtukerfið allt heldur áfram og leggst nú allt með fullum þunga á leifarnar af skattinum. Verðtollurinn hefur lengstum verið meðal hæstu tekjustofna ríkissjóðs. Nú hækkar hann um nálega 100 millj. kr., og er þá lækkunin á tekjuskattinum strax uppétin og vel það. Innflutningsgjald af benzíni er rúmlega þrefaldað, hækkar úr 18 í 571/2 millj. kr. Gjald af innlendum tollvörum er líka rösklega þrefaldað, það hækkar úr 11 í 35 millj. kr. Lestagjald af skipum hækkar ekki nema um 100 þús. kr. eða um fimmta part. Bifreiðaskatturinn hækkar um hálfa aðra milljón. Svokallaðar aukatekjur hækka um rúman þriðjung, eða um 8 millj. og 300 þús. Stimpilgjald hækkar um 4 millj, og 100 þús. Vitagjaldið tvöfaldast. Útflutningsleyfagjöld eru rúmlega tvöfölduð. Þá kemur nýr, snotur söluskattur af vörusölu og þjónustu innanlands upp á 280 millj., og af honum á 1/5 hlutinn að renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en 224 millj. beint í ríkissjóðinn. Nýr tekjustofn er í frv., sem nefnist iðgjaldaskattur, upp á 9 millj., einnig innflutningsgjald, að upphæð 119 millj, kr. Tekjuliðurinn leyfisgjöld fimmfaldast og ívið betur þó, hækkar úr 10 í 52 millj. Og síðan lýkur greininni með pósti, sem nefndur er: Hluti af þóknun og gengismismun gjaldeyrisbankanna, og nemur sá 15 millj. kr.

Niðurstöður þessarar gr. fjárl. um áætlaða tolla og skatta eru, eins og fjmrh. sagði, 1201 millj. og 300 þús. kr. Á fjárlfrv. ómerka, sem fram var lagt í haust, voru hliðstæðar niðurstöðutölur 710 millj. og 800 þús. kr. Hækkunin nemur þannig 490 millj. kr. Allar tekjur ríkissjóðs í öskutunnufrumvarpi Guðmundar Í. Guðmundssonar í haust voru áætlaðar 976 millj. og 300 þús., en í þessu sparnaðarfrumvarpi Gunnars Thoroddsens eru þær áætlaðar 1464 millj. og 700 þús. kr., eða 488 millj. og 400 þús. kr. hærri, — hærri, en ekki lægri.

Útgjöldin hækka þó hlutfallslega heldur meira á sparnaðarfrv., og er greiðslujöfnuður því nokkru tæpari, þ.e.a.s. 1.8 millj. móti 21/2 á því ómerka. Kostnaður við stjórnarráðið hækkar ekki nema um rúma milljón. Utanríkismálin gera miklu betur, þau hækka um tæpar 8 millj. Dómgæzla og lögreglustjórn hækkar um 7 millj. Kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta, sem maður hefði þó átt von á að lækkaði verulega, hækkar að vísu ekki mikið, en þó nokkuð á aðra millj. kr. Þetta eru nú helztu fréttirnar, sem fjárlfrv. nýja hefur að færa um samdrátt sjálfs ríkisbáknsins, sem svo hefur verið nefnt: þ.e.a.s. um allsherjarsparnaðinn í opinberum rekstri undir handarjaðri sjálfs fjmrh. Það verður því miður að teljast heldur neikvæð niðurstaða samanborið við allan sparnaðarsönginn hjá báðum stjórnarflokkunum fyrir kosningar. Og nú fáum við aftur sparnaðarfyrirheit á næstu fjárl.

Þó eru til liðir á fjárlfrv. nýja, sem hækka ekki samanborið við sömu liði í ónýta frv. Þar má t.d. nefna alla launaliði frv. Þannig verða allir opinberir starfsmenn með lögbundið, óbreytt kaup allt árið 1960, þegar fjárlfrv. er orðið að lögum, og verður því kaupi auðvitað ekki haggað eða þeim launum, hver sem þróun verðlagsmálanna kann að verða undir hinu nýja efnahagskerfi. Eru opinberir starfsmenn, a.m.k. þeir lægra launuðu, ekki öfundsverðir af þeim lífskjörum, sem þeim með þessu eru búin, og verður að því vikið nokkuð síðar.

