17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

42. mál, fjárlög 1960

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Á þskj. 206, XV, flytjum við hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Sunnl. till. til breyt. á því frv. til fjárlaga, sem hér liggur fyrir. Tilraunaráð búfjárræktar hafði sótt um að fá aukna fjárveitingu úr 200 þús. í 400 þús., og við tökum undir þessa till. Tilraunaráð búfjárræktar var stofnað með lögum 1940 og því ætlað það verksvið að ákveða og sjá um ýmsar tilraunir með fóðrun og kynbætur búpenings og afla vísindalegrar og hagnýtrar reynslu í undirstöðuatriðum búfjárræktar, svo að þeir, er landbúnað stunda, gætu byggt starf sitt á sem traustustum grundvelli. Samkv. 26. gr. nefndra laga kostar ríkissjóður þær tilraunir og rannsóknir, sem framkvæmdar eru, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni. Mörg fyrstu árin var mjög lítið fé til þessa veitt og hefur verið fram til síðustu ára, en þá hefur það vaxið og er nú tvö síðustu árin 200 þús. kr.

Þrátt fyrir mjög takmörkuð fjárráð hafa verið gerðar margar og merkar tilraunir á vegum tilraunaráðs búfjárræktar. Það er óhætt að fullyrða, að því fé, sem ríkið hefur lagt til þessa starfs, hafi verið vel varið og ótrúlega mikið fengizt af hagnýtum niðurstöðum fyrir lítið fjármagn. Meðal þeirra tilrauna, sem nú standa yfir, er beitartilraun kúa og lamba á ræktað land og samanburðartilraunir með eldi kálfa til kjötframleiðslu, kálfa af íslenzku kúakyni og Galloway-blendingum. Sú tilraun er töluvert fjárfrek, því að kaupa þarf bæði kálfana, fóður og hirðingu. En að nokkrum tíma liðnum skilar þetta fjármagn sér væntanlega aftur, þegar gripunum verður lógað. Það eru mörg verkefni fram undan á þessu sviði og áriðandi, að ekki dragist allt of lengi að leita svara við ýmsum spurningum. Því er þessi till. flutt og í trausti þess, að þingheimi sé ljós þörfin fyrir þessa auknu fjárveitingu. — En ef hv. þm. þætti það ofrausn að tvöfalda upphæðina, þá leggjum við til til vara, að veittar verði 100 þús. kr. til viðbótar eða upphæðin í heild 300 þús. kr.

Önnur till., sem ég tala hér um, er á þskj. 203, X, og stöndum við að henni hv. 1., 3. og 5. þm. Norðurl. e. Það lá fyrir fjvn. efnislega samhljóða erindi frá bæjarstjórn Ólafsfjarðar, hreppsnefnd Dalvíkurhrepps og bæjarstjórn Akureyrar um að óska eftir 1 millj. kr. framlagi til Múlavegar, þ.e. vegarins fyrir Ólafsfjarðarmúla, og áskorun til Alþ. um að veita ábyrgðarheimild fyrir allt að 3 millj. kr. láni til sama vegar. Fjvn. treystist ekki til að leggja til, að veitt yrði nema 300 þús. kr. af ríkisframlagi og 300 þús. kr. af millibyggðavegafé til þessa vegar. Ekki var heldur sameiginlegur áhugi í fjvn. fyrir því að veita ábyrgðarheimildina, og því er það, að við, þessir hv. þm., sem ég nefndi áðan, leggjum til, að ábyrgðarheimildin verði veitt.

Múlavegur er mikið mannvirki. Vegamálastjórinn gaf fjvn. þær upplýsingar, að á verðlagi 1959 mundi þurfa 6.4 millj. til þess að ljúka honum, og fyrr en hann er búinn, verða naumast af honum not. Það er því ekki að furða, þótt þeim, sem mesta þörfina hafa fyrir þann veg, Ólafsfirðingum, þyki seint ganga og óvænlega horfa, ef ekki fæst þarna betur að gert en verið hefur. Annars er langt frá því, að þessi vegagerð sé nokkurt einkamál Ólafsfirðinga. Að þessi vegur verði lagður, er einnig áhugamál Eyfirðinga og Akureyringa eða allra þeirra, sem samskipti og viðskipti hafa við Ólafsfjörð. En með tilkomu þessa vegar styttist leiðin frá Akureyri til Ólafsfjarðar um nálega 3/4 og frá Dalvík til Ólafsfjarðar um nál. 14/15 hluta, svo að þarna er um mikið sparnaðarmál að ræða í samgöngum, þegar þessi vegur er kominn. Ég vona, að hv. þm. sé ljúft að leyfa þessa umbeðnu ábyrgðarheimild.

