17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

42. mál, fjárlög 1960

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mér skilst, að í gær hafi orðið um það samkomulag milli formanna þingflokkanna að stefna að því að ljúka þessari umr. í dag, óður en kvöld er komið, og af því að mér finnst þetta samkomulag eftir ástæðum eðlilegt, þá vil ég alls ekki torvelda, að það geti orðið að framgangi, þó að ég hafi mjög margt við fjárlagafrv., sem fyrir liggur, að athuga og sömuleiðis ýmsar till. þær, sem fyrir liggja frá hv. fjvn. Sleppi ég af nefndri ástæðu að ræða frv. og tillögurnar. Ég ætla aðeins að gera stuttlega grein fyrir tveim till., sem ég stend að og hér liggja fyrir.

Fyrst er það þá 5. till. á þskj. 203. Við leggjum hana fram fjórir þm. úr Norðurlandskjördæmi eystra og væntum þess, að þm. að athuguðu máli geti fallizt á hana.

Þjóðskáldið Matthías Jochumsson átti heima, eins og allir vita, seinni hluta ævi sinnar á Akureyri. Hann bjó þar seinast og lengi í húsi, sem hann átti sjálfur og nefnt var Sigurhæðir. Þetta hús lenti til óviðkomandi fólks eftir hann látinn. En fyrir þrem eða fjórum árum tóku aðdáendur skáldsins á Akureyri sig til og stofnuðu félag, sem nefnist Matthíasarfélag. Tilgangur þessa félagsskapar er sá að heiðra minningu þjóðskáldsins með því. að kaupa húsið Sigurhæðir og koma þar upp minjasafni, Matthíasarsafni, vernda húsið og safna í það eftirlátnum munum skáldsins, búa það, ef unnt er, að nýju eins og það var, þegar skáldið bjó þar, gera það að musteri minninganna um þennan mikla andans mann, sem hafði hlotnazt gáfa af guðs náð, gáfa, sem þjóðin nýtur í ódauðlegum ljóðum hans og getur aldrei fullþakkað. Slíkt musteri er til þess fallið, að fólk gangi þangað til að gera sig hæfara en ella til þess að skilja skáldið og njóta ljóðanna. Það munu í framtíðinni Íslendingar gera, þegar þeir fara um Akureyri.

Í Matthíasarfélaginu eru nú um 175 félagar. Eru þar á meðal ýmsir menn hér úr Reykjavík og víðar að. Félagar þessir greiða árgjöld í félagssjóð sem áhugamenn. Félagið er búið að kaupa neðri hæð hússins Sigurhæðir, en það er tveggja hæða hús og skáldið bjó á báðum hæðum þess. Þessi neðri hæð, sem búið er að kaupa, kostaði 255 þús. kr., og það er búið að borga kaupverðið niður í 105 þús. kr. En félagið telur að sjálfsögðu nauðsynlegt að kaupa efri hæð hússins líka, og hún mun kosta svipaða upphæð og neðri hæðin. Enn fremur þarf ýmislegt að gera að húsinu,

og svo þarf að afla gripa í minjasafnið og það kostar allmikið fé, enda þarf að lagfæra þessa muni, sem hafa ekki allir hlotið góða geymslu. Þá þarf líka að hita upp húsið nú þegar og auðvitað fljótlega kosta allmiklu til rekstrar safnsins, þegar farið verður að hafa safnið opið til sýnis.

Akureyrarbær hefur lagt fram samtals 100 þús. kr. fram að þessu ári og heitir á þessu ári 50 bús. kr. framlagi til viðbótar. Það má því telja, að framlag Akureyrarbæjar sé orðið 150 þús. kr.

Ríkið hefur ekki lagt fram nema 25 þús. kr. til safnsins að þessu ári. Nú leggur fjvn. til, að í ár verði veittar 40 þús. kr. til safnsins, og það er út af fyrir sig hækkun, en ekki nóg, því að ef ekki yrði hærra framlagið nú, þá væri framlag ríkisins eftir árið í ár aðeins orðið 65 þús. kr., þegar Akureyri er búin að leggja fram 150 þús. kr., og þetta tel ég fyrir mitt leyti fráleitan mun. Hér er ekki eingöngu um menningarmál Akureyrar að ræða. Þetta er menningarmál allrar þjóðarinnar, og það væri alls ekki ofgert, þó að ríkissjóður legði jafnmikið fram og Akureyri gerir. Við fjórmenningarnir, sem flytjum brtt., göngum þó ekki svo langt að leggja til. að ríkið leggi fram í ár það, sem á vantar, að ríkisframlagið nái framlögum Akureyrar. Við leggjum til, að framlag ríkisins á þessu ári verði 75 þús. kr., og yrðu með því framlög ríkisins komin í 100 þús. á móti 150 þús. frá Akureyrarbæ, — muninn mætti svo rétta af í framtíðinni.

