28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur tekið fjárlagafrv. til meðferðar að venju milli 2. og 3. umr., bæði þau erindi, sem ég gat um við 2. umr. að óafgreidd væru hjá n., og enn fremur ýmis önnur mál, sem n. hafa borizt til athugunar á milli umr. Brtt. n. hefur verið útbýtt hér á þskj. 241, og auk þess munu vera væntanlegar brtt. á tveimur öðrum þskj., sem er ekki búið að útbýta, annað frá n. í heild og hitt frá meiri hl. n. Fjvn. stendur öll að brtt. þeim, sem hún flytur við þessa umr., að undanskilinni einni till., sem ég mun síðar gera grein fyrir og hefur ekki verið útbýtt hér. En ég vil jafnframt taka fram, að það er af hálfu fulltrúa Alþb. og Framsfl. í n. sami fyrirvari og við 2. umr. um það, að þeir áskilji sér rétt til þess að flytja eða styðja frekari brtt. og þá jafnframt breyt., sem kunna að vera gerðar á einstökum atriðum í till. n. eins og þær liggja fyrir.

Við 2. umr. frv. gerði ég grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem lægju að baki afgreiðslu þess þá af hálfu meiri hl. n., og mun ég ekki endurtaka þær röksemdir mínar nú, en gera aðeins grein fyrir þeim brtt., sem nú eru fluttar, eftir því sem tilefni þykir til, og síðan ræða lítillega niðurstöðutölur fjárlagafrv., eins og þær liggja fyrir, ef samþ. verða þær brtt., sem n. í heild og meiri hl. hennar gera við bæði tekju- og gjaldabálk þess nú við þessa umr.

Ég mun þá rekja brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj., og þá fyrst brtt. á þskj. 241.

Þar er í fyrsta lagi lagt til að hækka fjárveitingu til fangahjálpar um 150 þús. kr. Í fjárlagafrv. nú og í fjárlögum síðasta árs var 60 þús. kr. fjárveiting til fangahjálpar, en ástæðan til þess, að lagt er til að hækka þessa fjárveitingu nú, er ný starfsemi, sem hafizt hefur í þessum málum nú á þessu ári eða réttara sagt hófst á s.l. ári að nokkru leyti. Þá voru stofnuð hér í Reykjavík sérstök samtök, sem eru í svipuðu formi og hliðstæð samtök eru á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, og hafa þann tilgang að reyna að hjálpa þeim, sem hafa misstigið sig á þennan hátt, og koma þeim á eðlilegan og traustan grundvöll aftur í þjóðfélaginu. Félagssamtök þessi, sem hafa hlotið nafnið Vernd, hafa þegar, eins og ég áður sagði, hafið starfsemi sína og allmargir gerzt aðilar að þeim og leggja þar fram sína krafta, og þykir ástæða til þess að greiða fyrir starfi þessara samtaka, þar sem þau séu líkleg til þess að vinna þjóðnýtt starf. Hins vegar er það jafnljóst, að samræma verður þá starfsemi, sem rekin er með opinberum stuðningi á þessum vettvangi, þannig að ekki verði neinir árekstrar þar á milli, og það þykir því eðlilegast form á þessu, að fjárveiting sé í einu lagi og það síðan metíð af dómsmrn., hvernig hentugast sé að verja þessu fé, til þess að það nái sem beztum árangri, svo sem tilætlunin er.

Þá er næsti liður, sem er 100 þús. kr. fjárveiting til landsspítalans til svokallaðra blóðsegavarna. Ég veit ekki, hvort allir hv. þm. átta sig á, hvað um er að ræða, og ég skal því lítillega gera grein fyrir því. Til þess að það megi verða ljóst fyrir hv. þm., hvað um er að ræða, held ég að sé réttast, að ég lesi hér dálítinn kafla úr bréfi dr. Sigurðar Samúelssonar yfirlæknis á landsspítalanum til landlæknis, þar sem hann gerir grein fyrir hinni miklu nauðsyn þessa máls. Hann segir í þessu bréfi m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir 10–15 árum fór fyrst að bera á skipulegri meðferð í læknisfræðinni á blóðsegum, æða-trombosis. Hafa Norðurlöndin staðið þar framarlega, sérlega ber þó að nefna lyflæknisdeild ríkisspítalans í Osló.“ Síðan segir frá því, að íslenzkur læknir hafi farið til Osló til þess að kynna sér þessa starfsemi, og jafnframt segir í framhaldi af því, að haustið 1956 hafi hafizt reglulegar blóðsegavarnir á lyflæknisdeild landsspítalans. „Meðferð þessa fengu í fyrsta lagi allir sjúklingar með kransæðastiflu og þeir, sem hafa yfirvofandi einkenni um hana. Í öðru lagi sjúklingar með blóðsega í lungum, bæði í handlæknis- og lyflæknisdeild, Í þriðja lagi sjúklingar með æðabólgu og blóðsega í útlimaæðum frá öllum deildum landsspítalans ásamt sjúklingum með þessa sjúkdóma, sem sendir eru af starfandi læknum í bænum. Og í fjórða lagi sjúklingar með kölkunarsjúkdóma í heilaæðum. Meðferðar þessarar njóta nú um 200 manns hér á landsspítalanum, og er hún veitt við erfið skilyrði, sem sé ófullkomið húsnæði og of lítið starfslið. Einkum er skortur á læknisþjónustu til þess að fylgjast með almennu heilsufari þessa fólks og vera því til ráðgjafar um lífsvenjur og starfsgetu.

Eins og fyrr getur hafa hingað til nálega eingöngu þeir orðið aðnjótandi þessarar meðferðar, sem fengið hafa æðastíflu eða æðabólgu. Hitt er þó ljóst, að meðferð þyrfti að koma til greina fyrr í sjúkdómnum, en það mundi leiða til, að sjúklingahópurinn stækkaði um helming eða meira á næstunni. Þetta hefur því ekki getað komizt í framkvæmd vegna skorts þjálfaðs vinnuafls og skorts á húsrými. Til þess að þessi lækningaaðferð nái að þróast á eðlilegan hátt, þarf aukið húsnæði, aukna tekníska aðstoð og aukna læknisþjónustu. Sem stendur er landsspítalinn ekki fær um að veita neitt af þessu þrennu.

Árangur þessarar þriggja ára meðferðar á landsspítalanum hefur orðið fyllilega jafngóður og þar sem bezt hefur gengið erlendis. Sýndi Theodór Skúlason yfirlæknir í uppgjöri sínu, sem hann flutti sem erindi á Læknaþingi Íslands í júlí 1959, fram á eftirtalin atriði:

1) Að dánartölur sjúklinga hafa með þessari lækningaaðferð lækkað um ca. 2/3 hluta, en það jafngildir 110–120 mannslífum á ári hverju, þegar tekið er tillit til dánartalna í íslenzkum heilbrigðisskýrslum síðustu 6 árin, sem skýrslur geta um.

2) Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dauðaorsök með þjóðinni, 1.60/00 allra landsmanna, en krabbamein alls konar 1.30/00 og t.d. berklaveiki 0.030/00. Eftir reynslu í þessum efnum frá öðrum löndum er þó örugglega unnt að ná enn betri árangri, ef meðferð er hafin við fyrstu einkenni kransæðakölkunar (angina pectoris).

