28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

42. mál, fjárlög 1960

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja á óprentuðu bskj. brtt. um, að 80 þús. kr., sem samkv. 13. gr., IX. tölul., er ætlað til umbóta við Geysi, verði varið til fegrunar í Hveragerði. Hér er ekki um stórvægilega breyt. að ræða, heldur aðeins tilfærslu til samræmis við breyttar aðstæður.

Hv. alþm. er sjálfsagt um það kunnugt, að Geysir er fyrir nokkru að mestu hættur að gjósa og því alls ekki lengur það aðdráttarafl ferðafólki, sem hann áður var. Hins vegar gegnir Hveragerði og borholur þar því hlutverki, sem Geysir gegndi áður. Nær allir erlendir ferðamenn, sem heimsækja Ísland, koma til þessa þorps, og einatt fara þangað stórir hópar erlendra ferðamanna af skemmtiferðaskipum, sem aðeins koma til þessa eina staðar á landinu utan Reykjavíkur. Er af þessu ljóst, að hugmyndir fjölmargra erlendra gesta um Ísland mótast af því umhverfi, sem þar ber fyrir augu. En það er ekki aðeins, að þangað komi erlendir gestir, heldur einnig þúsundir landsmanna til að leita sér lækningar og hressingar. Af bessum geysilega ferðamannastraumi hefur sveitarfélagið í Hveragerði engar beinar tekjur, heldur mikil útgjöld vegna vegaviðhalds og annars tilkostnaðar, og er þó öllum ljóst, sem kunnugir eru staðháttum þar, að nú er algerlega óhjákvæmilegt að gera á þessum stað miklar umbætur til fegrunar og prýði. til þess að fullnægt sé þeim lágmarkskröfum, sem gera verður til staðar, sem erlendum gestum er sérstaklega boðið til. Umbætur þarna eru sérstaklega aðkallandi einmitt nú, vegna þess að fyrirsjáanlegt er, m.a. vegna efnahagsmálaráðstafana núv. ríkisstj., að heimsóknir erlendra gesta muni stóraukast strax á komandi sumri.

Ég ætla, að hv. alþm. séu mér sammála um, að það sé til of mikils ætlazt, að fátækt sveitarfélag taki á sínar herðar verulegar byrðar til landkynningarstarfs, eins og hér er um að ræða, án þess að fá nokkuð í aðra hönd, því að tekjur vegna komu erlendra ferðamanna til Íslands koma til góða þjóðarbúinu í heild. Hreppsnefnd Hveragerðishrepps leitaði fyrir nokkru til hæstv. samgmrh., sem hefur yfirumsjón ferðamála og landkynningar, og óskaði eftir nokkurri fjárhagslegri aðstoð hins opinbera til þess að inna þetta hlutverk af höndum. Það vekur mér nokkra furðu, að hv. fjvn. hefur ekki talið sér fært að verða við beiðni um 100 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, sem hreppsnefnd Hveragerðis mun hafa farið fram á. Það er auðvitað ekki vænlegt í öllu okkar tali um Ísland sem ferðamannaland að láta það nægja að ræða um fagra fjallasýn, heilnæmt útiloft og tilkomumikla goshveri, ef ferðamenn, sem koma til þeirra staða hér á landi, sem þeim er helzt boðið upp á að sjá, geta bar ekki stigið út úr fólksbifreiðum í þurrki vegna moldryks og í votviðri vegna aurbleytu.

Ég legg til, að þeim peningum, sem ætlað er að verja til umbóta við Geysi, sé varið til umbóta og fegrunar vegna komu erlendra manna í Hveragerði. Og ég vænti þess, að hv. alþm. telji sér fært að samþ. þessa till., vegna þess að hér er um að ræða nánast aðeins tilfærslu vegna breyttra aðstæðna.