16.03.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

42. mál, fjárlög 1960

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér neitt í þær almennu fjárlagaumr., sem hér fara fram, heldur aðeins mæla fyrir nokkrum brtt., þeim brtt., sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm. Það er að vísu sá galli á, að þeim till. hefur ekki enn verið útbýtt, en ég verð nú samt að fara um þær nokkrum orðum.

Þessar till. eru fimm að tölu, og lúta þrjár þeirra að samgöngugr., en tvær að 20. gr. Fjórar þessara till. flyt ég ásamt þeim 1. þm. Norðurl. v. (SkG), 5. þm. Norðurl. v. (BP) og 11. landsk. þm. (GJóh).

Fyrst mun ég ræða brtt., sem er við brtt. fjvn. á þskj. 174 og er við vegakaflann, um það, að inn komi nýr liður, sem verði 85. liður, Siglufjarðarvegur ytri. Þessi brtt. okkar er á þá lund, að til Siglufjarðarvegar ytri verði veittar 800 þús. kr. á þessum lið. Á fjárl. fyrir árið 1959 voru veittar til Siglufjarðarvegar ytri 500 þús. kr. og auk þess 200 þús. kr. af millibyggðavegafé, eða samtals 700 þús. kr. Nú er í þessu fjárlfrv. aðeins gert ráð fyrir 200 þús. kr. fjárveitingu af millibyggðavegafé til þessa vegar, eða réttara sagt það er í till. fjvn., og það er gert skv. till. vegamálastjóra. En við þm. Norðurl. v. komum saman á fund á sinum tíma og athuguðum þær vegatill., sem komu frá vegamálastjóra, og við urðum sammála um það þar að leggja einróma til við fjvn., að fjárveiting til þessa vegar, Siglufjarðarvegar ytri, yrði 1 millj. kr. að upphæð. Sú till. hefur ekki fengizt tekin til greina, heldur er, eins og ég sagði áðan, aðeins gert ráð fyrir 200 þús. kr. af millibyggðavegafé í þessu skyni. Þess vegna flytjum við, þessir þm., sem að þessari till. stöndum, till. um, að veittar verði 800 þús. kr. á þessum lið. Þá verður heildarfjárveitingin til þessa vegar 1 millj. kr., eins og við þm. Norðurl. v. allir vorum sammála um að leggja til.

Það þarf ekki að eyða orðum að því hér, hversu samgönguerfiðleikar við Siglufjörð eru miklir. Það er að vísu bilfær vegur þangað yfir stuttan sumartíma, en að öðru leyti eru samgöngur við Siglufjörð ákaflega erfiðar, eins og allir vita, sem nokkuð þekkja til. Og bætist þó þar við það nú, sem ég mun síðar koma að, að nýlega hafa lagzt niður flugsamgöngur við Siglufjörð. Siglufirði er því mikil nauðsyn á bættum samgöngum, og samgöngur við Siglufjörð á að bæta til frambúðar þannig að leggja þennan ytri Siglufjarðarveg eða Strákaveg, sem kallaður er. Og eins og menn vita, þá er það gert með þeim hætti, að sprengd verða göng í gegnum það klettabelti, sem kallað er Strákar, en vegur síðan lagður um Úlfsdali, Dalaskriður og inn Almenninga. Með þeirri fjárhæð, sem veitt var til þessa vegar í fyrra, hefur þegar verið kannað vegarstæðið á Almenningum. Eins hafa verið gerðar tilraunir varðandi það að sprengja þarna jarðgöngin, og þessar tilraunir virðast gefa góða raun. En þessu þarf að halda áfram, og það er áreiðanlegt, að það verða Siglfirðingum ákaflega mikil vonbrigði, ef þessi fjárveiting er svo að segja felld niður. Það er að sjálfsögðu rétt, að kostnaður við þessa vegagerð, Strákaveginn, verður ákaflega mikill, og það er eins og hv. þm. er kunnugt, að það er gert ráð fyrir því að leysa það mál með lántökum, og varðandi það efni liggur nú fyrir þáltill., og ég mun ekki ræða það hér. En það er öllum ljóst, að Siglufjörður þarf á betri samgöngum að halda. Siglufjörður er mikil atvinnustöð, þar er ein stærsta síldveiðistöð landsins, þar er atvinnulíf mikið yfir sumartímann, þar eru margir aðkomumenn og leið margra liggur þangað. Siglfirðingar hafa lagt á undanförnum árum ákaflega drjúgan hlut til þjóðarbúsins, átt mikinn hlut að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, og það er þess vegna eðlilegt, að Siglfirðingar telji sig eiga nokkra kröfu á hendur því opinbera, enda þótt það sé fjarri mér að halda því fram, að hið opinbera hafi ekki að ýmsu leyti gert vel við þá á undanförnum árum.