En þegar svona stendur á, að ríkið hefur lagt miklu minna fram en Akureyrarbær, þá teljum við ástæðulaust að gera það að skilyrði, eins og stendur í till. fjvn., að Akureyrarbær leggi jafnmikið á móti. Við leggjum því til, að það falli niður, og orðum till. okkar á þessa leið: „Til Matthíasarfélagsins á Akureyri til þess að kaupa húsið Sigurhæðir og koma þar upp minjasafni um skáldið.“ Það finnst okkur vera eðlilegur texti.

Mér þykir ólíklegt, að til sé nokkur Íslendingur, sem teldi of mikið á ríkið lagt vegna minningar Matthíasar með því að greiða til safns hans 75 þús. kr. nú, furðulegt, ef hér á hinu háa Alþingi fyndist nokkur svo andlega álútur að vilja fella brtt., svo hófleg sem hún er. Ég treysti því einmitt, að till. verði fúslega samþykkt.

Þá á ég hér hlut að annarri till., sem ég vildi aðeins minnast á. Hún er á þskj. 206, og er það 14. tillagan. Búnaðarþing 1959 fól stjórn Búnaðarfélags Íslands í samráði við Landssamband hestamannafélaga og í samvinnu við fræðslumálastjórnina að beita sér fyrir því, að hafin yrði kennsla í hestaíþróttum. Stjórn Búnaðarfélagsins reit bæði hæstv. landbrh. og hæstv. menntmrh. og óskaði eftir því, að þeir kæmu því til leiðar, að ríkið veitti Búnaðarfélaginu 100 þús. kr. til þess að koma á kennslu í þessum greinum. Bæði hæstv. landbrh. og hæstv. menntmrh. sendu hv. fjvn. erindi Búnaðarfélagsins og mæltu með fjárveitingunni. Við þessa umr. kemur ekki í ljós, að hv. fjvn. geri till. um, að orðið verði við málaleituninni um fjárveitingu í þessu skyni. Þess vegna höfum við 3 þm., ég og hv. 5. þm. Sunnl., Sigurður Ó. Ólafsson, og hv. 5. þm. Reykn., Finnbogi R. Valdimarsson, sett hér fram þessa tillögu, og við leggjum til, að fjárveitingin verði 100 þús. kr. Við orðum till. þannig, að Búnaðarfélag Íslands fái 100 þús. kr., „vegna leiðbeiningarstarfs við tamningu og þjálfun hrossa.“ Hér er bæði um menningarmál að ræða og hreint hagsmunamál. Reiðhesta þarf að temja og þjálfa, til þess að þeir verði sá mikli yndisgjafi, sem góður reiðhestur er. Dráttarhesta þarf líka að temja og þjálfa, svo að þeir verði góðir og þægir og afkastamiklir vinnuhestar. Hesta til útflutnings þarf að temja og þjálfa í samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru og gerðar verða til þeirra á mörkuðum þar.

Komið hefur verið upp nokkrum tamningastöðvum í landinu. Ég veit um tamningastöð á Hellu í Rangárvallasýslu, að Laugarvatni, í Borgarfirði, í Skagafirði og á Akureyri. En nauðsynlegt má telja, að Búnaðarfélagið hafi leiðbeiningarstarf á hendi um þessi mál, sem ég leyfi mér að kalla fræðslumál, enda hefur yfirstjórn fræðslumála í landinu viðurkennt, að svo sé, og mælt með framlagi af ríkisins hálfu til þessarar starfsemi. Og þetta leiðbeiningarstarf, sem hér er gert ráð fyrir, þarf einmitt að ná til tamningastöðvanna, sem komnar eru og vitanlega hafa í þessu sambandi mikla þýðingu og tryggja það, að gagn verði að slíku leiðbeiningarstarfi.

Ef nú hv. alþm. kynni að finnast till. um 100 þús. of há, sem hún er þó alls ekki, þá fylgir samt aðaltillögu okkar varatill. um 50 þús. kr. framlag, og ég vænti þess, að enginn telji það of mikið af mörkum lagt.