Af framangreindu er ljóst, að hér er um að ræða mikilsverðar varnarráðstafanir gegn alvarlegasta sjúkdómi þjóðarinnar, sem unnt er að benda á eins og sakir standa, og fyrirgreiðsla þessarar lækningastarfsemi þolir enga bið.“

Með hliðsjón af þessum röksemdum próf. Sígurðar Samúelssonar og umsögn landlæknis um þetta mál, þá þykir það svo mikilvægt, að sjálfsagt sé að hefjast begar handa í því efni að greiða fyrir því, að landsspítalinn geti sinnt þessari þjónustu, svo sem nauðsynlegt er. Því er ekki að leyna, að fjárveiting sú, sem við leggjum hér til, 100 þús., mun ekki nægja til að bæta að fullu úr þessum þörfum, og þarf því að athuga nánar síðar á þessu ári, hvernig þessum málum verði komið fyrir, en með þessari fjárveitingu er þó talið að hægt sé að greiða mjög verulega fyrir því, að landsspítalinn geti sinnt þjónustunni svo sem nauðsynlegt er.

Varðandi 3. brtt. n. sé ég ekki ástæðu til að orðlengja. Það er aðeins breyting á orðalagi varðandi fjárveitingu til Siglufjarðarvegar og hefur ekki í för með sér neina hækkun eða breyt. fjárveitingarinnar.

Þá er næsti liður, sem er hækkun á framlagi til hafnarbótasjóðs um 1.5 millj. kr., ag sé ég ástæðu til þess að gera sérstaka grein fyrir því máli. Hér er ekki um að ræða hækkun á almennri fjárveitingu til hafnarbótasjóðs, heldur er þessi hækkun eingöngu bundin við eina höfn, Akraneshöfn, og er ástæðan sú, að þessi höfn hefur algera sérstöðu. Það standa nú þannig sakir, að vangreiddar eru til Akraneshafnar tæpar 7 millj. kr. af því ríkisframlagi, sem hún á rétt til, eða var það um síðustu áramót. En það er þó ekki eingöngu þessi ástæða, sem veldur því, að nauðsynlegt þykir að hafa bessa sérstöku meðferð á Akraneshöfn, heldur hitt, að Akraneshöfn skuldar erlend lán, og þessar erlendu lántökur og skuldir valda því, að höfnin verður vegna gengisbreytingarinnar fyrir mjög miklu áfalli, þannig að skuldir þessar munu hækka um á þriðju millj. kr. Það liggur því alveg ljóst fyrir, að vegna þessara áfalla og vegna annarra skuldbindinga, sem höfnin þarf að standa undir á þessu ári, yrði það henni gersamlega um megn, og það þykir sjálfsagt, enda er það í samræmi við óskir bæjaryfirvalda á Akranesi, að heldur verði farin sú leið að reyna að greiða með sérstöku framlagi hluta af skuld ríkissjóðs við höfnina en að til þess komi, sem ella er talið óumflýjanlegt, að á ríkissjóð mundu falla ábyrgðarskuldbindingar að einhverju verulegu leyti, en Akranes hefur hingað til staðið við allar skuldbindingar sínar varðandi framlög til hafnarmála. Ég vil taka það fram, að Akraneshöfn hefur að þessu leyti algera sérstöðu, og er engin önnur höfn á landinu sambærileg við Akranes hvað þessar aðstæður snertir, og hefur því verið talið rétt að hafa þennan hátt á og greiða 1.5 millj. á þessu ári umfram það, sem ráðgert var áður til Ákraneshafnar, og lækkar þá skuld ríkissjóðs við höfnina sem því nemur.

Þá er 5. till. n., sem er þess efnis að lækka áætlaðar tekjur Ferðaskrifstofu ríkisins um 250 þús. kr. Ástæðan til þessarar brtt. er sú, að það þykir sýnt, að tekjur ferðaskrifstofunnar á árinu 1960 nemi alls ekki þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. En ástæða þess hins vegar, að sú háa upphæð er í fjárlagafrv., sem nú er þar gert ráð fyrir að ferðaskrifstofan muni skila í tekjum á árinu, er sú, að tekjur ferðaskrifstofunnar á árinu 1958 urðu óvenjumiklar eða öllu hærri en tekið er inn í fjárlfrv., og þegar það var samið, var ekki við annað að styðjast en niðurstöðutölur ársins 1958. Það hefur hins vegar við nánari athugun komið í ljós, að það voru óvenjulegar tekjur, sem ferðaskrifstofan þá fékk í sinn hlut, sem komu ekki til á árinu 1959 og munu ekki koma til á árinu 1960. Og enda þótt sjálfsagt þyki að gera ráð fyrir því, að ferðaskrifstofan geti fengið eitthvað auknar tekjur af sölu minjagripa, þykir samt ljóst, að það mundi verða rekstrarhalli, og því óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því, að tekjurnar minnki sem þessu nemur, ella yrði aðeins um umframgreiðslur að ræða, sem sjálfsagt er að forðast.

Næstu tveir liðir, 6. og 7. brtt. n., eru aðeins um það að færa fjárveitingu til húsgagnakaupa vegna mötuneytis skólanna á Laugarvatni af lið menntaskólans yfir á lið héraðsskólans, og er þetta gert eftir ósk menntmrn. og er aðeins formsatriði.

Þá kemur hér næst 1/2 millj. kr. fjárveiting til framkvæmda á Rafnseyri, og er þar um að ræða útgjöld, sem n. var ekki ljóst við 2. umr., að óhjákvæmilegt yrði að taka tillit til. En í stuttu máli er því þannig háttað, að á Alþ. 1944 var samþ. 50 þús. kr. fjárveiting til framkvæmda á Rafnseyri, og var þá að vísu ekki gert ráð fyrir, að fjárveiting yrði meiri en svo, að þetta yrði fyrsta fjárveiting af þremur til framkvæmda þar til minningar um Jón Sigurðsson forseta. Nú hefur þetta allt orðið stærra í sniðum, og niðurstaðan varð sú, að þarna yrði reist saman skólahús og prestssetur. Samkvæmt prestakallaskipunarlögunum er svo ákveðið, að þarna sé kennsluprestakall, að presturinn sé jafnframt kennari, og það hefur verið hafizt handa þarna um að byggja heimavistarskóla og jafnframt íbúð fyrir skólastjóra, sem yrði þá um leið íbúð fyrir prestinn. Að þessu hefur verið unnið undanfarin ár, og hafa þessar framkvæmdir kostað til þessa um 1.2 millj. kr. Til þessara framkvæmda hefur verið greitt bæði af skólabyggingarfé og enn fremur af framkvæmdafé prestssetra. Nú standa sakir þannig eftir þeirri grg., sem lögð var fyrir n. frá húsameistara ríkisins og n. var gerð grein fyrir af forseta Íslands, sem er formaður Rafnseyrarnefndar, að þá mun vanta um 1 millj. kr. til þess að ljúka því húsi, sem þar er nú í smiðum, á næsta ári. Þykir vera nauðsynlegt að stefna að því vegna afmælishátíðar, sem mér skilst að sé hugmyndin að efna þar til í tilefni af 150 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta. Og þá mundi verða nauðsynlegt að verja sem sagt samtals 1 millj. kr. til þess að ljúka þessum framkvæmdum. N. telur ekki annað auðið en verða við þessum óskum, þar sem hér er ekki annað en óhjákvæmilegar staðreyndir við að fást. Úr því að út í þessar byggingar hefur verið lagt, er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en að ljúka þeim, og þykir eðlilegast, þar sem byggingar þessar eru mun meiri í sniðum á allan hátt en mundi hafa verið lagt út í af þeim hreppum, sem þarna eiga aðild að skóla, að þá sé þetta greitt með sérstakri fjárveitingu úr ríkissjóði og henni verði skipt á tvö ár og helmingurinn þá veittur á árinu 1960. Er talið af aðilum málsins, að hægt sé að leysa þetta, ef sú skipan verður á höfð.