Af því að svo miklu var lofað um atvinnu handa öllum og uppbyggingu atvinnulífsins, hefði einhverjum kannske dottið í hug, að auknar yrðu nú verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins. Það verður þó a.m.k. ekki ráðið af hinu nýja fjárlfrv. Það kemur sem sé í ljós, að allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda eru óbreyttar að krónutölu frá ónýta frv. í haust og fjárl. ársins 1959. „Fjárveiting til nýrra akvega og til endurbyggingar þjóðvega er óbreytt,“ segir í aths. ráðh. við frv. „Fé til brúargerða er áætlað óbreytt frá fjárl. 1959,“ getur einnig að lesa í aths. Og enn stendur þar svart á hvítu: „Fjárveiting til hafnarmannvirkja og lendingarbóta er áætluð óbreytt frá fjárl. 1959.“ Þetta þýðir auðvitað mikinn samdrátt verklegra framkvæmda hjá ríkinu sökum hinnar gífurlegu stökkbreytingar í verðlags- og dýrtíðarmálum, sem hið nýja kerfi leiðir yfir þjóðina á næstu vikum og mánuðum.

Nú býst ég við, að einhver kunni að segja úr hópi hlustenda: Hvað er maðurinn að tala um dýrtíðarflóð og gífurlegar verðhækkanir? Hátíðlegustu loforð allra loforða stjórnarflokkanna beggja fyrir kosningar voru þó um stöðvun verðbólgu og dýrtíðar og það meira að segja án nýrra skatta. — Því miður verður að segja það, af því að það er satt, að fjárlfrv. sjálft flytur ótvíræða játningu hæstv. fjmrh. á því, að mikil verðhækkun sé fram undan, t.d. á öllum matvælum. Það er nefnilega sama, hvaða ríkisstofnun tekin er hvort sem það er landsspítalinn, fæðingardeildin, hjúkrunarkvennaskólinn, Vífilsstaðahæli, Kristneshæli, Kleppsspítali eða Kópavogshæli, alls staðar er liðurinn matvörur og fæðiskostnaður nú áætlaður um 15% hærri en gert var í ónýta frv. í haust. Þetta þýðir, að búizt er við a.m.k. 20–25% hækkun á matvörum síðari hluta ársins, þar sem verðhækkanir ná þó ekki til tveggja fyrstu mánaða ársins. Órækari sönnun fyrir því, að ríkisstj. sjálf veit vel, hvaða verðhækkunar- og dýrtíðarflóðöldu hún er að velta yfir þjóðina með hinu svokallaða nýja efnahagskerfi sínu, verður ekki fram borin.

Loforðið um stöðvun dýrtíðar er því ekki hægt að svíkja greinilegar en gert er. En það var einmitt sérstaklega út á blekkinguna um það, að Alþfl. hefði með hugrekki og karlmennsku forustumanna sinna stöðvað vaxandi dýrtíð, sem hann vélaði til sín atkv. kjósenda þúsundum saman.

En þó að ráða megi á margan hátt af fjárlfrv. nýja, hvert ríkisstj. stefnir með hinu svokallaða nýja efnahagskerfi sínu, var þetta þó allt miklu ljósara og skýrara, þegar stj. lagði fram á Alþ. fyrir viku frv. til l. um efnahagsmál. Víst voru flestir uggandi um, að boðskapur stjórnarherranna sjö mundi ekki verða neinn fagnaðarboðskapur, þegar þeir skriðu undan feldinum. En þó mun fæsta hafa órað fyrir því, að útkoman yrði jafnsótsvört afturhaldsstefna og raun ber vitni um. Hér er ekki aðeins um að ræða slíka stórárás á allar launastéttir landsins, að það á engin fordæmi í sögu seinustu áratuga, heldur er ofan á það bætt margföldum kerfisbundnum aðgerðum til samdráttar á öllu athafna- og atvinnulífi landsmanna. Fær enginn annað séð en þær aðgerðir hljóti að valda slíkum afturkipp og þrengingum í atvinnulífinu, að áður en vari hljóti að leiða til atvinnuleysis.

