17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

42. mál, fjárlög 1960

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Með örfáum orðum vildi ég gera hér grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt við frv. til fjárlaga.

Í framsöguræðu sinni í gær minntist hv. formaður fjvn. á úthlutun til tónlistarskóla og sagði eitthvað á þá leið, að engin vissa væri fyrir því, að úthlutun n. til hinna ýmsu tónlistarskóla sé í samræmi við starfsemi þeirra. Er þetta orð að sönnu, og ber úthlutunin því vitni, að nokkuð er rennt blint í sjóinn um úthlutunina, og skal ég benda á eitt atriði, sem sýnir, að orð hv. þm. eiga fullan rétt á sér.

Tónlistarskóla Hafnarfjarðar eru ætlaðar 10 þús. kr. í till. n., en í þessum skóla, sem verður 10 ára á þessum vetri, eru 150 nemendur við hvers konar tónlistarnám. Við skólann starfa fjórir hinir færustu kennarar, og til skólans mun bæjarsjóður Hafnarfjarðar veita á þessu ári tugi þúsunda króna til hljóðfærakaupa og kennslu. Skólastjóri og aðrir kennarar skólans vinna hið merkasta starf að almennri tónlistarfræðslu, sem er ekki miðuð eingöngu við hina fáu, sem skara fram úr öðrum. Sést það bezt á því, að eins og ég áður gat um, eru í skólanum 150 nemendur, sem munu svara til 1600–1700 nemenda í tónlistarskóla Reykjavíkur, og kem ég þá að óhjákvæmilegum samanburði við aðra um úthlutun styrks á fjárlögum. Vil ég í því sambandi benda á, að tónlistarskólinn í Reykjavík fær til söngkennslu 40 þús. kr., — og hvað halda nú hv. alþm., að margir nemendur séu við það nám, sem styrkt er með 40 þús. kr., þegar 150 nemenda skóli fær 10 þús. kr.? Samkvæmt því, sem ég bezt veit, eru þeir sex, 6 nemendur. Þarna er því greitt um 100 sinnum meira með hverjum nemanda.

Ég hef því leyft mér að flytja á þskj. 206 brtt. þess efnis, að fjárveiting til tónlistarskólans í Hafnarfirði verði hækkuð úr 10 þús. kr. í 40 þús.

Svo sem ég gat um áður, kom það fram í ræðu hv. form. fjvn., að n. gerir sér ljóst, að engin víssa er fyrir því, að úthlutun til tónlistarskóla sé í samræmi við starfsemi þeirra. Ég hef nú bent á, að varðandi tónlistarskóla Hafnarfjarðar er ekki samræmi á þessu tvennu, og vænti. ég þess, að það verði leiðrétt.

Ég vil taka undir það, sem hv. form. fjvn. sagði í ræðu sinni, að nauðsynlegt er, að fastar reglur verði settar um stuðning við þessa starfsemi, og þáltill., sem nú liggur fyrir Alþingi um tónlistarfræðslu, verður vonandi spor í rétta átt. En á meðan stuðningur við tónlistarstarfsemi fer fram með úthlutun hér á Alþingi, hljóta menn þó að vera sammála um að gera það, sem unnt er, til þess, að hún sé sem sanngjörnust og ekki af handahófi.

Vera má, að í úthlutun þessari séu fleiri dæmi um ósamræmi en það, sem ég nefndi, og kemur það þá ef til vill fram í umræðum hér.

Þá hef ég flutt till. um, að barnaheimilissjóði Hafnarfjarðar verði veittur byggingarstyrkur að upphæð 60 þús. kr. Á frv. til fjárlaga er ekki gert ráð fyrir neinni fjárhæð í þessu skyni, en fjvn. flytur á þskj. 174 till. um 20 þús. kr. fjárveitingu til barnaheimilissjóðsins. Barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar hefur unnið hið merkasta starf með rekstri sumardvalarheimilis fyrir börn, og leggja þar margir fram mikið sjálfboðaliðsstarf. Er því eðlilegt, að ríkið stuðli að því, að þessum aðilum sé gert kleift að stofna til og halda uppi þessari starfsemi sem opinberir aðilar yrðu ella að annast á kostnaðarsamari hátt.

Ég tel, að barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar hafi orðið nokkuð afskiptur um byggingarstyrk, ef borið er saman við sams konar starfsemi t.d. á Akureyri. En hliðstætt félag á Akureyri fékk byggingarstyrk, áður en það hóf byggingarframkvæmdir, og hefur með samþykkt tillagna fjvn. nú fengið alls 100 þús. kr. til framkvæmdanna. Barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar hafði hins vegar rekið starfsemi sína í tvö ár, áður en hann fékk byggingarstyrk, og hefur með samþykkt till. fjvn. nú fengið alls 60 þús. kr. Tel ég fulla sanngirni, að ekki sé gert upp á milli þessara aðila frekar en orðið er, og legg ég til á þskj. 206, að hv. Alþingi verði við ósk stjórnar barnaheimilissjóðsins um 60 þús. kr. byggingarstyrk.

Þá hef ég leyft mér að flytja till. um, að framlag til rannsóknarkostnaðar jarðhitadeildar verði hækkað um 11/2 millj. kr. og verði þeirri viðbót varið til jarðhitarannsókna á Reykjanesskaga. Svo oft hefur hér á hv. Alþingi verið rætt um hina þjóðfélagslegu nauðsyn á því að nýta sem fyrst þá orku og varma, sem fæst við jarðborarnir og þá fyrst í nánd við mesta þéttbýlið, að um það þarf ekki sérstaka grg. í þessu sambandi. Um þessa nauðsyn munu flestir hv. þm. sammála, og vænti ég þess, að þeir muni í samræmi við það stuðla að því, að framkvæmdum í þessu efni verði hraðað með sérstakri fjárveitingu í því skyni.