Þá er 9. brtt. Þar er aðeins um að ræða orðalagsbreytingu. Fjárhæðin breytist ekki. Í fjárlfrv. er nefndur heimavistarskóli áfengisvarnanefndar kvenna að Hlaðgerðarkoti, en þar sem ekki er sérstaklega gert ráð fyrir að sá skóli sé starfræktur, þótti eðlilegt að binda ekki fjárveitinguna sérstaklega við hann, heldur hafa þetta almenna heimild í sambandi við ráðstöfun á þessu fé, sem yrði þá háð ákvörðun menntmrn.

Þá er 10. brtt., þar sem lagt er til að veita 150 þús. kr. til viðgerðar á gamla stúdentagarðinum. N. hefur borizt matsgerð frá sérfróðum mönnum um, að það muni kosta 150 þús. kr. að minnsta kosti að framkvæma ýmiss konar viðgerðir á gamla stúdentagarðinum, og eftir þessari álitsgerð að dæma eru þær viðgerðir svo brýnar, að þeim verður alls ekki skotið á frest. Og með hliðsjón af því, að þessar stofnanir afla sér ekki meiri tekna en svarar til að standa undir eðlilegum og venjulegum rekstrarkostnaði, þykir sanngjarnt, að ríkið hlaupi hér undir bagga og leggi fram þetta fé, til þess að viðgerð þessi þurfi ekki að dragast á langinn, þar sem nauðsynlegt er, að unnið sé að henni í sumar.

Þá er 11. brtt., sem er um að hækka lítið eitt fjárveitingu til lektora í íslenzku,, þ.e.a.s. íslenzkra lektora við erlenda háskóla. Þá breytingu leiðir aðeins af gengisbreytingunni, að launin eru hækkuð í samræmi við hana, þar sem hér er um að ræða yfirfærslu til útlanda.

Næstu tvær brtt. eru aðeins leiðrétting. Það er fjárveitingin, sem samþ. var við 2. umr., 300 þús. kr. vegna flutnings safns og kaupa á safnhirzlum. Af misskilningi hefur verið talið, að þetta væri á vegum þjóðskjalasafnsins, en hér er um að ræða handritasafn landsbókasafnsins, og hefur fjárveitingin verið færð yfir á landsbókasafnið, en upphæðin að öðru leyti óbreytt.

Þá er sama að segja um brtt. 14 og 15. Fyrir mistök hafði 10 þús. kr. hækkun verið gerð á fjárframlagi til þjóðfræðasöfnunar, en átti að vera á fjárframlagi til örnefnasöfnunar, og er hér aðeins um leiðréttingu að ræða.

Þá er 16. till. n. um 10 þús. kr. hækkun vegna kostnaðar við norrænu menningarmálanefndina. Það þykir óhjákvæmilegt að verða við þessari ósk, þar sem mikið af þessum kostnaði nefndarinnar er erlendur kostnaður, og úr því að við erum aðilar að þessari n., verður ekki fram hjá því komizt að leysa af hendi þær skyldur, sem því fylgja.

Þá er 17. brtt., sem er um það að verja 50 þús. kr. til þátttöku í hinni alþjóðlegu listsýningu í Feneyjum, svokallaðri „biennale“, sem á að vera nú á þessu ári. Um þetta mál er það að segja, að árið 1955 var samþ. í Norðurlandaráði ályktun um athugun á því að koma upp sameiginlegum sýningarskála fyrir Norðurlöndin í Feneyjum til þátttöku í þessari sýningu, en þarna eiga margar þjóðir sína sérstöku sýningarskála. Þessi athugun leiddi í ljós, að það mundi valda mjög miklum útgjöldum fyrir Ísland að gerast aðili að þessari skálabyggingu, og var því frá því horfið, enda við nánari athugun sýnt, að það mundi auðið að fá leigða aðstöðu til sýningar þarna án nokkurra verulegra útgjalda. Það þykir vera óumflýjanlegt, að Ísland taki þátt í sýningu þessari. Þetta er ein frægasta listsýning alþjóðleg, sem haldin er, og er það mikið áhugamál hjá íslenzkum listamönnum að geta tekið þátt í sýningunni, og þar sem ekki er þó gert ráð fyrir, að það kosti meira en hér um ræðir, sem er aðallega flutningskostnaður á málverkum og höggmyndum og síðan gæzla þeirra, þykir sanngjarnt að mæla með því, að 50 þús. kr. verði veittar í þessu skyni.

Þá er 18. brtt., sem er um smávægilega hækkun til tónlistarkennslu á Siglufirði. Kom í ljós við nánari athugun, að það væri óumflýjanlegt annað en veita þessa hækkun, þar sem um er að ræða tvo tónlistarskóla og fjárveitingu skipt á milli þeirra og aðstæður þannig, að ekki var með góðu móti hægt að koma því við án þess að fá smávægilega hækkun á fjárveitingu.

Þá er 19. brtt., sem er um fjárveitingu til kirkjubyggingasjóðs, að hækka hana úr 1/2 millj. í 800 þús. kr. Það var eitt þeirra mála, sem ekki hafði verið tekin afstaða til fyrir 2. umr. En ekki þykir verða hjá því komizt að leggja til, að þessi hækkun verði gerð. Hér er um að ræða stuðning við kirkjubyggingar víðs vegar um land, og þegar þess er gætt, að t.d. Reykjavíkurbær veitir 1 millj. kr. á ári og það sem styrk til kirkjubygginga hér í Reykjavík, en ríkið aðeins 1/2 millj. sem lán, var hér svo mikið misræmi á, að það þótti sanngjarnt að jafna þessi met nokkuð, og er því lagt til, að hin fasta fjárveiting til kirkjubyggingasjóðs hækki í þetta sinn.

Að vísu er í lögum um hann ekki gert ráð fyrir hærri upphæð en 1/2 millj., en lagt er til, að nú verði að auki veittar 300 þús. kr. til sjóðsins á þessu ári.

Þá er 20. brtt. n. Hún er um að hækka um 100 þús. kr. fjárveitingu til fyrirhleðslu í Þverá og Markarfljóti. Hafa á ári hverju verið veittar allháar fjárveitingar til varnargarða á því vatnasvæði, og það eru orðin mikil mannvirki, sem þarna eru, eins og allir þeir vita, sem hafa bara ferðazt. Vegamálastjóri hefur bent n. á, að fjárveitingarnar séu fyrst og fremst til þess nú orðið að halda við þessum mannvirkjum og sjá um, að árnar brjóti ekki skarð í garðana, og hún hafi verið í það tæpasta, sú fjárveiting, sem gert var ráð fyrir. Þykir því rétt að leggja til, að hún verði hækkuð um 100 þús. kr.

