28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að gera grein fyrir aðild okkar fulltrúa Framsfl. að till. þeim, sem hv. formaður fjvn. lýsti hér áðan.

Eins og við 2. umr. fjárl. flytur n. sameiginlega meginhlutann af þeim till., sem fluttar eru. Við tókum fram við afgreiðslu á þeim till., sem eru sameiginlegar frá n. nú við 3. umr., að við hefðum sama fyrirvara og við 2. umr., en þó mun það vera svo, að við munum styðja þær flestallar. Hins vegar áskildum við okkur rétt til þess að styðja brtt., sem fram kynnu að koma, eða leggja fram brtt.

Um þessar till., sem þarna eru á ferðinni, hef ég lítið eitt að segja til viðbótar því, sem form. greindi hér áðan, en ég vil geta þess í sambandi við till, um Akraneshöfnina, að út af fyrir sig er ég ánægður með þá niðurstöðu, sem þar hefur fengizt. Við 2. umr. fjárl. lýsti ég því, hvaða vandræði hefðu skapazt hjá höfninni, og hefur það mál síðar verið rætt í hópi okkar þm. Vesturlands. Niðurstaðan, sem hefur svo orðið, er sú, að fjvn. flytur nú á þskj. 241 till. um að hækka framlag til hafnarbótasjóðs um 11/2 millj. vegna Akraneshafnar. Með sömu fjárveitingu á fjárl. nú og í fyrra og sama framlagi hafnarbótasjóðs sem þá var, 300 þús. kr., þá svarar það til þess, að framlögin í heild bæti það skakkafall, sem höfnin verður fyrir á þessu ári vegna gengisfallsins. Það er út af fyrir sig nokkur lausn á þessu máli, þó að það sé ekki fullkomið, og munum við ekki flytja frekari till. í sambandi við það mál.

Þá hefur fjvn. nú tekið upp till. okkar um framlag til kirkjubyggingasjóðs. Er það að vísu aðeins lægri upphæð en við fulltrúar Framsfl. lögðum til við 2. umr. fjárl., en það sama er hér að segja, að við munum ekki gera frekari till. og sætta okkur við það, sem orðið er, og teljum þessa úrlausn viðunandi, þó að upphæðin sé lítið eitt lægri en við fórum fram á.

Þá hefur fjvn. einnig tekið upp aukið framlag til vatnsveitna, en við tókum till. okkar um það aftur við 2. umr. fjárlaga. Að vísu fórum við fram á mun hærri fjárveitingu til vatnsveitnanna en hér er lagt til, en okkur er ljóst, að þó að farið væri að flytja frekari till. nú, er lítil von til þess, að hún næði fram að ganga, svo að við munum ekki flytja brtt. um þessa fjárveitingu.

Upp hefur verið tekinn nýr liður vegna útfluttra landbúnaðarafurða. Um þann lið er það að segja, að okkur er ekki kunnugt um, hvort þessi fjárveiting muni nægja til þess að standa straum af því ákvæði framleiðsluráðslaganna, er um útflutninginn fjallar. Eftir því sem ég þó bezt veit, mun hafa verið áætlað, að þessi fjárþörf væri 13 millj. kr., og samkvæmt þessu er þá gert ráð fyrir því, að útflutningssjóður annist greiðslu á 8 millj. af þessari áætluðu tölu. En hér er um áætlun að ræða, og er þess vegna á þessu stigi málsins ekki hægt að gera breytingu á því. Hins vegar er vitað, að ríkisstj. er bundin við að greiða það, sem þörf er á, í sambandi við útflutninginn.

Við flytjum á sérstöku þskj., framsóknarmenn í fjvn., aðeins tvær till.

Er það í fyrsta lagi að hækka tekjuhlið fjárl. um 11 millj. kr., og gert er ráð fyrir, að sú hækkun verði á söluskattinum. Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till., er sú, að einstakir þm. flokksins tóku aftur til 3. umr. till., sem þeir fluttu þá, og munu endurflytja nú og er þessi till. miðuð við það að mæta þeim útgjöldum, sem skapast, ef þeirra till. eru samþykktar.