Meginefni frv. um efnahagsmál er þetta: Erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um 135%. Þetta þýðir, að 38 ísl. kr. þarf til greiðslu á 1 Bandaríkjadollar og 106 ísl. kr. til greiðslu á einu ensku pundi. Er hér um að ræða stórfelldari gengislækkun en nokkurn tíma áður hefur verið framkvæmd hér á landi. Af þessu leiðir stórkostlega verðhækkun allra erlendra vara, og verður verðhækkunin þó langmest á allri nauðsynjavöru til fæðis og klæðis. Ýmsar vörur fá þá einnig á sig stórhækkaða tolla og skatta að auki, svo sem eins og benzínið, og hækka þannig í verði miklu meira en af sjálfri gengislækkuninni leiðir. Sjálfir sérfræðingar ríkisstj. hafa reiknað út, að sem afleiðing af gengislækkuninni mun verðlag hækka um 14%, en það jafngildir 29 vísitölustigum skv. gamla vísitölukerfinu. Þetta á nú að bætast ofan á ca. 10% kjaraskerðingu á liðnu ári. Ég er sannfærður um, að verðhækkanirnar verða þó miklu meiri en hagfræðingunum reiknast til. Þannig hefur reynslan alltaf orðið við hverja gengislækkun.

Þá er það annað atriði frv., að allar vísitöluuppbætur á kaup skuli vera bannaðar. Ef stöðugt verðlag væri fram undan, væri þetta e.t.v. ekki svo tilfinnanlegt fyrir launþega. En þegar vitað er um 20–30% verðhækkanir flestra nauðsynjavara á næstu vikum og mánuðum og kaupið á að standa óbreytt, þá er þetta launþegunum mjög mikið áfall.

Sjálfsagt mætti finna vísitölukerfinu ýmislegt til foráttu. En það hefur þó aldrei verið annað en mælikvarði á vöxt dýrtíðarinnar hverju sinni. Þegar skýrslur sýndu, að verðlag hafði hækkað um ákveðið magn á liðnum ársfjórðungi, þá var viðurkennt, að launþegar skyldu fá kaup sitt bætt með vísitöluálagi til nokkurs samræmis við hækkað verðlag næsta ársfjórðung á eftir. Á sama hátt, ef verðlag lækkaði, skyldi vísitalan mæla kaupið til lækkunar í hlutfalli við hið lækkaða verðlag ársfjórðungsins. Ekki er hægt að sjá annað en að vitneskjan um kauphækkun í kjölfar verðhækkana hafi hlotið að veita nokkurt aðhald um að fara hófsamlegar í veráhækkanir en ella. En nú verður því aðhaldi a.m.k. í burtu kippt, og hækkanir verðlags verða þá því eftirsóknarverðari en áður, þegar vitað er, að kaupið á að sitja óbreytt eftir. En sem sagt, nú verða vísitöluuppbætur á laun bannaðar, og mun það valda launþegum öllum, eins og ég sagði áðan, þungum búsifjum í hraðvaxandi dýrtíð.

Því hefur stundum verið haldið fram, að það væri ekki von, að íslenzkar framleiðsluvörur gætu verið samkeppnisfærar við erlendar, vegna þess, hversu kaup verkafólksins væri ofsahátt hér á landi. Aldrei hefur þetta haft við nein rök að styðjast, en því mun a.m.k. enginn geta haldið fram, ef þetta gengislækkunarfrv. ríkisstj. verður að lögum. Það er nefnilega staðreynd, að eftir lögfestingu þess yrði allt kaup á Norðurlöndum orðið miklu hærra en hér á landi miðað við pund og dollar, og enn meiri yrði munur íslenzkum verkamönnum í óhag, ef miðað væri við kaupmátt launanna. Eftir gengislækkunina mundu íslenzkir verkamenn óefað vera orðnir meðal verst launuðu verkamanna í Evrópu. Miðað við Bandaríkin yrði samanburðurinn þó enn þá hraksmánarlegri. Þar er lágmarkskaup ákveðið í lögum, sett til verndar svertingjum og allra lægst launuðu hvítum mönnum, og mun það vera 1 dollar á klst. Það þýðir þó 38 ísl. kr. eftir gengislækkunina. En hér er karlmannskaupið nú rúmar 20 kr. og verður því aðeins rúmur hálfur dollar á klst. Algengasta kaup iðnaðarmanna í Bandaríkjunum er hins vegar 2–3 dollarar á klst. eða samsvarandi 76–114 kr. á tímann. Hvernig ætli mönnum lítist annars á það, ef verkalýðssamtökin í þessu landi, landi amerískra fyrirmynda, en um leið landi mestu framleiðsluafurða, sem sögur fara af, færu nú allt í einu að gera kröfur um amerískt kanpgjald eða jafngildi þess.