Þá eru 21. og 22. brtt. Þær eru þess efnis, að felld er niður krafa, sem samþ. var við 2. umr. að gera í sambandi við fyrirhleðslu í Kotá í öræfum um, að viðkomandi aðilar heima fyrir greiddu 1/8 hluta kostnaðar. Það hefur verið venja að gera þá kröfu, þegar fyrirhleðslur sem þessar eru eingöngu í þágu jarða þeirra, sem að fljótunum liggja. En þegar þetta hefur jafnframt verið þáttur í vegagerð, hefur ekki slík krafa verið gerð, og hefur komið í ljós við nánari athugun, að hér er einmitt þannig ástatt, að þetta mun koma að verulegu gagni og vera raunar óumflýjanlegt í sambandi við væntanlega vegagerð eða brúargerð á þessum stað, og þykir því eðlilegt með hliðsjón af þeirri reglu, sem fylgt hefur verið, að fella niður þessa kröfu um 1/8 hluta greiðslu heiman að.

Þá er 23. brtt. um að hækka tillag til sjóvarnargarðs í Ólafsvík um 25 þús. kr. Framlag þetta hafði verið lækkað um helming frá því, sem það var í fjárl. á s.l. ári, og við nánari athugun á því, hvað þarna sé nauðsynlegt að framkvæma á þessu ári, þykir sanngjarnt að leggja til, að fjárveitingin verði hækkuð um 25 þús. kr. frá því, sem hún var samþ. við 2. umr.

24. brtt. sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um. Það er aðeins smávægileg lagfæring í sambandi við framlag til alþjóðahvalveiðiráðsins og gefur ekki tilefni til sérstakra aths.

Þá er 25. brtt., sem felur í sér 1.1 millj. kr. hækkun á framlagi til hlutatryggingasjóðs. Samkv. l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins ber ríkissjóði að leggja til sjóðsins árlega mótframlag á móti 1/2% útflutningsgjaldi af öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum. Vegna gengisbreytingarinnar og þar af leiðandi í krónum mjög hækkaðs verðs á þessum útfluttu afurðum, hækkar að sjálfsögðu framlag ríkissjóðs, og hefur sjútvmrn. áætlað, að ekki væri varlegt að gera ráð fyrir að hækka þessa fjárveitingu minna en um 1.1 millj. kr., til þess að verða ekki fyrir áföllum á þessum lið. Hér er að sjálfsögðu ekki um annað en reikningsdæmi að ræða og aðeins til þess að uppfylla þær skyldur, sem lögboðnar eru.

Þá kemur 26. till., sem er nýr liður, til tækninýjunga 135 þús. kr. Þannig standa sakir, að til fjvn. hefur verið leitað með ýmiss konar uppfinningar, sem hugvitssamir menn hafa verið að vinna að og telja sig náttúrlega í hverju tilfelli hafa fundið púðrið. Nú er það ákaflega erfitt fyrir fjvn., þótt þar séu náttúrlega miklir hæfileikamenn, að finna það út, hvað raunverulega sé hér á ferðinni og hvort þarna séu hugmyndir, sem rétt sé að styrkja eða ekki, því að vissulega er það svo, að ef um merkilegar tækninýjungar er að ræða, geta þær haft svo mikið þjóðfélagslegt gildi, að það sé rétt, að ríkið hlaupi þar undir bagga. Með hliðsjón af þessu hefur n. þótt rétt og skynsamlegt að leggja til, að nokkur fjárveiting yrði til ráðstöfunar til þess að styrkja slíkar nýjungar, eftir að sem nákvæmust athugun hefur farið fram á því, hvort hér sé um þá hluti að ræða, sem rétt sé og eðlilegt að styrkja. Þetta þykir n. eðlilegra en að fara að taka upp fjárveitingar til einhverra einstakra aðila í þessu efni, sem oft er mikil ásókn með, og telur, að þessum málum sé betur fyrir komið á þennan hátt.

Þá er 27. brtt. Hún er um það að hækka fjárveitingu til vatnsveitna um 100 þús. kr. Það skal játað, að þessi hækkun hrekkur skammt til þess að mæta þeim þörfum, sem þarna er um að ræða. Eins og hv. þm. er kunnugt, er í l. um vatnsveitur gert ráð fyrir styrk úr ríkissjóði og jafnframt ríkisábyrgðum í sambandi við vatnsveitur, og um síðustu áramót leit þetta þannig út, að þá voru vangreidd framlög ríkissjóðs 1.6 millj. kr. rúmar, en fjárveiting í fjárl. og í frv. nú er aðeins 570 þús. kr. Það hefur hins vegar ekki þótt fært að hækka þetta meira en hér segir og er raunar ekki nema til að ganga aðeins lítið eitt til móts við þær miklu þarfir, sem hér eru, en gæti þó kannske létt einhverjum vanda af.

Þá er 28. brtt. Hún er um það að hækka framlag til Sambands íslenzkra sveitarfélaga um 50 þús. kr. Þessi till. byggist á því, að þegar 25 þús. kr. styrkur til sambandsins var ákveðinn, var að sjálfsögðu um að ræða aðeins hluta af kostnaði við starfsemi þessa sambands. Nú hafa framlög sveitarfélaganna síðan verið aukin mjög mikið til sambandsins, og þessi hækkun styrksins er við það miðuð, að hlutfallið á milli framlags ríkissjóðs og sveitarfélaganna sé það sama og var, meðan styrkurinn var ákveðinn 25 þús. kr.

Við 2. umr. var samþ. að veita 50 þús. kr. til byggingar blindraheimilis, sem verið er að reisa hér í Reykjavík. Er lagt til að hækka þessa fjárveitingu upp í 100 þús. kr. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að erfðafjársjóður mun hafa yfir mjög miklu fé að ráða, og væri full ástæða til þess að athuga, hvort hann gæti ekki hlaupið enn betur undir bagga með þessum mikilvægu framkvæmdum en hann þegar hefur gert.

30. till. n. er um að hækka um 10 þús. kr. styrk til neytendasamtakanna. Neytendasamtökin hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna hér á landi, svo sem í öðrum löndum, enda eru þau víða erlendis mjög sterk og gegna mjög ábyrgðarmiklu starfi til tryggingar vöruvöndun og til öryggis fyrir neytendur. Starfsemi samtakanna hefur farið mjög vaxandi hér með hverju ári, sem liðið hefur, og er miklu meira að því gert stöðugt að leita til þeirra, ef menn þykjast hafa orðið eitthvað illa úti í sambandi við vörukaup. Og það er engum efa bundið, að ef starfsemi þessi er rekin á réttum grundvelli, getur hún gert mjög mikið gagn og verið mikið aðhald varðandi vöruvöndun og alla þjónustu við neytendur. Það þykir því sanngjarnt að leggja til, að smávægileg hækkun verði á styrk til neytendasamtakanna.

