17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

42. mál, fjárlög 1960

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 206 brtt. við 13. gr. fjárlaga um, að upp verði teknir nýir liðir, ferjubryggjur á þremur stöðum í Vestfjarðakjördæmi. Á undanförnum árum hafa slíkar ferjubryggjur verið byggðar á allmörgum stöðum á Vestfjörðum, við Ísafjarðardjúp, á Barðaströnd og í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hafa þessi mannvirki fyrst og fremst verið byggð til hagræðis fyrir bændur við afurðaflutninga þeirra, enn fremur til þess að skapa bætta aðstöðu við fólksflutninga, þar sem ferjubryggjur hafa verið byggðar í framhaldi af þjóðvegum milli landshluta.

Að þessum mannvirkjum hefur, eins og ég sagði, orðið mikið gagn og þau átt ríkan þátt í því að viðhalda byggð og halda uppi þróttmikilli framleiðslu í blómlegum byggðarlögum, sem hætt er við að ella hefðu bognað undan vandkvæðum fólksfæðar og annarra erfiðleika, sem að strjálbýlinu hafa steðjað á undanförnum árum.

Nú hef ég leyft mér að leggja til, að veitt verði fé til þriggja nýrra ferjubryggna.

Í fyrsta lagi til byggingar slíkrar bryggju að Óspakseyri í Strandasýslu, 100 þús. kr. Á þessum stað er starfandi verzlun, kaupfélag, sem fær árlega töluverðan hluta af vörum, er fyrirtækið fær, sjóleiðis. Hins vegar er þar enginn bryggjustíflur fyrir, þannig að notast verður við aldargamalt fyrirkomulag. Það verður að flytja vörurnar á uppskipunarbátum í land úr strandferðaskipum, og síðan verða menn að bera þær á bakinu upp úr bátunum upp í verzlunina. Nú seinast fyrir nokkrum dögum sagði kaupfélagsstjórinn á Óspakseyri mér í símtali, að hann ætti von á strandferðaskipi með tilbúinn áburð til bændanna í syðri hluta Strandasýslu. Gerði hann ráð fyrir því, að þennan hátt yrði að hafa á um uppskipun úr skipinu.

Ég tel, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Hér er ekki verið að fara neinar nýjar leiðir. Hér er óskað aðstoðar við byggðarlag, sem orðið hefur út undan, — aðstoðar, sem veitt hefur verið fjölmörgum öðrum byggðarlögum í þessum landshluta.

Í öðru lagi hef ég leyft mér að óska þess, að veittar yrðu 100 þús. kr. til ferjubryggju á Mýri á Snæfjallaströnd. Þar mun verða um skeið endastöð bjóðvegarins út með norðanverðu Ísafjarðardjúpi, og meðan ekki er akvegasamband um Djúpið til Ísafjarðar, væri stórmikið hagræði að því, að þarna yrði byggð ferjubryggja.

Í þriðja lagi flyt ég till. um, að byggð verði ferjubryggja á Reykjanesi í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu. Undanfarin ár hefur verið unnið að undirbúningi slíks mannvirkis á þeim stað. Það hefur ekki endanlega verið ákveðið, hvar bryggjan skuli vera, og menn greinir nokkuð á um bað. Þess vegna hef ég leyft mér að orða till. þannig, að bryggjan skuli reist á Reykjanesi.

Um allar bessar till. má segja, að þær gera aðeins ráð fyrir byrjunarframlögum til þeirra ferjubryggna, sem um er að ræða. Það hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir um flestar þeirra, og munu þær kosta misjafnlega mikið, 2–3–4 hundruð þús. kr. En með því að taka þessar fjárveitingar nú upp í fjárlög væri stefnan mörkuð í þessum málum, og fólkið gæti treyst því að fá þessar nauðsynlegu umbætur.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt., en vænti, að þær nái fram að ganga. Ég skal taka það fram, að ef hv. fjvn. vildi athuga þær nánar fyrir 3. umr., þá er ég reiðubúinn til þess að taka þær aftur til 3. umr.

Þá höfum við, ég ásamt þremur öðrum hv. þm., ákveðið að flytja brtt. við 18. gr. frv. Henni hefur því miður ekki enn þá verið útbýtt, og ég neyðist til þess að flytja hana skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni. Það er brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Vesturl., hv. 7. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. þm., um, að tekinn verði upp nýr liður við 18. gr., Ásmundur Jónsson frá Skúfsstöðum, rithöfundur, 10 þús. kr.