Það hefur réttilega nokkuð verið rakið hér við þessa umr., að það er mikill munur á, hvernig hinir ýmsu liðir fjárlaga hækka frá undanförnum árum. Verklegar framkvæmdir hafa dregizt allmjög aftur úr, en ríkisreksturinn blómgazt á kostnað verklegu framkvæmdanna. Ef þetta er borið saman í tölum, yrði það á þessa leið, — ég vel til samanburðar bæði árin 1957-1960 og 1958–1960, og tölurnar, sem ég nefni, eru prósentvís hækkanir: Frá 1957 hefur hinn raunverulegi kostnaður ríkisrekstrarins, það er 8.–11, gr. fjárlaga, og á þeim greinum eru æðsta stjórn landsins, alþingiskostnaður, ríkisstjórn, utanríkismál, dómgæzla, lögreglustjórn, innheimta tolla og þess háttar, — frá 1957–1960 hafa þessir kostnaðarliðir hækkað um 67%. Sé aftur á móti athugað, hvaða fjármagni hefur verið varið til vega, brúa og hafna á þessum árum, þá kemur í ljós, að það framlag hefur hækkað um 37% eða nálega helmingi minna. Líti maður á, hverju hefur verið varið til landbúnaðarmála á 16. gr. Á á þessum árum, þá kemur í ljós, að það framlag hefur vaxið um 17%. Beri maður saman árin 1958 og 1960, þá hefur ríkisreksturinn, þessir sömu liðir og ég nefndi áðan, hækkað frá fjárlögum 1958 til fjárlagafrv. 1960 um 53%. Framlag til vega, brúa og hafna hefur hækkað um 35% og landbúnaðarmálin á 16. gr. Á um 13%. Það kemur harla glöggt í ljós, hvert stefnir í þessu.

Ég held, að það sé hæpið, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í gærkvöld, að aukning rekstrarliða fjárlaga væri bara í samræmi við eðlilega fólksfjölgun. Það er langt frá, að svo sé. Hún er miklu meiri.

Það er aftur á móti fullt samræmi milli þessarar þróunar, aukningar rekstrarkostnaðar ríkisins, og þeirra ummæla hæstv. fjmrh. í gærkvöld, að það mætti vel vera, að framkvæmdir þær, er við í 1. minni hl. fjvn. viljum auka framlag til, séu gagnlegar. Já, hæstv. ráðh. sagði, að það mætti vel vera, að það væri gagnlegt að leggja vegi, byggja brýr og hafnir og hlynna að sjávarútvegi og landbúnaði og iðnaði. Þetta eru ekki litlar upplýsingar fyrir mig, sem sit nú í fyrsta sinn á Alþ. Ég hef fram til þessa haldið, að atvinnuvegirnir væru undirstaða fjárhagslegrar afkomu þjóðfélagsins og þjóðfélagsþegnanna og að það væri öfugþróun og leiddi til ófarnaðar, ef ríkisreksturinn í þrengstu merkingu eða yfirstjórn þjóðfélagsins þarf að taka til sín sífellt meiri og meiri hundraðshluta af ríkistekjunum, en það er greinilega stefnan nú. Það er kominn ofvöxtur í höfuðið á þjóðarlíkamanum. Það vex miklu hraðar en líkaminn, og ef svo fer fram sem nú horfir, hlýtur bráðlega að því að koma, að líkaminn veldur ekki þessu höfði.

Það var hárrétt, sem hv. 1. þm. Vestf. (SB) sagði hér áðan, að allar efnahagsmálaaðgerðir núverandi hæstv. ríkisstj. renna út í sandinn, ef ekki er byggt á aukinni framleiðslu. Framleiðslan er undirstaðan, og hún verður að vera undirstaðan. Þess vegna má ekki þetta hlutfall halda áfram að skekkjast á þann hátt, sem ég benti áðan á að það nú gerir, — hlutfallið á milli framlags ríkisins til hins óarðgæfa og hins arðgæfa. Ég efa því ekki, að hv. 1. þm. Vestf. muni koma til liðs við okkur, sem leggjum þessa till. fram, og ekki aðeins einn, heldur einnig með hóp flokksbræðra sinna, sem hafa þetta sama sjónarmið og hann, og að þeir muni orka því, að báðar þessar till. okkar verði samþ. og margar fleiri, sem fluttar eru af flokksbræðrum okkar og aðrir hafa mælt fyrir, en stefna að sama marki, að því, að framleiðslan aukist.

Hæstv. forseti hefur mælzt til þess, að menn væru stuttorðir, og enda þótt það hefði verið margt fleira, sem ástæða hefði verið til að ræða um í sambandi við þetta fjárlagafrv., þá skall ég ekki tefja tímann.