Þá er það eitt af efnisákvæðum efnahagsmálafrv., að víxilvextir eiga að hækka í 12% og aðrir vextir sjálfsagt í hlutfalli við það. M.a. er vaxtaákvæðum margra laga breytt með einni lagagr. í þessu frv., og er slíkt að allra dómi óverjandi löggjafarvinnubrögð. En miklu alvarlegra er þó hitt, að með þessu tekur ríkisstj. sér alræðisvald til að eyðileggja árangurinn af löggjafarstarfi margra ára eða áratuga. Með ákvörðun um hækkun vaxta hjá fiskveiðasjóði, ræktunarsjóði, byggingarsjóði sveitabæja, byggingarsjóði ríkisins, byggingarsjóði verkamanna o.s.frv. er hægt að draga úr eða stöðva mikilsverða þjónustu þessara sjóða fyrir fólkið og valda miklum samdrætti í atvinnulífinu og í almennum framkvæmdum. Þetta verða sjálfsagt hæstu vextir í heimi, ekki efa ég það, enda eru okurvextir, sem taldir hafa verið til þessa, hér með gerðir löglegir og okurvaxtaákvæði öll numin úr íslenzkum lögum.

Vaxtahækkunin mun hitta flesta í þjóðfélaginu og hafa hin víðtækustu stöðvunar- og lömunaráhrif, ekki aðeins í byggingariðnaðinum, þar sem áhrifanna gætir e.t.v. fyrst nú strax með vorinu, heldur hvarvetna í atvinnulífinu, enda er tilgangurinn sá og enginn annar. Getur þessi vaxtahækkun hæglega valdið fjárhagslegu hruni hjá mörgum manninum, sem áður hafði tefit á tæpasta vað, t.d. í sambandi við að eignast þak yfir höfuðið, og mun hún þó koma miklu víðar við. En ekki er nóg með þetta. Svo áhrifaríkt tæki sem vaxtahækkunin verður til samdráttar í atvinnu- og framkvæmdalífi þjóðarinnar, er þó annað ákvæði í frv., sem fer í sömu átt og á áreiðanlega að verða öllu stórvirkara í þessu efni. Þetta er ákvæðið um bann við útlánaaukningu bankanna. Ekkert er líklegra til að stöðva útgerðina en einmitt þetta og alveg sérstaklega ef vel aflaðist. Má furðulegt heita, ef útgerðarmenn í þingliði stj. smeygja slíkri snöru um eigin háls með glöðu geði, því að óhugsandi er, að þeir viti ekki, hvað í þessu ákvæði felst. Hjá því verður ekki komizt, að fjármagnsþörf alls atvinnurekstrar eykst stórkostlega við hina vaxandi dýrtíð af gengislækkuninni og þessum ráðstöfunum öllum. Lánabannið verður því mikið áfall fyrir atvinnuvegina og verkar óefað sem rothögg í sumum tilfellum.

Ég óttast, að þessar samdráttarráðstafanir, sem ég hef nú lýst, verði lífsafkomu verkafólks jafnvel enn þá skaðvænlegri en sjáif gengisfellingin. En þegar allt leggst á eitt: verðhækkanir gengisfallsins, vísitöluafnámið, vaxtahækkanirnar og atvinnusamdráttur lánabannsins, þá hygg ég, að flestum launþegum muni finnast þröngt fyrir dyrum.

