28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

42. mál, fjárlög 1960

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. (GH) og ég höfum leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 245 við 13. gr. fjárlfrv. Hún er II. till. á þskj. og hljóðar um það, að í staðinn fyrir 800 þús. kr. til endurbyggingar þjóðvega komi 1 millj. og 500 þús. Þetta mál hefur áður verið rætt hér á þinginu, svo að ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara um það mörgum orðum, en vil þó aðeins segja það, að það er kunnugt, að hinir elztu þjóðvegir eru farnir mjög að síga í jörðina og eru sums staðar orðnir lægri en yfirborð jarðar meðfram beim. Þetta veldur því t.d., að vegirnir losna ekki við rigningarvatn og leysingarvatn, sem á þá kemur, og vaðast þess vegna út undan hinum þungu farartækjum, sem um þá þurfa að ferðast. Þá verða þessir vegir ófærir, strax og eitthvað snjóar. Þar veldur mestu um, hvað þeir eru orðnir lágir og jörðin hærri í kringum þá. Það veldur hins vegar gífurlegum kostnaði við snjómoksturinn, sem þó kemur aldrei að fullu gagni fyrir umferðina og getur aldrei tryggt samgöngurnar eins vel og ef vegirnir væru hærri, því að þá standa þeir lengur upp úr snjónum.

Við flm. till. teljum, að endurbygging gamalla þjóðvega sé nú eitt af hinum brýnustu verkefnum í samgöngumálum hér á landi. Með þeirri breytingu, sem nú hefur verið gerð á gengisskráningunni, minnkar að mun það, sem hægt verður að gera fyrir þær fjárveitingar, sem verið hafa til þessara mála og ætlaðar eru á fjárlfrv.

Við væntum þess, að hv. alþm. hafi skilning á þessu máli og muni styðja till. okkar, þar sem henni er mjög í hóf stillt.