En aðeins í sambandi við þessa brtt. vildi ég drepa á það, og það er leitt, að formaður fjvn. fer burt, að fjvn. virðist hafa breytt þarna lið 34 í sínum brtt., þar sem stendur: Siglufjarðarvegir með 500 þús. kr. Í till. frá vegamálastjóra stóð: Siglufjarðarvegur 500 þús. kr. En það hefur alltaf verið í fyrri fjárl. greint á milli þessa tvenns, Siglufjarðarvegar og Siglufjarðarvegar ytri. Vegamálastjóri áætlaði þessa upphæð 500 þús. kr. til Siglufjarðarvegar og gerði ráð fyrir því, að þá upphæð þyrfti að nota til þess að malbera veg, sem búið er að byggja upp frá Stafá og til Haganesvíkur. Það voru allir þm. kjördæmisins sammála um þessa till. og töldu það eðlilegt. Og mér er kunnugt um, að vegamálastjóri lítur svo á, að þessari fjárhæð verði varið til Siglufjarðarvegar í þessu skyni, sem ég hef drepið á. Og komi ekki fram aths. við það hér, þá lít ég svo á, að þm. kjördæmisins séu allir sem fyrr sammála um þá ráðstöfun. En helzt hefði ég viljað líta á þessa breyt., sem þarna er gerð, sem prentvillu, því að hún hefur verið gerð án þess, að samráð hafi verið haft við mig.

Þá er það næsta brtt., sem ég ásamt sömu mönnum flyt, hún er við kaflann um hafnir. Það er við lið 27 þar, sem er Hofsós, en samkvæmt till. fjvn. á þskj. 174 er gert ráð fyrir að veita til Hofsóshafnar 250 þús. kr. En í þeirri brtt., sem við flytjum, er lagt til, að í staðinn fyrir 250 þús. kr. komi 350 þús. kr. Í fjárl. fyrra árs voru veittar 200 þús. kr. til Hofsóshafnar. Bætt hafnarskilyrði eru lífsskilyrði fyrir Hofsósbúa. Íbúar Hofsóss stunda sjávarútveg og lifa eingöngu af því að sækja sjó, ef svo má segja. Þar eru efnilegir sjómenn og ágætir, en það hefur vegna lélegra hafnarskilyrða og vöntunar á bryggju verið nær ómögulegt að hafa nema opna, litla vélbáta þar. Á s.l. ári voru þó fengnir þangað 2 þilfarsbátar nokkru stærri, sem miklar vonir voru við bundnar, en það sorglega atvík gerðist, sem hér þarf ekki að rifja upp, að á s.l. hausti fórst í aftakaveðri annar þessi bátur í Hofsóshöfninni og við bryggjuna á Hofsósi. Það er ekki of sterkt að orði kveðið, að ég hygg, að það mundu vera miklar líkur til þess, að þetta stórkostlega og sviplega slys hefði ekki viljað til, ef það hefði verið búið að lengja bryggjuna á Hofsósi. Lenging bryggjunnar hefur verið undirbúin. Það er ætlunin að bæta steyptu keri við bryggjuna á næsta sumri. Það er áætlað, að það kosti að koma því fyrir yfir 1100 þús. kr. Frekari framkvæmdir þar eru svo nauðsynlegar til þess að nokkurt öryggi verði þarna í höfninni. Fjárveiting þessi, 250 þús. kr., er að mínum dómi allt of lág, til þess að hægt verði að hrinda þessu í framkvæmd. Við allir þm. Norðurlandskjördæmis vestra og landskjörnir þm. þaðan lögðum það til einróma í till, okkar til fjvn., að þessi liður yrði hækkaður í 350 þús. kr., eins og við nú gerum till. um. Það er að sjálfsögðu, að þetta sviplega áfall, sem þarna varð á Hofsósi í vetur, verður ekki bætt, en það mundu þó vissulega verða sárabætur íbúum þessa staðar, ef þeir fyndu það, að hér á Alþ. ríkti skilningur á þeirra málum og þeirra þörf.