Víst höfðu íhaldið og Alþfl. boðað það svo skýrt, að skiljast mátti, fyrir kosningar, að þeir væru ákveðnir í að fella gengið, ef þeir fengju til þess stjórnhæfan meiri hluta. En samt er kjósendum nokkur vorkunn, þó að þeir segi nú sem svo: Við létum okkur aldrei detta í hug, að þetta yrði neitt svona ægilegt. — Það er harðsvíruð afturhaldspólitík af veistu tegund, sem nú er boðuð og ákveðin af stjórnarflokkunum. Ríkisstj. virðist ætla í einni atlögu að minnka neyzlu og fjárfestingu nokkuð á annað þúsund milljóna. Á fjárl. eru teknar 400 millj. í nýjum sköttum. Innfluttar vörur á þessu árí samkvæmt innflutningsáætlun sjálfrar ríkisstj. hækka vegna gengislækkunarinnar fast að 600 millj., duldar greiðslur hækka um a.m.k. 150 millj., og vaxtahækkunin bætir áreiðanlega, eins og Eysteinn Jónsson sagði hér áðan, nokkrum hundruðum milljóna ofan á allt þetta.

Og svo er þrástagazt á, að öll þessi ókjör eigi að bæta öllum með 150 millj. kr. hækkun trygginga og afnámi tekjuskatts á lágtekjur, samtals eitthvað um eða yfir 200 millj. Slíkt er auðvitað argasta fjarstæða, langt frá því að vera á borð berandi fyrir nokkurn skyni borinn mann. Tekjuskatturinn á lágtekjur fjölskyldumanna hefur aldrei verið hár, og niðurfelling hans í slíkum tilfellum er því ekki mikil réttarbót. Fjölskyldubætur eru hins vegar mikils virði fyrir barnmargar fjölskyldur, en slíkar fjölskyldur verða líka harðast fyrir barðinu á vaxandi dýrtíð. Þar kemur dýrtíðin harðast niður. Slíkir eru það, sem verða einmitt fyrir skattlagningu á eyðsluna, sem þeir vísu herrar kalla svo. Má mikið vera, ef barnmargar fjölskyldur verða ekki einnig fullsaddar af sínu hlutskipti um það leyti sem allar afleiðingar þessara ráðstafana eru komnar fram af fullum þunga.

Þá er það elli- og örorkulífeyririnn. Hann hefur dregizt svo aftur úr, rýrnað svo að kaupmætti, að ósæmilegt verður að teljast. Hefði verið óhjákvæmilegt að hækka þessar bætur trygginganna um a.m.k. 20–25%, til þess að þær fengju svipaðan kaupmátt og þær höfðu, þegar tryggingarnar hófu göngu sína. En ef fullar efndir verða á 40% hækkun lífeyrisins og örorkubótanna, þá verður um 15–20% hækkun eftir til þess að mæta vaxandi dýrtíð, og mun sízt af því veita. Þetta er sem sé gott, svo langt sem það nær. En ég minni á, að kauprán á þessu fólki var líka bókstaflega ekki framkvæmanlegt. Þess vegna get ég tæpast fengið mig til að lofsyngja hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún framdi ekki níðingsverk á þessu fólki ofan á allt annað.

Eitt af því, sem mikla furðu vekur í frv. þessu, er það, að þrátt fyrir allan sönginn um, að landið sé sokkið á bólakaf í skuldir og rísi ekki undir greiðslubyrði vaxta og afborgana erlendra lána, þá er nú tekið 20 millj. dollara eyðslulán til skamms tíma eða fast að 800 millj. ísl. kr., og mun eiga að heita gjaldeyrissjóður, að vísu allur í skuld. Myndarlegur sjóður það! Er naumast betur hægt á annan hátt að ómerkja þá röksemd fyrir þessum aðgerðum, að landið sé sokkið í skuldir, heldur en gert er með þessari feiknalántöku.

Þá er röksemdin um, að þessar aðgerðir séu óumflýjanlegar sökum ægilegs greiðsluhalla á undanförnum árum. Hefur forsrh. — og nú rétt áðan hæstv. fjmrh. líka — hvað eftir annað nefnt 1000 millj. í því sambandi. En talan er alröng og hefur hvað eftir annað verið margsannað, svo að ekki verður hrakið. Hitt hefur líka verið sannað, að seinustu árin vorum við með aukinni framleiðslu rétt í þann veginn að ná fullum jöfnuði. Gat engum dulizt, að vandalaust var með aukinn framleiðslu, betri nýtingu vinnuafls og vinnutækja og með aukinni og bættri vinnslu afurðanna í landinu sjálfu að ná fullum greiðslujöfnuði án nokkurra slíkra kollsteypuaðgerða, sem nú eru ákveðnar. Auk þess mátti að skaðlausu draga nokkuð úr nauðsynlegri fjárfestingu og þannig hefja myndun nauðsynlegra gjaldeyrísinnstæðna. Það eru því falsrök ein og fyrirsláttur, að stj. hafi verið til þess neydd að kasta sér út í þessar aðgerðir. Þar eru allt önnur öfl að verki, erlend og innlend. Lengi höfum við vitað það, að íhaldið hafð fullan hug á að knýja fram allt aðra skiptingu tekna og eigna, gerbreyta hlutfalli verðmætanna milli vinnu og fjármagns frá því, sem verkalýðshreyfingin hefur knúið fram með áratugabaráttu sinni. En þessu treysti íhaldið sér ekki til að koma fram, fyrr en það fékk Alþfl. nú til liðs við sig, og þó er eftir að sjá, hvort það tekst samt. Ég held, að þessar aðgerðir séu óframkvæmanlegar í sjálfu sér og hljóti því að mistakast.