Í öðru lagi er það, að við flytjum till. um að taka upp nýjan lið, sem er vegna ræktunarsambandanna, til að kaupa jarðræktarvélar, og sá liður sé 2 millj. kr. Við fluttum hér við 2. umr. till. um, að þetta yrðu 3 millj., en sú till. var felld. Það var von okkar, að hæstv. ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að þessi liður yrði tekinn inn á fjárl. ársins 1960. Meðmæli hæstv. landbrh. voru með þessari till. til fjvn., þegar óskað var eftir því, að hún tæki hana upp. Eftir því sem við höfum kynnt okkur, munu nú liggja fyrir beiðnir um að fá innfluttar 14 jarðræktarvélar á yfirstandandi ári. Að vísu má gera ráð fyrir því, að nokkur ræktunarsambönd kippi að sér hendinni um innflutning á þessu ári vegna þeirra geysilegu verðhækkana, sem hafa orðið á vélunum, en það er með öllu óhugsandi, að þessi styrkur geti fallið niður eða innflutningurinn með öllu fallið niður. Mér er kunnugt um það úr minni heimabyggð, að þar er ástandið þannig, að þessi starfsemi, jarðræktarstarfsemin, leggst að meira eða minni leyti niður, ef ekki koma til nýjar jarðræktarvélar. Það er því alveg óhugsandi þrátt fyrir þær aðgerðir, sem hafa verið gerðar í efnahagsmálunum, að fella niður með öllu styrk til að kaupa nýjar jarðræktarvélar, auk þess sem veittur hefur verið styrkur á tæki, sem þessar vélar hafa notað, eins og herfl og plóga, og ætti þá með öllu að falla niður allur slíkur innflutningur árið 1960. Ég hef ekki trú á því, að hæstv. ríkisstj. geri ráð fyrir því, að þetta geti orðið. Þess vegna var það von okkar, að hún mundi beita sér fyrir að taka þessar till. upp, en fyrst svo er ekki, gerum við till. um, að teknar verði 2 millj. kr. í þessu skyni, og það er trú okkar, að það geti ekki farið hjá því, að hv. þm. fallist á þau rök okkar, að það sé óhugsandi, að ofan á verðhækkanirnar, sem orðnar eru, verði styrkurinn felldur niður. Það er alveg óhugsandi að láta sér detta það í hug, að þannig sé hægt að framkvæma þetta. Það er ekki heldur hægt að trúa því, að meiri hl. hv. þm. sé kominn á þá skoðun, að ræktunarstarfsemi í landinu eigi að falla niður. Þess vegna er það trú okkar, að þessi till. nái fram að ganga, og ég skora á hv. þm. að endurskoða afstöðu sína til þessa máls, því að hér er á ferðinni mál, sem ekki er hægt að hunza eins og hér á að gera, og er óhugsandi, að hv. þm. geti greitt atkv. gegn þessu að athuguðu máli.

Fleiri till. munum við fulltrúar Framsfl. í fjvn. ekki bera fram að þessu sinni. Við afgreiðslu á fjárl. við 2. umr. var í raun og veru gert upp á milli þeirrar stefnu, sem ræður ferðinni um afgreiðslu fjárlaga, og okkar. Við lögðum fram till., sem miðuðu að því, að uppbyggingin í landinu og framlag til atvinnuvega yrði með svipuðum hætti og verið hefur á fjárl, undanfarinna ára. Hins vegar var stefna hæstv. ríkisstj. á annan veg, hún var niðurskurðarstefna, og þess vegna náðu þessar till. ekki fram að ganga. Við munum því ekki fara að þreyta hér kappræður né atkvgr. um þessa höfuðstefnu aftur, það er liðið hjá.

Um það fjárlfrv., sem hér liggur fyrir til 3. umr., er annars það að segja: Við sýndum fram á það við 2. umr., að tekjuáætlun fjárl. væri gerð óraunhæf, þar sem hún væri mun lægri en reynzt hefði 1958 af sama innflutningi, og ef þetta er athugað nánar, kemur það í ljós, að þessi fjárhæð er á þriðja hundrað millj. kr., og ég held því fram, að það sé ekkert sérstætt eða óvenjulegt, sem gerist, þó að innflutningur á árinu 1960 verði svipaður og var 1958. Það er ekki hægt að halda því fram, að það séu sérstök atvik, sem þar eru til staðar, eins og fram kom hjá hv. formanni fjvn., þótt það gerist. Hins vegar er þessi tekjuáætlun miðuð við verulegan greiðsluafgang, sem er einn liður hjá hæstv. ríkisstj. í þeirri kyrrstöðu- og samdráttarstefnu, sem hún beitir sér fyrir.