Um rökstuðning fyrir þessari till. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Ásmundur Jónsson er þjóðþekktur maður, hefur gefið út tvær ljóðabækur með ágætum ljóðum. Þessi rithöfundur býr hins vegar við svo þröngan kost, að naumast er vansalaust, og þess vegna teljum við flm., að vel færi á því, að hv. Alþingi sýndi honum smávægilega viðurkenningu og samþykkti þessi 10 þús. kr. eftirlaun til hans á 18. gr. fjárlaga. Ég leyfi mér að óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari brtt.

Ég vildi svo leyfa mér að fara örfáum orðum um nokkur hagsmunamál Vestfjarðakjördæmis, enda þótt ég hafi að þessu sinni ekki flutt fleiri brtt. um hækkun á fjárveitingum til þessa landshluta.

Ég vil þá fyrst minnast á það, að samkvæmt brtt. hv. fjvn. er gert ráð fyrir fjárveitingum til 9 hafna á Vestfjörðum. Nú er það þannig, að sjávarútvegur er meginatvinnuvegur flestra byggðarlaga á Vestfjörðum, þó að þar sé einnig rekinn þróttmikill landbúnaður. Hafnirnar eru frumskilyrði þess, að sjávarútvegur verði rekinn með góðum árangri. Þær fjárveitingar, sem lagt er til að veittar verði til þessara 9 hafna á Vestfjörðum, eru flestar litlar og hrökkva skammt, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem stórframkvæmdir standa yfir í hafnarmálunum. Má þar t.d. nefna Patreksfjarðarhöfn, Suðureyrarhöfn, Bolungarvíkurhöfn og Hólmavíkurhöfn. Á öllum þessum stöðum hefur að undanförnu verið sumpart unnið að stórframkvæmdum eða að undirbúningi stórframkvæmda.

Til Patreksfjarðarhafnar er nú lagt til að veittar séu 100 þús. kr., til Suðureyrar 150 þús. kr., til Bolungarvíkur 500 þús. kr. óg til Hólmavíkurhafnar 500 þús. kr.

Eins og ég sagði, þá hrökkva þessar fjárveitingar mjög skammt, og ég vil undirstrika það, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. sagði í sinni framsöguræðu, að vandamál þessara og margra fleiri hafna verða ekki leyst með öðru en stórfelldum erlendum eða innlendum lántökum í því skyni, að hægt sé að ná stórum áföngum á tiltölulega skömmum tíma í þessari mannvirkjagerð.

Það voru, eins og kunnugt er, teknar 28 millj. kr. að láni utanlands til hafnargerða á s.l. ári. Þessu fé var skipt upp, að mig minnir á milli allt að 20 hafna um allt land, þar af til þriggja eða fjögurra hafna á Vestfjörðum.

Ég álít, að óhjákvæmilegt sé að halda áfram lántökum í þessu skyni, og ég álít enn fremur, að ekki megi verða mikil bið á því, að þetta sé gert, vegna þess að hvert árið, sem hafnarframkvæmdir standa hálfkaraðar, er mjög dýrt og til stórkostlegs óhagræðis fyrir þau byggðarlög, sem út í þessar dýru og fjárfreku framkvæmdir hafa ráðizt. Ég legg því áherzlu á það, — og ég veit, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur einnig fullan skilning á því, — að það verði haldið áfram á þeirri braut, sem mörkuð var á síðasta þingi, þ.e.a.s. að taka allstór erlend lán til hafnarframkvæmda í landinu.

Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á það, að ég hygg, að með engum hætti sé á jafnódýran hátt hægt að auka framleiðslu þessarar þjóðar og einmitt með því að bæta hafnarskilyrðin.

Við hinar meira og minna ófullkomnu íslenzku hafnir hafa verið byggð á undanförnum árum dýr framleiðslutæki, þar sem eru hraðfrystihús og fiskimjölsverksmiðjur og ýmiss konar fiskiðjufyrirtæki, en svo að segja öll þessi dýru framleiðslutæki, sem standa að mestu leyti undir útflutningsframleiðslu þjóðarinnar, eru ekki nýtt nema að nokkru leyti. Með því að hagnýta afkastagetu hraðfrystihúsanna til fulls er hægt a.m.k. að tvöfalda útflutningsverðmæti hraðfrysta fisksins. Nær sanni mun þó vera, að hægt muni vera að þrefalda framleiðslu- og afkastagetu hraðfrystihúsanna á einstökum stöðum. Mér er kunnugt um mörg ný hraðfrystihús og fiskiðjuver, sem byggð hafa verið á síðustu árum, sem gætu framleitt þrisvar sinnum meira, ef þau aðeins hefðu hráefni, og aðstaðan til þess að fá hráefni batnar mjög með því, að hafnarskilyrðin eru lagfærð. Vitanlega þarf fleira að koma til, en við vitum, að fiskiskipastóllinn er sífellt að aukast í öllum landshlutum. Af því leiðir hins vegar, að óumflýjanlegt er að bæta lendingarskilyrðin.