Þá er 31. brtt. n., hún er um breyt. á 18. gr. Varðandi þær till. hef ég ekki margt að segja. Það er auðvitað nú sem áður mikið vandamál að fást við þessa 18. gr. Ég skal taka það fram hér, að í n. var einn nm., hv. 5. þm. Vestf. (BF), sem lýsti sig andvígan því, að teknar yrðu upp frekari fjárveitingar í sambandi við 18. gr. fjárl., og það er vitanlega rétt, að 18. gr. er mikið vandræðamál, og má segja, að það fari vaxandi það vandræðamál og það svo mjög, að það er fullkomin ástæða til þess, að teknar verði til endurskoðunar þær reglur, sem gilda varðandi lífeyrisgreiðslur til opinberra starfsmanna, því að ef það verður venja, svo sem nú er raunar orðið, að opinberir starfsmenn, sem hætta störfum á hverju ári og fá sínar lögboðnu greiðslur úr lífeyrissjóði, fái síðan meiri og minni viðbótargreiðslur á 18. gr. fjárl., sýnist fullkomlega tímabært að endurskoða gildandi lagaákvæði um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og íhuga, hvort það þyki þá ástæða til að hækka greiðslur úr þeim sjóði eftir einhverjum ákveðnum reglum, sem er vitanlega miklu eðlilegra en að afgreiða málið með þessu móti, sem alltaf verður meira og mínna handahófskennt, enda þótt n. hafi á undanförnum árum reynt að búa sér til ýmsar reglur til þess að fara eftir. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, til þess að það valdi engum misskilningi, sem mun þó að vísu vafalaust vera öllum hv. þm. kunnugt, að þessar upphæðir, sem eru í till. n., verður að skoða í ljósi þess, að hér er í flestum tilfellum um að ræða viðbætur við lögboðnar lífeyrisgreiðslur, og af þeim sökum kann það vel að vera, að í greininni séu kannske ekki nema smáupphæðir við nöfn sumra, sem þó kunna, þegar allt kemur til alls, að fá mun hærri eftirlauna- eða lífeyrirsgreiðslu en þeir, sem eru kannske með hæsta upphæð í tillögum nefndarinnar. Ég vil sérstaklega taka það fram, að n. hefur um sex ára skeið fylgt þeirri meginreglu að veita engum hærri eftirlaun en 80% af fullum launum. Áður fyrr voru ýmis dæmi þess, — og það eru til slík dæmi enn að sjálfsögðu, því að því hefur ekki verið breytt, sem þá hafði tekið gildi, – að menn hafi full laun og jafnvel ríflega það, og þótti óumflýjanlegt að setja hér einhver ákveðin mörk, og ég vil taka það fram, að n. hefur ekki þessi ár nokkru sinni farið yfir þetta mark. En ég ítreka það, og það er ábending n. til hæstv. ríkisstj., að hún láti athuga rækilega 18. gr. og þann grundvöll, sem hún er byggð á, og sérstaklega að íhuga, hvort ekki er hægt að finna einhverjar leiðir til þess að koma þessum málum fyrir á annan veg, a.m.k. varðandi þá aðila, sem hér eftir koma til sögunnar og mundu verða teknir að öðru óbreyttu inn á 18. gr.

33. brtt. fjvn. er við 19. gr. og er þess efnis, að varið verði 5 millj. kr. til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Hér er ekki um nýtt mál að ræða í sambandi við afgreiðslu fjárl. heldur er hér aðeins um það að ræða að taka upp fjárveitingu, sem leiðir óhjákvæmilega af lögum þeim um verðlagningu landbúnaðarvara, sem hafa verið hér til meðferðis og Alþ. hefur samþ. En samkv. þeim l. er gert ráð fyrir því, að útfluttar landbúnaðarafurðir verði ekki sem áður upp bættar á þann hátt að hækka verð á vörum til neytenda innanlands, heldur taki ríkissjóður að sér að greiða þann halla, sem bændur kunna þá að verða fyrir. Hér er vitanlega um að ræða verulega miklu hærri upphæð en 5 millj., en hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að það gildi sama regla um landbúnaðarafurðir og aðrar framleiðsluvörur, að það, sem framleitt var fyrir 16. febr., komi yfir á útflutningssjóð, en að öðru leyti verði þetta að greiðast úr ríkissjóði. Það er enn auðvitað ekki vitað og þykir ógerlegt að áætla það nákvæmlega, hvað þá þessi heildarupphæð verði, en það hefur verið talað um í þessu sambandi sem sennilega upphæð 12 millj. kr. á þessu ári.

34. og 35. brtt, n, eru um það að hækka fjárveitingar til bygginga á prestssetrum og útihúsabygginga á prestssetrum um samtals 300 þús. kr. Það stendur mjög illa með þessar framkvæmdir og það svo mjög, að dómsmrn. mun hafa gefið loforð um greiðslu á þessu ári vegna framkvæmda á prestssetrum, sem nú eru í smíðum, fyrir töluvert meiri fjárhæð en fjárveitingin verður samtals, enda þótt þessi hækkun sé á henni gerð, og þótti því ekki verða hjá því komizt að leggja til, að þessir liðir yrðu hækkaðir sem þessu nemur og ég hef gert grein fyrir.

Þá er 36. brtt. Hún er um byggingu starfsmannahúss að Bessastöðum. Það mál er þannig til komið, að á s.l. ári var með samþykki þáv. hæstv. ríkisstj. hafizt handa um byggingu íbúðarhúss fyrir nokkuð af starfsfólki forsetaembættisins, vegna þess að húsakostur var þar orðinn algerlega óviðunandi, og þótti því ekki verða með nokkru móti komizt hjá því að hefja þær framkvæmdir. Áætlun arkitekts um byggingarkostnað þessa húss er 660 þús. kr., og er þessi fjárveiting miðuð við, að heildarkostnaður við bygginguna verði greiddur á tveimur árum og tekin upp 330 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni eftir ósk forsrn.

37. brtt. sé ég ekki ástæðu til að ræða sérstaklega. Hún er að meginefni til óbreytt, frá því að hún var flutt hér við 2. umr., þ.e. um að heimila hækkun úr 20 aurum í 30 aura á hvern vindlingapakka, sem merktur er merki landgræðslusjóðs. Hagur skógræktarinnar er mjög slæmur, og það þurfti á s.l. ári að gera ýmsar óvenjulegar ráðstafanir, fjársafnanir og jafnvel lántökur, til þess að fleyta skógræktinni áfram yfir s.l. ár, og þykir útilokað annað en hún verði að fá töluvert meira fé á þessu ári. Ég skal fúslega játa, að þetta er mjög hæpin leið, að vera að leggja sérstök gjöld á eitt og annað, ekki hvað sízt þær vörur, sem eru meðal helztu tekjustofna ríkissjóðs, og má segja, að það geti verið jafneðlilegt að taka upp beina fjárveitingu í þessu sambandi. Það þykir hins vegar ekki rétt að gera ráð fyrir því í þetta sinn. En ég vil vekja athygli á því, sem ég gerði við 2. umr., að það er óumflýjanleg nauðsyn, að ríkisstj. taki nú til heildarathugunar framkvæmdir í skógræktarmálum og gerð verði einhver áætlun um framkvæmdir skógræktarinnar næstu árin. Það er vitanlega óviðunandi, að aldar séu upp svo og svo margar plöntur, — nú er það komið á aðra millj., og skógræktin gerir ráð fyrir að fara með þær upp í 2 millj. á ári, — ef síðan er ekki hægt að gróðursetja þessar plöntur. Hér verður að vera samræmi á milli og miða framkvæmdir við það, hvað talið er mögulegt að leggja af fé til þessara hluta. Og það verður ekki gert á annan hátt en þann að gera einhverja áætlun um þessar framkvæmdir nokkur ár fram í tímann.

Breyt., sem felst í orðalagi þessara heimilda frá því, sem var við 2. umr. málsins og er nú í fjárlögum, er sú, að gert er ráð fyrir, að það verði ekki bundið algerlega, að allt, sem selt er af þeim tilteknu vindlingategundum, skuli vera með merki sjóðsins, heldur sé það opið eftir nánari athugun fjmrn., hvort það verði framkvæmt á þennan hátt eða þá haft frjálst val varðandi allar tegundir, sem einnig getur komið til greina.