Það hefur verið mikið flaggað með orðinu frelsi í sambandi við þessa aðgerðir, og líka hefur verið talað um afnám hafta og banna, og þetta lætur allt saman ve í eyrum. Hæstv. ráðh, sagði, að nú ætti t.d. að leggja niður innflutningsskrifstofuna. En ég spyr: Á þó ekki samt sem áður að sækja um innflutningsleyfi og útflutningsleyfi, fjárfestingarleyfi, bílaleyfi, jeppaleyfi o.s.frv.? Og er ekki komið á vísitölubanni, lánabanni og fjölda af nýjum bönnum? Hvar er þá frelsið? Ekki er því elnu sinni til að dreifa, að uppbóta- og niðurgreiðslukerfið sé afnumið, eins og marglofað var, því að niðurgreiðslukerfið mun standa óhaggað og verður meira að segja aukið stórlega frá því, sem verið hefur.

Nú spyrja menn úr öllum áttum: Hvað gerir verkalýðshreyfingin? Ætlar hún ekki að kollvarpa þessu fargani undireins? Verða ekki verkföll út af þessu strax? Þetta sýnir raunar, að á neyðarinnar stund renna menn vonaraugum til verkalýðssamtakanna og treysta helzt á styrk þeirra sér til verndar. Og þau munu vissulega enn sem fyrr reynast þess megnug að vernda lífskjör umbjóðenda sinna. En það vil ég taka skýrt fram að gefnu tilefni, að engin samráð hafa verið höfð við verkalýðssamtökin um allar þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Og því bæti ég við, að enginn einn maður getur um það sagt, hvað verkalýðsfélögin kunni að gera nú. Þau eru lýðræðislegar stofnanir, sem hafa fullt frjálsræði um sín innri mál. Þau hafa nú nálega öll lausa samninga og geta því hvenær sem er borið fram kröfur sínar og hafið samninga um kaup og kjör. En innan hvers félags munu fara fram lýðræðislegar umræður um efnahagsaðgerðir stj. og þjóðfélagsverkanir þeirra, og síðan taka þau hvert um sig sínar ákvarðanir. En hvort þau ákveða að hafa meira eða minna víðtækt samstarf sín á milli, það er einnig þeirra mál. Alþýðusambandið getur engin fyrirmæli gefið og vill engin fyrirmæli gefa í þessum efnum. En ef fólkið í verkalýðsfélögunum fellst ekki á nauðsyn eða réttmæti þessara aðgerða og dæmir þær ranglátar, þá munu þessi voldugu verk innlendra og erlendra sérfræðinga og 7 valdamikilla ráðh. hrynja eins og spilaborg til grunna, og það er mér nær að halda, að þau geri. Verkalýðshreyfingin er þó áreiðanlega viðbúin og mun gera skyldu sina. Og eitt er ég alveg viss um, og það er þetta: að nú er mörgum manninum ljóst, að Alþfl. hefur hraklega vanefnt fyrirheit sitt um stöðvun dýrtíðarinnar án nýrra skatta, og eins er hitt augljóst öllum, að leiðin til bættra lífskjara er illa tryggð með því að kasta atkv. sínu á Sjálfstfl.

Alþb. heitir nú á alla stuðningsmenn sína um land allt að búast til varnar gegn afturhaldspólitík íhalds og Alþfl. og hefja sókn gegn þessum aðgerðum. — Góða nótt.