Það er öllum hv. þm. kunnugt, að fjöldi vélskipa eyðileggst á ári hverju eða skemmist stórlega einmitt vegna þess, hversu hafnarskilyrði eru léleg á þeim stöðum, þar sem þau eru gerð út, og það kostar tryggingarfélögin milljónir króna árlega að bæta það tjón, sem verður á fiskiskipaflotanum í höfnunum.

Ég álít þess vegna, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða, ekki aðeins fyrir einstök byggðarlög á Vestfjörðum og í öðrum landshlutum, þar sem þróttmikil útflutningsframleiðsla er rekin, heldur og fyrir þjóðina í heild, því að það má öllum landslýð vera ljóst, hver sem afstaða manna er til þeirra viðreisnarráðstafana. sem nú hafa verið gerðar af hæstv. ríkisstj., að án aukinnar framleiðslu renna þessar ráðstafanir út í sandinn. Þá reynast þær ekki megnugar þess að standa undir þörfum þjóðarinnar. Þess vegna álít ég, að hv. Alþingi megi síður nú en nokkru sinni fyrr daufheyrast við kröfunum um aukin framlög og markvíssar framkvæmdir einmitt á sviði hafnarmálanna. Ég veit, að á þessu atriði ríkir skilningur og að hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. munu gera það, sem unnt er, í þessum efnum. En það verðum við að gera okkur ljóst, að með hinum litlu og lágu fjárveitingum á fjárlögunum til hafnarmálanna verður engum stórum áföngum náð.

Það er fjöldi hafna um allt Ísland, sem eru hálfkaraðar vegna fjármagnsskortsins og vegna þess, að það hefur verið talið nauðsynlegra á undanförnum árum að taka erlend lán og innlend til flests annars fyrr en hafnargerðanna. Það er fyrst á s.l. ári, sem rofar nokkuð til í þessum efnum, og ég vænti, að með lántökunni þá, sem að vísu var aðeins tæpar 30 millj. kr., hafi verið mörkuð stefna, sem haldið verði áfram að framkvæma.

Um vegamálin á Vestfjörðum skal ég ekki fara mörgum orðum. Ég hef oft bent á það á undanförnum þingum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, að ástandið í vegamálunum er hvergi verra en á Vestfjörðum. Þetta hefur í raun og veru verið viðurkennt og nokkuð aukin áherzla verið lögð á vegaframkvæmdir þar vestra nú allra síðustu árin.

Það tókst á s.l. hausti að gera hinn svokallaða Vestfjarðaveg, frá Vatnsfirði á Barðaströnd yfir í Arnarfjörð, slarkfæran. Það er of mikið að segja, að hann sé akfær orðinn, en það er hægt að komast þá leið á jeppum og hærri og sterkari bifreiðum. Það tókst að ná þessum áfanga á s.l. ári vegna þess, að allmörg byggðarlög á Vestfjörðum tóku sig saman um að útvega lánsfé til þess að gera stórt átak í framkvæmd þessarar vegagerðar.

Nú stendur þetta mál þannig, að skuld Vestfjarðavegar mun vera um 3 millj. kr. Hins vegar er lagt til í fjárlögum, að til þessa vegar verði veittar um 1.5 millj. kr., og það fé mun rétt hrökkva til þess að borga þær skuldir, sem gjaldfalla á þessu sumri. Ekkert fé er því fyrir hendi til þess að ljúka veginum og gera hann sæmilega akfæran. Ég geri mér þess vegna von um það, að hægt verði að fá nokkurt fé af þeim 4 millj. kr., sem lagt er til að veittar verði til viðbótar til vegaframkvæmda, einmitt til Vestfjarðavegarins, þannig að unnt verði að fullgera veginn á komandi sumri. En ef vel hefði átt að vera, hefði þurft að fá miklu hærri fjárveitingu til vegarins, til þess að byggðarlögin á Vestfjörðum þurfi ekki að draslast með þunga skuldabagga um langt árabil vegna þessarar vegagerðar, sem að sjálfsögðu á að kosta af ríkinu einu. En það er merkilegur áfangi, sem næst með þessari vegagerð, og honum er fagnað af fólki um alla Vestfirði. Það var þannig þangað til s.l. haust, að 4–5 þús. manns á norðanverðum Vestfjörðum, í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað og í utanverðri Norður-Ísafjarðarsýslu, voru án sambands við akvegakerfi landsins. Úr þessu verður nú bætt, eins og ég sagði, og er að því mikil bót.