3. brtt., sem ég flyt svo ásamt sömu þm., er aftur við 20. gr., það er til flugvallagerðar. Það er um það, að þar komi inn nýr liður, Siglufjörður með 300 þús. kr. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég áður sagði um þá samgönguerfiðleika, sem eru og hafa verið við Siglufjörð. Nokkuð hefur það bætt úr þeim samgönguerfiðleikum, sem Siglfirðingar hafa átt við að búa, að um s.l. 15 ára skeið hefur verið haldið uppi flugsamgöngum þangað með sjóflugvél, og þó að þær ferðir hafi stundum verið stopular, þá hefur það þó bætt mjög mikið úr. Þessum ferðum hefur verið haldið uppi með einni flugvél Flugfélags Íslands, Katalínuflugbáti. En nú hefur svo slysalega viljað til, að þessi vél hefur bilað, eða það þarf að fara fram á henni viðgerð, svo að fyrir nokkru hafa flugsamgöngur við Siglufjörð algerlega fallið niður. Það er með öllu óviðunandi. En það er sýnilegt, að á þessu verður ekki full bót ráðin, fyrr en gerður er flugvöllur á Siglufirði. Það þarf að koma málunum í það horf, að það sé hægt að halda uppi nokkurn veginn öruggum flugsamgöngum við þennan stað, sem hefur verið og er svo þýðingarmikill í atvinnulífi landsmanna. Það munu nú því miður ekki liggja fyrir fullnægjandi athuganir á því, hvernig hægt verði að gera þarna flugvöll, en það er álit kunnugra manna, að það muni vera hægt að gera þarna sæmilegan flugvöll með tiltölulega auðveldum hætti.

Það liggur nú fyrir hér þáltill, varðandi athugun á flugsamgöngum við Siglufjörð. En við, sem þessa brtt. flytjum og leggjum til, að þetta fé verði veitt til flugvallargerðar á Siglufirði, teljum það eðlilegt að veita þessa fjárveitingu til byrjunarframkvæmda.

Um þessa brtt. skal ég svo ekki fara fleiri orðum. 4. brtt. flyt ég svo enn ásamt sömu þm., er áður greinir, og .hún er við samgöngumálagreinina og lýtur að brúakaflanum, og hún er um það, að þar komi inn nýr liður á eftir Egilsá í Norðurárdal í Skagafirði. Það er Jökulsá eystri í Skagafirði hjá Merkigili 400 þús. kr., þ.e.a.s. að lagt er til, að það séu veittar 400 þús. kr. til þess að gera brú á Jökulsá eystri í Austurdal í Skagafirði.