Þá er það að segja um frv. um tekjuskattinn, að okkur fjvn.-mönnum Framsfl. er með öllu ókunnugt um, hvernig það frv. verður úr garði gert, það hefur ekki sézt hér á hv. Alþ., svo að það er ekki hægt að vita, hvort áætlun á tekjuskatti er miðuð við það.

Ef við lítum á þróun fjárl. nú um nokkurt skeið, þá er augljóst, að þessi fjárl., sem hér eru á ferðinni nú, eru þau hæstu, sem nokkurn tíma hafa sézt hér á hv. Alþ. Miðað við rekstarútgjöld ársins 1959, hækka fjárl., — miðað við það, að till. meiri hl. verði samþ., — um 437 millj. kr., eða um 46%. Heildarniðurstöðutölurnar hækka um 480 millj. kr. út og inn á fjárlögunum. Hér er geysileg hækkun á ferðinni. Og til þess að vera nú sanngjarn við hæstv. ríkisstj., hef ég líka sett þessa mynd upp þannig að bæta við niðurstöðu fjárl. 1959 öllum greiðslum, sem fóru til niðurgreiðslna í gegnum útflutningssjóð, eða þeim 112.9 millj., sem eru umfram það, sem var á fjárl. 1959. Þegar það er gert, er hækkun á fjárl. 324.3 millj. kr., eða 34–35%. Hér er þá búið að taka það verkefni, sem ríkissjóður tekur nú við af útflutningssjóði. Þetta er því heildarmyndin í samanburði á fjárl. s.l. ár og þeim, sem nú eru á ferðinni.

Það er því ástæða til að spyrja: Hver er ástæðan fyrir þeirri hækkun, sem á sér stað á fjárl.? Er það þörf atvinnuveganna og uppbyggingin í landinu, sem krefst þessarar hækkunar, og er það vegna þeirra, sem þetta er gert? Ég hef tekið hér samanburð á fjárlögum frá og með árinu 1950 og þeim fjárlögum, sem nú á að fara að afgreiða, og þá hef ég tekið saman það, sem varið er til verklegra framkvæmda, en þar á ég við til samgangna á landi, til hafna, til skóla, enn fremur raforkumála og framlag til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda á 20. gr. Þetta 11 ára tímabil sýnir það, að á árunum 1950–58, að báðum meðtöldum, hefur um 28.5% af heildarútgjöldum fjárlaganna verið varið í þessu skyni. Þetta hefur orðið mest um 31.8% og svo niður í tæplega 27% , en flest árin hefur þetta verið mjög svipað. En árið 1959 verður veruleg breyting á þessu, því að þá lækkar þetta niður í kringum. 21% , og á því fjárlagafrv., sem nú á að fara að samþykkja sem fjárlög íslenzka ríkisins fyrir árið 1960, er þetta komið niður í 19.7%. Þessi þróun er að minni hyggju uggvænleg, og mér finnst, að um þetta megi segja það, sem hæstv. núv. sjútvmrh, sagði haustið 1958 um fjárlögin í heild, að það væri uggvænlegt og stefndi í fullkomið óefni.