Þá er 38. brtt. n., sem er ástæða til þess að gera hér nokkra grein fyrir.

Öllum hv. þm. mun vera kunnugt um það vandamál, sem skapazt hefur vegna hins mikla vatnsflaums, sem allt í einu kom fram á Mýrdalssandi á árinu 1958 og óx síðan mikið á s.l. ári og hefur valdið því, að þar hafa orðið stórfelldar skemmdir og samgöngur raunverulega rofnað síðan við allmarga hreppa Vestur-Skaftafellssýslu, sem eru austan Mýrdalssands. Það yrði allt of langt mál að fara út í þetta í einstökum atriðum, en það er augljóst, að hér er um mjög alvarlegt vandamál að ræða. Kostnaður, sem þegar er til fallinn vegna þessara framkvæmda á Mýrdalssandi, var um síðustu áramót orðinn rúmar 4 millj. kr. á árinu 1959 og þar til viðbótar um tæpar 800 þús. kr. á árinu 1958, og þessi kostnaður hefur þegar verið greiddur. En þrátt fyrir þessar miklu fjárveitingar og þær miklu framkvæmdir, sem þarna var unnið að, fór nú svo, ef svo má að orði komast, að þetta rann allt út í sandinn, og brú mikil, sem gerð var þarna í fyrrasumar, sökk algerlega og er horfin, og varnargarðar þeir, sem gerðir voru, eru sundursprungnir og því eins og sakir standa algerlega ófært þarna austur nema þá þann tíma ársins, sem vatnsflaumurinn er minnstur. Verði því ekkert þarna aðhafzt, má segja, að samgöngur séu rofnar austur fyrir Mýrdalssand.

Nú er því hins vegar ekki að leyna, að vegamálastjóri telur, að það sé ómögulegt að fullyrða neitt um það, hvort hægt sé að gera þarna þær framkvæmdir, sem varanlegar geti orðið eða jafnvel standist nema stuttan tíma. Hann hefur hins vegar gert áætlun um styrkingu varnargarða og jafnframt byggingu á tveimur brúm, annarri 100 metra langri og hinni 50 metra, og gert ráð fyrir því, að þessar framkvæmdir allar muni kosta um 6 millj. kr. En eins og ég áðan gat um, fylgir sá böggull skammrifi, að óvíssa er mjög mikil um það, hvort þessar miklu fjárveitingar mundu koma að nokkru liði. Vil ég leyfa mér í því sambandi að lesa hér nokkrar setningar úr grg. vegamálastjóra um málið, til þess að hv. þm, verði ljóst, hvað hér er við að fást. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Erfiðleikarnir við að framkvæma þær till., sem að framan eru greindar, eru geysimiklir. Í fyrsta lagi er efni í fyrirhugaðar brýr ekki enn komið til landsins, og í öðru lagi er óvíst, að takast megi að fá nauðsynlegar vinnuvélar til þess að framkvæma ofangreindar till. nógu snemma, þar sem framkvæmdum þarf helzt að verða lokið að mestu í lok júnímánaðar. Erfiðleikarnir við að tryggja brúarsporðana eru mjög miklir, þar sem ekki er annað efni fyrir hendi en laus vikursandur og grjót, sem sækja verður niður í Dýralækjarsker, um 6 km veg, þar sem ógerningur er nú orðið að ná nokkru grjóti í Hafursey, enda er þar eingöngu um móberg að ræða.“

Og að lokum segir hann:

„Ég vil að lokum taka það fram, að miðað við reynslu undanfarinna tveggja ára og reynslu vegagerðarinnar almennt af vatnsföllum þeim, sem renna fram frá Mýrdalsjökli, þá er engin trygging fyrir því, að ofangreindar framkvæmdir komi að fullu gagni. Vatnshlaup eins og það, sem fram kom úr jöklinum sumarið 1955 og sópaði burt þáverandi brú á Múlakvísl og Skálm, mundi hæglega geta. eyðilagt mikið af þeim mannvirkjum, sem lagt er til að byggð verði hér að framan. Eins má telja næstum öruggt, að Kötlugos í líkingu við það, sem varð 1918, mundi sópa burt nær öllum þeim mannvirkjum, sem nú eru á Mýrdalssandi, allt frá Höfðabrekkuheiði og austur að Hólmsá í Skaftártungu. Mér er það ljóst, að einhver takmörk hljóta að vera fyrir því, hve miklu fé er hægt að verja til jafnóvissra framkvæmda og samgöngubætur á Mýrdalssandi eru og hljóta alltaf að vera. Aðrar leiðir til þess að ná vegasambandi milli byggðanna austan og vestan Mýrdalssands eru um Fjallabaksveg nyrðri eða Landmannaleið og um Fjallabaksveg syðri. Báðar þessar leiðir hafa verið athugaðar sumarið 1958 og sumarið 1959, en fullnaðarniðurstöður af þeim athugunum liggja ekki enn fyrir. Eitt er þó víst í því sambandi, að þar getur aldrei orðið um annað en sumarveg að ræða, sem fær yrði 2–4 mánuði ársins, og um þær hefur aðeins hingað til verið rætt sem hugsanlegan varaveg, ef til Kötlugoss kæmi. Ég vænti þess að geta síðar á þessum vetri látið í té áætlanir um kostnað við að gera tvær ofangreindar leiðir sumarbílfærar, en til þess þarf töluverða vegagerð og þó einkum brúargerð á nokkrum erfiðum vatnsföllum.“

Af þessum orðum má ljóst vera, að hér er um mjög alvarlegt vandamál að ræða fyrir þá sök, að það verður engan veginn fullyrt, að þessar 6 millj., sem kæmi til með að verða varið í þessar framkvæmdir, ef út í þær yrði lagt nú, kæmu að nokkru haldi. Það er hins vegar skoðun bæði ríkisstj. og fjvn., að það verði að reyna að gera tilraun til þess að koma á samgöngum þarna austur yfir enn einu sinni, þar sem ella er ósýnt um, hvernig fer með byggð á þessum slóðum. En það er auðvitað jafnljóst, að það er hin mesta nauðsyn, ekki hvað sízt fyrir fólkið austan Mýrdalssands, að út í þessar framkvæmdir verði ekki farið, fyrr en þaulkannað hefur verið, hvaða úrræði séu líklegust til að skila árangri, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að menn mundu telja sér fært að leggja út í slíkar framkvæmdir á nýjan leik, ef þetta færi allt forgörðum á skömmum tíma.

Af þessum sökum er það, að sú leið hefur verið farin að ákveða aðeins í heimildagrein að verja allt að 6 millj. til þessara samgöngubóta, vegna þess að það þykir sjálfsagt og nauðsynlegt, að kannað verði algerlega til hlítar, hvaða ráð séu tiltækilegust í þessu efni, og þess vegna er mjög vafasamt, hvort rétt sé að ráðast í þessar framkvæmdir á þessu ári. Að minnsta kosti þarf það allt að kannast rækilega, og þykir eðlilegt og rétt, að þeim athugunum verði haldið áfram, sem vegamálastjóri segir í niðurlagi sinnar grg. til fjvn. að enn sé ekki fulllokið, og að lögð verði áherzla á það að kanna allar hugsanlegar leiðir, áður en út í þessar miklu framkvæmdir verður farið.

