17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

42. mál, fjárlög 1960

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 203, VI. Með mér flytja þessa brtt. hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ) og hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj). Það málsefni, sem hér er á ferðinni, er fyrirhleðslur á vatnasvæði í Rangárþingi á þrem stöðum, aðallega á vatnasvæði Markarfljóts og Þverár, svo og undir Eyjafjöllum báðum, annars vegar Írár- og Miðskálaársvæði og undir Austur-Eyjafjöllum Kaldaklifs-, Svarðbælis- og Laugarársvæði.

Hér eru á ferðinni mikil mannvirki og mikil mannvirkjagerð og búin að standa lengi yfir. Er öllum a.m.k. eldri þm. fullkunnugt um, hvað hér ræðir um. Hafa verið unnin mikil stórvirki, sem stefna að tvenns konar marki, annars vegar að uppþurrkun lands og hins vegar að því að bæta og tryggja samgöngukerfið á stóru svæði. Þetta hvort tveggja hefur tekizt með miklum ágætum. En hins vegar þurfa þessi mannvirki öll mikið viðhald, og nýbyggingar eru fram undan. Þess vegna verður á næstu árum töluverður kostnaður við þessar framkvæmdir.

Hið nýja efnahagskerfi, sem nú er tekið upp, hlýtur eðlilega að hafa þá verkun m.a., að sömu fjárhæðir og áður giltu duga ekki nú í dag. Það er þess vegna, sem við flm. leyfum okkur að bera fram þessa brtt. Er um nokkra hækkun á framlagi að ræða til þessara mannvirkja, og nemur hækkunin 30% frá fyrra árs framlagi, og viljum við þá ætla, flm., að hækkunin kunni nokkuð að vega upp á móti skerðingu þeirri á gildi ísl. kr., sem efnahagsráðstafanir ríkisstj. hafa í för með sér.

Ég vona, að hv. alþm. sjái, að hér er mjög hóflega í sakir farið, en hins vegar til mikils að vinna og mikilsverðar framkvæmdir á ferðinni, enda er þess ekki að dyljast og ber að þakka, að hv. Alþ. hefur á mörgum undanförnum árum mjög stutt að þeim athöfnum, sem þarna hafa átt sér stað, og við væntum þess, flm., að svo verði enn. Það er sannast sagna, að í mínu héraði eru það þessar framkvæmdir, sem hafa í raun og veru stutt að því að halda uppi byggð í fjölda hreppa, og ekki nóg með það, heldur þar sem áður voru gráir aurflákar og svartir sandar, þar er nú ýmist gróið land eða land, sem grær mjög ört upp, og fyrir okkur, sem höfum trú á gróðrarmátt íslenzkrar moldar, er þetta sannarlega mesta gleðiefni. Til þess nú að ekki falli í sama far, í hinn fyrra farveg, er, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegt að halda uppi a.m.k. lágmarksviðhaldi og bæta við fyrirhleðslur og ýmsa garða til þess að ýta frá hinum ægilega árflaumi, sem þarna er á ferðinni.

Af þessum sökum öllum höfum við leyft okkur, þremenningarnir, að bera fram þessa till., sem er á þskj. 203. Hún er í þrennu lagi og á við þessar framkvæmdir á þrem stöðum í héraðinu.

Það er þá í fyrsta lagi fyrirhleðsla Þverár og Markarfljóts, að í stað 475 þús. kr. komi 620 þús. Í öðru lagi fyrirhleðslur í Kaldaklifs-, Svarðbælis- og Laugarársvæði í Austur-Eyjafjallahreppi, að í stað 142500 kr. komi 185 þús. kr. Og í þriðja og síðasta lagi fyrirhleðslur í Miðskálaá og frá í Vestur-Eyjafjallahreppi, fyrir 35 þús. kr. komi 45 þús.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt, enda hefur hæstv. forseti mjög lagt á það kapp, að menn yrðu hér stuttorðir, og kemur þá að sjálfsögðu ekki til greina að ræða það frv. nánar, sem hér liggur fyrir, að þessu sinni, þó að við stjórnarandstæðingar að sjálfsögðu höfum margt um það að segja og vildum hafa það í öðru horfi en fram hefur komið. Mun ég þá ekki eyða fleiri orðum að þessari brtt., en vænti þess, að henni verði tekið með velvilja, eins og þessum málum okkar Rangæinga hefur ætíð verið tekið hér á hv. Alþ., og að hún verði samþ. hér á hinu háa Alþingi.