Ég álít, að það séu fyrst og fremst fjórir eða fimm vegir, sem leggja verður áherzlu á á Vestfjörðum á næstu árum og þá einnig á komandi sumri.

Það þarf í fyrsta lagi að ljúka Vestfjarðaveginum sem fyrst og gera hann sem beztan og greiðfærastan, þannig að hægt verði að halda honum opnum, ekki aðeins yfir hásumarið, heldur meginhluta árs.

Í öðru lagi tel ég, að leggja beri áherzlu á að ljúka veginum út með sunnanverðu Ísafjarðardjúpi, hinum svokallaða Ögur. og Fjarðavegi, sem tiltölulega hægt hefur þokað áleiðis undanfarið, en er þó nú kominn það út með Djúpinu, að aðeins 9 km eru eftir út að Ögri óruddir. Á þennan veg verður að leggja mikla áherzlu. Hef ég einnig hugsað mér, að nokkur fjárveiting fengist til hans af þeim 4 millj. kr., sem fjvn. leggur til þess að úthlutunarnefnd atvinnuaukningarfjár skipti niður í samráði við vegamálastjóra.

Í þriðja lagi teldi ég mjög nauðsynlegt, að aukin áherzla yrði lögð á vegagerðina norður Strandasýslu, en nyrztu byggðir Strandasýslu munu vera einhverjar einangruðustu sveitir á Íslandi. Það hefur verið byrjað að leggja svokallaðan Reykjarfjarðarveg norður Bala. Hann er kominn mjög skammt áleiðis, en allur Árneshreppur, sem er einn stærsti hreppur Strandasýslu, er án akvegasambands og aðeins einstakir spottar hafa verið lagðir innan hans. Þm. Vestfjarða hafa komið sér saman um það að einbeita kröftunum að lagningu þessa vegar, og er nú lagt til, að fé sé einungis veitt til tveggja vega í Strandasýslu, þ.e.a.s. til Strandavegar sunnar í sýslunni og til Reykjarfjarðarvegar, 525 þús. kr. Vonandi tekst nú að koma nokkrum skrið á þessa vegagerð og koma nokkuð til liðsinnis því dugandi fólki, sem býr í þessari einni afskekktustu sveit á Íslandi.

Enn fremur tel ég, að leggja beri aukna áherzlu á að bæta heiðavegina milli Ísafjarðarkaupstaðar og Vestur-Ísafjarðarsýslu. En þeir vegir lokast í fyrstu snjóum, og það er algengt, að vegurinn vestur í Önundarfjörð og Súgandafjörð frá Ísafirði lokist um miðjan september og opnist ekki fyrr en í júní. Ef þessir vegir væru hlaðnir upp uppi á heiðunum, eins og almennt er gert með heiðavegi nú orðið, þá er óhætt að fullyrða, að þeir yrðu opnir miklu lengri tíma ár hvert. Það hefði t.d. verið leikur að halda þessum vegum opnum svo til allan veturinn í vetur, sem hefur verið einkar snjóléttur.

Innilokunin vestur á fjörðunum skapar athafnalífinu þar margvíslegt óhagræði, og það verður ekki við það unað til lengdar, að byggðarlögin séu gersamlega einangruð frá sambandi við höfuðstað Vestfjarða allan veturinn. Þess vegna hygg ég, að aukna áherzlu beri að leggja á einmitt þessa heiðavegi. Svipuðu máli gegnir raunar um vegagerðina milli Patreksfjarðar og Bíldudals og Tálknafjarðar, þar sem vegirnir eru mjög lélegir og lokast fljótt, til mikils óhagræðis fyrir atvinnulífið á stöðunum.