Þá er 39. till, n., það er að gefa eftir skuld Rauða kross Íslands, 45 þús. kr., sem stafar frá árinu 1953, vegna kaupa á dísilvél til ljósa, sem þá var keypt af varnarliðinu. Það þykir óeðlilegt að vera að krefja Rauða krossinn um þetta fé. Hann mun ekki hafa það mikið úr að spila og hefur ekki talið sér fært að greiða þetta, þannig að lagt er til, að það verði gefið eftir.

Á þskj. 243 eru nokkrar brtt., sem ég vil víkja að með nokkrum orðum. Ég mun víkja síðar að 1, brtt., en 2. brtt. er um smávægilega hækkun á fjárveitingu til umbúðasmíði fyrir fatlaða, eða um 6000 kr. hækkun, sem er eftir ósk, sem hefur komið fram vegna þess, að við skiptingu á þessu fé þykir sýnt, að ekki nægi að fullu sú upphæð, sem gert er ráð fyrir, til að mæta þeim þörfum, sem hér eru taldar vera fyrir hendi.

Þá er 3. brtt., hún er aðeins þess efnis að taka inn í fjárlögin laun þjóðgarðsvarðar. Þau hafa verið greidd til þessa, en þó á þann hátt, að fráfarandi þjóðgarðsvörður var jafnframt Þingvallaprestur og tók aðeins laun sem slíkur. En nú er allt óákveðið um, hvernig verður í því efni, og núverandi þjóðgarðsvörður er ráðinn til Þingvalla fyrst og fremst sem þjóðgarðsvörður, og verður því ekki hjá því komizt að áætla laun hans, og eru þau reiknuð á sama hátt og þau áður voru og eru óbreytt.

Þá eru hér nokkrar brtt. við 22. gr. frv. Það eru í fyrsta lagi tvær till., sem varða síldveiðarnar, og er önnur þess efnis að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. lán til endurbóta á síldarverksmiðjum á Austurlandi. Það hefur mjög verið sótt á um það að gera þar margvíslegar endurbætur og aukningu á þeim verksmiðjum, og samkvæmt mati ríkisstj. á þeim till. hefur n. talið rétt að fallast á þá till. hennar, að hún fengi heimild til þess að veita allt að 10 millj. kr. ábyrgð vegna þessara framkvæmda, en þó ekki sundurliðað á þessu stigi á einstakar verksmiðjur, þar sem talið er nauðsynlegt að kanna það betur, hvaða framkvæmdir þar séu brýnastar. Og er þá fyrst og fremst hugsunin sú að gera þær verksmiðjur, sem þar eru nú, starfhæfar að fullu, þ.e.a.s. að gera á þeim þær umbætur, að eðlilegt hlutfall verði milli afkastagetu þeirra og t.d. geymslurýmis, bæði fyrir háefni og unnar vörur, en síður verði farið út í það að stækka þessar verksmiðjur beinlínis. Hins vegar er svo a-liðurinn í þessari brtt. þess efnis að veita ríkisábyrgð fyrir allt að 1/2 millj. kr. vegna tilrauna, sem síldarverksmiðjurnar í Krossanesi og á Hjalteyri hafa hugsað sér að gera á næsta sumri til þess að flytja síld af fjarlægum miðum til þessara verksmiðja. Hér er um afkastamiklar verksmiðjur að ræða, sem hafa ekki verið nýttar nema að mjög litlu leyti að undanförnu, m, a. vegna þess, að síldin hefur færzt svo austarlega á miðin, að skip hafa ekki lagt í að sigla alla þessa leið, og hafa því notin af þessum verksmiðjum orðið miklu minni en ella hefði getað orðið. Og ég held, að það hljóti að verða talið eðlilegt og skynsamlegt þjóðhagslega, áður en verður ráðizt í margar nýjar verksmiðjur, að stuðla að því, að nýttar séu sem bezt þær verksmiðjur, sem fyrir eru, og því er talið rétt að styðja þá tilraun, — þetta er fyrst og fremst tilraun, — sem hér er um að ræða, til þess að flytja síld í stórum skipum úr síldarskipunum, þar sem þau eru á veiðum fjarri verksmiðjunum. Þetta mundi spara mjög tíma fyrir síldarskipin, veiðiskipin, og ef vel tekst til, væri á þennan hátt hægt tvímælalaust að fá mjög hagkvæma niðurstöðu á það vandamál, sem jafnan hefur verið í sambandi við móttöku síldar.

5. brtt. n. er um að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán fyrir skipasmíðastöð M. Bernharðssonar h/f á Ísafirði til byggingar nýrrar dráttarbrautar. Þannig er ástatt, að þarna er skipasmíðastöð og dráttarbraut, en getur aðeins tekið upp minni fiskiskip, og það er nú engin dráttarbraut á Vestfjörðum öllum, sem getur tekið upp stærri skip en 70 lestir. Er stækkun þessarar dráttarbrautar við það miðuð, að hún geti tekið allt að 400 lesta skip, og er þá gert ráð fyrir a.m.k., að hægt verði að taka í slipp 250 tonna togskipin. Er gert ráð fyrir, að þessi dráttarbraut muni upp komin kosta um 5 millj. kr.

Þá er 6. brtt. n, um að heimila ríkisstj. að verja allt að 3.5 millj. kr. af andvirði fiskiðjuvers ríkisins til byggingarframkvæmda við rannsóknarstofnun sjávarútvegsins, sem hefur verið í smíðum nú undanfarið og er nú komin á lokastig. En þannig standa sakir með byggingu þessa, að með þeim fjárráðum, sem nú eru fyrir hendi, mundu þessar lokaframkvæmdir stöðvast að verulegu leyti, vegna þess að nú þegar hefur verið unnið fyrir 6.6 millj. kr. af lánsfé, en heildarbyggingarkostnaður til þessa hefur verið 16.4 millj., og þessi lán verður að borga nú alveg á næstunni, þannig að meginhlutinn af tekjum stofnunarinnar mundi fara til niðurgreiðslu á þessum lánum. Það er hins vegar hin brýnasta nauðsyn að koma þessari byggingu áfram, sérstaklega þannig, að rannsóknarstofurnar geti tekið til starfa. Hv. þm. öllum er vel kunnugt um, hvaða vandamál nú er sérstaklega við að glíma í sambandi við skemmdir í fiski og ýmis mistök, sem þar eiga sér stað, og það er einmitt ætlunin að hraða þessum byggingarframkvæmdum svo, að rannsóknarstofan geti sinnt þessu vandamáli miklu betur en gert hefur verið til þessa, þar sem hefur skort nauðsynlega aðstöðu til þess, og er einmitt lögð áherzla á það af hálfu Þórðar Þorbjarnarsonar, forstöðumanns þar, sem hefur sent álitsgerð um þetta mál, að ef hægt verði að fá þessa fjárveitingu og ljúka þessum byggingarframkvæmdum og útvega þau tæki, sem til þarf, muni rannsóknarstofunni verða fært að búa sig þeim tækjum og þeirri aðstöðu, að hún geti leyst af hendi það mjög mikilvæga hlutverk, sem hún þarf að sinna á þessum vettvangi. Það hefur því þótt rétt að verða við því að heimila ríkisstj. að verja 3.5 millj. kr. af andvirði eigna fiskiðjuversins til þess að sinna þessu hlutverki. Eins og menn muna, var það eitt af hlutverkum fiskiðjuvers ríkisins að verða tilraunamiðstöð um fiskverkun. Nú er það úr sögunni, og þykir þess vegna eðlilegt, að rannsóknarstofu Fiskifélagsins verði gert kleift að taka upp þetta verkefni, og það er einmitt hugsunin með þessum framkvæmdum, að hún geti leyst þann vanda af hendi.