Austurdalur í Skagafirði er blómlegur og búsældarlegur dalur. Það er talið, að eitt sinn hafi verið í Ábæjarsókn, sem þar er, 20 bæir. Nú er því miður svo komið, að í hinni fornu Ábæjarsókn eru aðeins 2 bæir byggðir, Skatastaðir vestan ár, sem eru í vegasambandi, en austan ár Merkigil, sem er einnig fyrir framan Merkigil, sem er ákaflega torfært, eins og allir þeir vita, sem þangað hafa komið. Þessi bær, Merkigil, er því algerlega einangraður nú og í engu akvegasambandi við byggðina að öðru leyti. Á þessum bæ, Merkigili, hefur nú búið s.l. 16 ár ekkjan Monika Helgadóttir ásamt börnum sínum, en áður hafði hún búið þar mörg ár með bónda sínum, Jóhannesi Bjarnasyni. Öll þessi ár, sem Monika hefur búið þarna, hefur hún búið þar með frábærum myndarskap, ég vil segja með alveg einstæðum myndarskap. Ég hygg að það sé leitun á býli, sem er jafnánægjulegt og myndarlegt að koma á eins og að Merkigili, því að þar er allt með jafnfrábærum myndarskap, jafnt úti sem inni. Ég gæti hugsað mér það, að ýmsir af hv. þm. hafi lesið bókina „Konan í dalnum og dæturnar sjö“ eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Og hafi þeir lesið þá bók, þá þarf ég ekki að fara fleiri orðum um þetta málefni. En þarna hefur Monika Helgadóttir búið með dætrum sínum sjö og einum syni og komið þeim öllum til manns með hinum mesta myndarskap. Og það er hægt í einni setningu að segja það, að saga hennar er hetjusaga. Hið opinbera hefur líka viðurkennt það, að hennar saga væri hetjusaga. Þessi kona hefur verið gerð að heiðursfélaga í Búnaðarfélagi Íslands. Það hygg ég að fágætt sé. Og þessi kona hefur líka verið heiðruð, fengið kross, sem líka er fremur fágætt um konu. Þarna vill Monika Helgadóttir búa áfram, og þarna vilja dætur hennar margar og börn búa áfram. Og það er svo mikill hugur í þessari fjölskyldu, að nú hafa þau sótt um það að stofna þarna nýbýli, og það stendur til, að það verði reist þarna nýbýli, og þá mætti kannske vænta þess í framtíðinni, að býlum fari aftur að fjölga í Ábæjarsókn.

En hvað sem góðum vilja líður og ásetningi hjá þessu kjarnmikla og góða fólki, sem þarna býr, þá er það alveg útilokað, að þarna geti til lengdar byggð haldizt, ef áfram á að búa við þá einangrun, sem þarna er. Ef það á að halda þessari byggð við, þá verður hún að komast í vegasamband og fá brú yfir þessa á. Verkfræðingur hjá vegamálastjóra hefur gert lauslega áætlun um kostnað við að byggja brú yfir Jökulsána, Jökulsárgljúfrið, brú, sem nægði til þess, að yfir hana gætu farið jeppar og léttir traktorar, og hann áætlaði kostnaðinn s.l. sumar 400 þús. kr. Það er nú ekki stærra, sem um er að ræða, og ég vil segja það, að nú geta hv. þm. sýnt manndóm sinn og hug til þessarar konu með afstöðu sinni til þessarar brtt., sem við höfum hér flutt.

5. og síðasta brtt., sem ég mun ræða hér um og ég flyt ásamt 1. þm. Norðurl, v., 5. þm. Norðurl. v. og 4. þm. Norðurl. e., er breyt. við 20. gr., þ.e.a.s. við 109. brtt. hjá fjvn. á þskj. 174. Það er að bæta þar við nýjum lið, c-lið, til vélakennsluverkstæðis á Hólum í Hjaltadal, 250 þús. kr. Það hefur v erið sent erindi til fjvn. um þetta atriði, en hún hefur ekki getað fallizt á að taka þessa fjárveitingu, þennan lið, upp í sínar till. En það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hvílík verðmæti eru fólgin í vélum þeim, sem bændur rafa aflað sér, og það þarf ekki að fjölyrða um það, hversu geysilega þýðingarmikið það er, að menn kunni að fara með þær vélar og kunni að hirða þær vélar. Það er þess vegna alveg áreiðanlegt, að fátt er bændaefnum kennt þarfara en einmitt það. En til þess að búfræðingar geti fengið nægilega og hæfilega kennslu í þessum efnum á bændaskólanum, er talið, að það þurfi að koma þar upp slíkum vélaverkstæðum. Og mér er óhætt að segja, að Búnaðarfélag Íslands hefur mælt með þessu erindi. Það hefur mælt með því, að það væri komið upp á Hólum slíku vélakennsluverkstæði. En það er áætlað, að bygging slíks verkstæðis mundi kosta 250 þús. kr., en síðan mundi svo þurfa til að koma nokkur fjárveiting til nauðsynlegra véla og áhalda þar. Ég sé, að hv. fjvn. hefur tekið upp einmitt í þessa liði, sem þarna er um að ræða, fjárveitingu allríflega til Hvanneyrar. Það skal sízt talið eftir. En ég verð að telja það sanngjarnt, að það sé líka litið til Hóla og þessi fjárveiting veitt.