Ég vil þá aðeins minnast á það, að þingmenn Vestfjarða hafa skrifað fjvn. og óskað þess, að hún mæli með því, að veitt verði ríkisábyrgð á þessu ári fyrir 3 millj, kr. láni vegna byggingar dráttarbrautar á Ísafirði, sem Marselíus Bernharðsson skipasmíðastöð h.f. hyggst ráðast í að byggja. Á öllum Vestfjörðum er ekki hægt að taka upp stærri skip en rúmlega 70 tonn. Hins vegar er mikill fjöldi báta þar nú um 100 tonn og þó nokkur hinna smærri togskipa, sem eru, eins og menn vita, 250 tonn að stærð. Það er gersamlega óviðunandi að þurfa að fara með þessi skip öll til hvaða smáviðgerða sem er hingað suður í Reykjavík eða norður á Akureyri. Þess vegna held ég, að hér sé um mjög mikið nauðsynjamál að ræða fyrir vestfirzka útgerð, og vænti ég því, að fjvn. taki erindi okkar vel.

Á fjárlögum er gert ráð fyrir að þessu sinni samkvæmt till. fjvn., að fjárveiting verði veitt til eins flugvallar á Vestfjörðum, þ.e.a.s. 1.2 millj. kr. til flugvallargerðar á Ísafirði. Það er gert ráð fyrir, að þessi flugvöllur verði nothæfur í vor eða sumar, og er það til mjög mikilla bóta fyrir samgöngur við Ísafjörð og nágrenni. Hins vegar er ekki því að neita, að stórum hluta Vestfjarða er tiltölulega lítið gagn að flugvelli á Ísafirði. Þess vegna er óhjákvæmilegt að vinna að því að byggja flugvelli á mörgum fleiri stöðum, og hefur þá fyrst og fremst verið rætt um Þingeyri í Vestur-Ísafjarðarsýslu, á Patreksfirði, í Bolungarvík, Hólmavík, í Önundarfirði og að Melgraseyri við Ísafjarðardjúp. En þar má segja að flugvöllur sé raunverulega þegar fyrir hendi, þar sem tveggja hreyfla flugvélar geta lent þar, þarf aðeins smávægilegar lagfæringar til þess að gera þarna ágætan flugvöll.

Ég tel það mjög miður farið, að hv. fjvn. hefur ekki treyst sér til að taka upp fjárveitingu nema til eins þessara flugvalla, sem ákveðið hefur í raun og veru verið af flugmálastjórninni að byggðir skuli. En við vitum um ástæðu þess. Það er nú eins og fyrri daginn, að það er ekki hægt að gera allt í einu. Ég sé, að mínir ágætu samþingismenn sumir hafa flutt brtt. um fjárveitingu til þessara flugvalla og fleiri nauðsynlegra framkvæmda. En þeir vita það eins vel og ég, að það verður á hverjum tíma að miða útgjöldin og fjárveitingar til einstakra framkvæmda við fjárhagsgetuna. En ég hef minnzt á þetta hér vegna þess, að stefnan hefur verið mörkuð í þessum efnum og þessir flugvellir verða að byggjast á næstu árum, eftir því sem fjárhagsgetan leyfir á hverjum tíma.

Ég hygg þá, að ég hafi minnzt á sum aðalatriði, sem mér lágu fyrst og fremst á hjarta í sambandi við fjárveitingar til Vestfjarða. Það er engin tilviljun, að ég hef þar svo að segja eingöngu rætt samgöngu- og hafnamál. Aðstaða fólksins til lands og sjávar byggist að langsamlega mestu leyti á samgöngum og á hafnarskilyrðum, á því að geta gert út og flutt afurðir bænda til markaðanna. Þess vegna er það, að góðar hafnir og greiðar samgöngur eru frumskilyrði fyrir því, að líf og starf fólksins í strjálbýlinu beri árangur.

Ég vil að lokum aðeins segja það og endurtaka það, sem ég hef oft sagt áður hér á hv. Alþingi, að ég lít ekki svo á, að með kröfum um fjárframlög til þessara framkvæmda sé verið að krefjast meira en góðu hófi gegnir af samfélaginu af hálfu þessa fólks. Við vitum það t.d. Vestfirðingar, að óvíða á Íslandi mun jafnríkur skerfur lagður fram , til gjaldeyrisöflunar og verðmætasköpunar í þjóðarbúið. Allir Vestfirðingar eru nú rúmlega 10 þús. manns. Á árinu 1958 framleiddi þetta fólk til útflutnings fyrir um það bil 130–140 millj, kr. í erlendum gjaldeyri. Ég held, að það fólk, sem þannig stendur í starfinu, teljist ekki sýna neina ótilhlýðilega kröfuhörku, þó að það óski þess, að framleiðsluskilyrðin séu bætt og aðstaða þess til þess að halda áfram að draga björg í bú verði gerð nokkru betri en hún er nú.