Þá er hér loks 7. brtt, n. um það, að ríkisstj. veiti aðstoð sína samtökum í Skagafirði, til þess að þau geti tryggt sér merkilegt bókasafn, sem þar er til sölu, bókasafn, sem séra Helgi heitinn Konráðsson prófastur átti og safnaði af mikilli natni og er af fróðum mönnum talið mjög merkilegt safn. Það hefur verið mikið áhugamál hjá Skagfirðingum að tryggja sér þetta safn heima í héraði og þá helzt að það yrði lagt til Hólastaðar og það væru mynduð samtök heima í héraði nú til þess að afla fjár í þessu skyni. En þar sem svigrúm hefur ekki verið til þess að ganga frá því sem skyldi, hefur verið leitað eftir því, að ríkisvaldið veitti nokkra fyrirgreiðslu í þessu efni og veitti þá jafnframt einhvern styrk, til þess að hægt væri að komast yfir þetta safn, og er till. við það miðuð að verða við þeim tilmælum.

Þá er hér till. frá meiri hl. fjvn., — ég vil biðja hv. þm. að leiðrétta það, það er á þskj. 244, þar stendur: frá minni hl. fjvn., en á að vera meiri hl., því að stuðningur við þessa till. er frá öllum nm. að undanskildum einum, hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj), sem óskaði ekki eftir því að vera flm.till. En svo sem hv. þm. sjá, er till. þess efnis að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna allt að 400 þús. dollara lán til þess að reisa hraðfrystistöð í Hollandi. Þessari hraðfrystistöð er ætlað að þjóna því hlutverki að auka útbreiðslu á hraðfrystum fiski á meginlandi Evrópu. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna á þegar slíka stöð vestan hafs, og reynslan af þeirri stöð er talin hafa verið mjög góð og að þetta sé mjög nauðsynleg framkvæmd til þess að geta auk:ið markaði okkar fyrir hraðfrystan fisk í Vestur-Evrópu. Það er gert ráð fyrir því, að verksmiðja þessi kosti upp komin tæpar 523 þús. dollara og af þessari upphæð muni Sölumiðstöðin þurfa að fá að láni um 400 þús. dollara, sem hún er nú að leita eftir. En til þess að hún geti fengið það lán, mun vera nauðsynlegt, að hægt sé að veita á því ríkisábyrgð. Og miðað við það, að heildarkostnaður stöðvarinnar verði um 5 millj. kr. íslenzkum hærri en nemur þessum 400 þús. dollurum, þykir ekki óeðlilegt að veita ríkisábyrgð fyrir allri þeirri uphæð, en miðað við þá miklu nauðsyn, sem er á því að tryggja okkur aukna markaði, er að sjálfsögðu mikilvægt að greiða fyrir því, að úr þessum framkvæmdum geti orðið hjá Sölumiðstöðinni.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim till. við útgjaldabálk frv., sem n. öll flytur eða meiri hluti hennar. Er þá aðeins eftir ein till., sem er 1 millj. kr. hækkun á áætluðum tekjum af leyfisgjöldum, þ.e.a.s. sú tekjuáætlun verði hækkuð úr 52 millj. í 53 millj.

Niðurstöður á fjárlögum, ef samþ. yrðu till. þær, sem fjvn. öll stendur að, og jafnframt tili. meiri hl. fjvn., sem að vísu hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu heldur, en engar aðrar, og jafnframt einnig till. samvn. samgm., sem liggja hér fyrir á sérstöku þskj., 227, þá mundi hækkun útgjalda frá 2. umr. verða 11307244. Greiðsluafgangur á fjárlfrv. eftir 2. umr. var 10950932 kr., og að öðru óbreyttu mundi greiðsluhalli verða 356312 kr. En með því að hækka, eins og n. hefur hér gert, áætlaðar tekjur af leyfisgjöldum um 1 millj. kr., sem er sá eini tekjustofn, sem fært þótti að hækka, — hinir höfðu verið hækkaðir svo sem fært þótti við 2. umr. frv., — með því að hækka þennan tekjustofn um 1 millj., mundi verða 643688 kr. greiðsluafgangur eftir 3. umr.

Við 2. umr. málsins var mikið um það rætt, hvort fært þætti að hækka meir tekjuáætlunina en gert var þá. Sé ég ekki ástæðu til að orðlengja eða vekja upp aftur þær umr., nema frekara tilefni gefist til, en vil hins vegar vekja athygli á því, að við 2. umr. var eftir skilinn um 11 millj. kr. afgangur á fjárlfrv. til þess að mæta óvæntum greiðslum. Nú er þessi greiðsluafgangur horfinn, og eftir öllum horfum að dæma, sem meiri hl. n. taldi að mundu verða um tekjumöguleika ríkissjóðs á árinu 1960, þá er ekkert fé eftir skilið til þess að mæta umframgreiðslum nema sú upphæð, sem sérstaklega hefur verið tekin inn í fjárlfrv. í 19. gr. til þess að mæta óvissum útgjöldum, og önnur upphæð, sem tekin hefur verið þar einnig, um 5 millj. kr., til þess að mæta sérstökum útgjöldum vegna 22. og 23. gr., sem hefur ekki áður verið áætlað fyrir í fjárlögunum sjálfum.

Sakirnar standa því þannig, að miðað við það, að innflutningur fari ekki fram úr því, sem gert er ráð fyrir í sambandi við greiðslujafnaðaráætlunina að hann geti mestur orðið á árinu 1960, þá er ekki upp á neitt að hlaupa til þess að mæta umframgreiðslum. — Því hefur verið haldið fram hér, að innflutningur mundi hljóta að verða mun meiri. Um þetta er ekki gott að segja. Það eitt er hægt að vita nokkurn veginn á þessu stigi, hvaða gjaldeyrismöguleika við höfum. Ef svo fer, að hægt verði að öllu leyti að halda sér innan þeirra marka, sem að er stefnt, að ekki komi til viðskiptahalla við útlönd á þessu ári, þá eru möguleikarnir ekki meiri. Hvort svo kann að fara, að einhver yfirdráttur verði einnig á þessu ári vegna aukins verzlunarfrelsis og að ekki hefði jafnað sig eftirspurnin eftir vörum seinni hluta ársins, það er erfitt um að segja. En ég endurtek það, sem ég sagði við 2. umr. málsins, að það væri vitanlega hið mesta glapræði að ætla að fara að miða útgjöld ríkissjóðs við það, að tekjur kynnu að fara eitthvað fram úr áætlun af þessum ástæðum, því að þar væri þá aðeins um bráðabirgðaástand að ræða, sem ekki gæti orðið nema á þessu ári, ef til kæmi, ef við reiknuðum með að öðru leyti, að þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar til þess að koma viðskiptum og fjármálum þjóðarinnar á réttan kjöl, takist.

Það verður því, miðað við það sem vitað er um í dag, að telja, að með þeirri afgreiðslu, sem nú er á fjárlfrv., sé stefnt á mjög tæpt vað varðandi möguleika á því, að afkoma ríkissjóðs geti raunverulega orðið greiðsluhallalaus á þessu fjárhagsári.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið á þessu stigi. Ég hef gert hér grein fyrir brtt. þeim, sem n. öll flytur og meiri hl. hennar, og vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að fjárlagafrv. verði samþ. með þessum breytingum.