Við fjárlagaafgreiðsluna 1959 bentum við framsóknarmenn á það, að sú stefna, sem þá var tekin upp, væri ekki stefna, sem þjóðin ætti að fara í fjármálum. Á því ári voru niðurgreiðslur meira en tvöfaldaðar og dregið verulega úr framkvæmdafénu og stuðningi við atvinnuvegina, svo sem ég hef hér sýnt fram á. Nú er svo komið, að áætlað er í fjárlfrv. 1960, að til niðurgreiðslna verði varið 302 millj. kr. Sundurliðun á niðurgreiðslu, eins og hún var áætluð 1959, hef ég hér hjá mér. Þar er m.a. gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur vegna sjúkrasamlagsgjalda nemi um 15.6 millj. kr. miðað við 10 mánaða tímabil, eða um 18 millj. kr. miðað við heilt ár. Þessar niðurgreiðslur voru þó ekki nema um 150 kr. fyrir hvern mann á landinu, er sjúkrasamlagsgjöld greiðir. En það kostaði ríkið í heild yfir 18 millj. kr., ef miðað er við heilt ár. Þetta dæmi sýnir, að þessi stefna er ekki sú stefna, sem íslenzka þjóðin á að fara. Ég er sannfærður um, að það er meira virði fyrir íslenzku þjóðina að nota þessar 18 millj. kr. til þess að byggja upp í sínu landi, þar sem svo margt er ógert eins og hjá okkur, heldur en að spara einstaklingnum 150 kr.

En því miður er áfram haldið á þeirri braut, sem mörkuð var við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra. Og nú er sporið stigið enn þá stærra, þar sem niðurgreiðslurnar eru nú komnar yfir 300 millj. kr., og í beinu sambandi við þetta má einnig telja þann lið, breytingar á tryggingalöggjöfinni, er snýr að fjölskyldubótum, þar sem ætlazt er til að gefa með 1. og 2. barni. Fjárhæð til þeirra framkvæmda er áætluð um 98 millj. kr. Þetta er gert á sama tíma sem er verið að draga úr stuðningi við atvinnuvegina og draga úr uppbyggingunni í landinu.

Það er mín skoðun, að þetta land sé nógu gott og afkoma atvinnuveganna sé einnig nógu góð til þess, að fullvinnandi hjón geti séð fyrir sínu fyrsta barni. Og ég álít, að það sé skökk stefna í fjármálum, þar sem gert er ráð fyrir því, að það sé orðið ónormalt, að hjón á bezta aldri sjái fyrir einu barni, eins og nú er ætlazt til. Þess vegna er það hyggilegri stefna og betri fjármálastefna að draga úr álögunum, sem nú hafa verið lagðar á þjóðina, til þess að afkoma fólksins sé með eðlilegum hætti og það geti sinnt því verkefni, sem hverjum heilbrigðum þegn í þjóðfélaginu er ætlað að sinna, að endurnýja sjálfa sig. En hæstv. ríkisstj. er ekki á þessari skoðun. Hún hefur búið svo að þegnum þessa þjóðfélags, að tryggingar þurfa að koma til, ef hjón eiga eitt barn. Nýja stefnan í efnahagskerfinu leyfir ekki, að þannig sé að þegnunum búið, að hægt sé að sjá sæmilega fyrir sér og sínum, ef einn nýr fjölskyldumeðlimur bætist þar við.

Sú mynd, sem blasir við við fjárlagaafgreiðsluna að þessu sinni, er þessi: Nýja efnahagskerfið, sem kemur í kjölfar stöðvunarstefnunnar, sem hefur verið lýst hér í fjárlagaumræðunum að hafi verið blekkingarstefna, skapar hærri fjárlög en nokkru sinni hafa sézt hér, meiri álögur á almenning en nokkru sinni fyrr, minni uppbyggingu en fyrr, rýrari lífskjör, meiri verðbólgu og meiri óvissu um útlitið í efnahagsmálum þjóðarinnar en nokkru sinni áður. Þetta er það viðhorf, sem blasir við við afgreiðslu fjárlaganna nú.

Við 2. umr. fjárl. um daginn sagði m.a. hv. 1. þm. Vestf., að allar aðgerðir í efnahagsmálum rynnu út í sandinn, ef þær stefndu ekki að því að auka framleiðsluna og þar af leiðandi uppbygginguna í landinu. Stefna hæstv. ríkisstj. miðar að samdrætti, hún miðar að minni framleiðslu og minni uppbyggingu. En íslenzku þjóðinni hefur tekizt að ráða svo málum sínum, að henni hefur tekizt að komast veginn frá fátækt til bjargálna. Og það er trú mín og von, að hún hafi enn þá þann þrótt að geyma, að henni takist að halda áfram á framfarabraut, en láti ekki skammsýni kyrrstöðumanna tefja þá för sína.