28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

42. mál, fjárlög 1960

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er 1. flm. að tveimur brtt. á þskj. 246, en það skjal var nú verið að leggja fram á fundinum. Báðar eru þær við 13. gr. frv.

Það er fyrst IV. till. á því þskj. Hún er um það, að fjárveiting til Vatnsnesvegar verði hækkuð úr 160 þús. í 220 þús. Eins og frv. er nú úr garði gert eftir 2, umr., eru fjárveitingar á 13. gr. til nýbyggingar þjóðvega svo að segja þær sömu í krónutölu og næstliðið ár, og liggur því í augum uppi, að framkvæmdir verða allmiklu minni, ef ekki verða gerðar á þessu breytingar, þar sem vegagerðarkostnaðurinn hefur hækkað mikið vegna þeirra ráðstafana, sem nýlega hafa verið gerðar í efnahagsmálum.

Ég vil geta þess um þessa brtt. okkar viðkomandi Vatnsnesvegi, að það er sérstök þörf á því að Flýta þeirri vegagerð nú, vegna þess að það þarf að greiða fyrir mjólkurflutningum úr héraðinu að nýbyggðu mjólkurbúi á Hvammstanga, sem tók til starfa á miðju ári 1959. Það er nokkur kafli nyrzt á Vatnsnesi, sem eftir er að gera veg um, og er þess einmitt þörf vegna mjólkurflutninganna að flýta því verki meir en verða mundi að óbreyttri fjárveitingu.

Hin till. frá okkur sömu 4 þm. er sú VIII. á þessu sama þskj. Hún er um það, að veitt verði fé til brúargerðar á Víðidalsá á Kolugljúfri, fyrri greiðsla, 400 þús. kr. Þessa brú þarf að byggja til þess að bæta úr samgönguörðugleikum bæja innst í Víðidal. Áin er oft mjög ill yfirferðar og torveldar þeim mönnum, sem þar búa, að koma frá sér afurðum, t.d. mjólkinni. Það er áætlað af vegamálaskrifstofunni, að þessi brú kosti nú eftir þá hækkun, sem nýlega er orðin, um 750 þús. kr., og í till. er gert ráð fyrir því, að rúmlega helmingur þeirrar upphæðar, eða 400 þús., verði lagður fram á þessu ári, þ.e.a.s. tekinn á fjárlög og þá væntanlega geymdur til næsta árs, en þá ætti að mega vænta þess, að eftirstöðvarnar fengjust, þannig að hægt væri á næsta ári að byggja brúna. Teljum við heppilegra að skipta fjárveitingunni þannig, að hún komi á tvö ár.

Þá hef ég borið fram enn eina brtt. við frv., en henni hefur ekki verið útbýtt enn, er sennilega á þskj. 247, sem hæstv. forseti lýsti áðan að væri væntanlegt, en því hefur ekki enn verið útbýtt. Ég vil þó gera grein fyrir þessari till., þó að hún hafi ekki enn komið fyrir augu hv. þm. Þessi brtt. er við 3. gr. frv., og það er nú þannig með hana, að þar er ekki farið fram á nein gjöld úr ríkissjóði, heldur hið gagnstæða. Ef samþ. yrði, mætti gera ráð fyrir, að hún hefði í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð, og hygg ég, að hæstv. fjmrh, líki allvel slíkt að heyra.

Till. mín er um það, að aftan við liðinn Áfengisverzlun ríkisins í 3. gr. frv. komi svo hljóðandi athugasemd: „Enginn viðskiptamaður má njóta sérréttinda hjá verzluninni, hvorki um verðlag á áfengi né annað, nema ákveðin séu í lögum.“ — Ég flyt einnig till. um sama efni varðandi Tóbakseinkasölu ríkisins, við þann lið komi einnig athugasemd um það, að enginn viðskiptamaður þeirrar verzlunar megi njóta þar sérréttinda um verðlag á tóbaki eða annað, nema ákveðið sé í lögum.

Það hefur lengi viðgengizt sá ósiður, að nokkrir háttsettir valdamenn í þjóðfélaginu hafa fengið vörur frá þessum ríkisverzlunum með ákaflega lágu verði. Mun vera þannig, að þeir fá áfengi og tóbak álagningarlaust, og ég held að fullyrða megi einnig án tollgreiðslu. Liggur það þá í augum uppi, að það verð, sem þeir greiða fyrir þessar vörur, er ekki nema litið brot af því útsöluverði, sem aðrir viðskiptamenn þurfa að borga.

Það hefur nokkrum sinnum verið rætt um þetta mál áður hér á þingi, þó ekki alveg nýlega. Í umr. um það hefur því verið haldið fram af þeim, sem vilja ekki gera breytingu á þessu, að ýmsir forstöðumenn ríkis og ríkisstofnana þyrftu að halda uppi risnu í nafni þess opinbera, og því væri þetta eðlilegt. Þessi rök eru ákaflega léttvæg. Að vísu er það svo, að það eru haldnar veizlur stundum á kostnað ríkisins, en þá er það eðlilegast, að þau veizluföng, sem dregin eru að þeim mannfagnaði frá ríkisverzlunum, séu greidd með hinu almenna og venjulega söluverði frá þessum verzlunum. Útkoman verður sú sama fyrir ríkið, þegar á allt er lítið, vegna þess að ríkið hefur hagnaðinn af tóbakseinkasölunni og áfengisverzluninni, og kemur þá aukinn ágóði hjá verzlunum á móti hækkuðum útgjöldum vegna risnu. Það er miklu eðlilegra að hafa þetta með þeim hætti, en enginn skaði fyrir það opinbera.

En það, sem gerir þessa aðferð, sem viðhöfð hefur verið, athugaverða, aðfinnsluverða og óviðeigandi, er, að það er kunnugt mál, að ýmsir þeir menn, sem hafa notið þessara fríðinda, hafa tekið þessar vörur hjá ríkisverzlunum með þessu lága verði til eigin nota, til nota fyrir sjálfa sig, sína eigin gesti og sína kunningja. Það er vitað mál, að þannig hefur þetta verið. Og þetta er ákaflega óviðeigandi.

Eins og ég sagði, hefur þetta mál nokkrum sinnum verið rætt hér á Alþingi, og það hafa nokkrum sinnum verið gerðar tilraunir til þess að fá þennan ósið af lagðan. Ég vil aðeins með fáum orðum rifja það upp.

Það var árið 1946, sem ég bar fram till. til þál. á þskj. 119 um það að fela ríkisstj. að hlutast til um, að áfengir drykkir verði ekki veittir á kostnað ríkisins eða ríkisstofnana og að afnumin yrði sú venja, er gilt hafði, að einstakir menn fái keypt áfengi hjá Áfengisverzlun. ríkisins fyrir lægra verð en aðrir viðskiptarnenn verzlunarinnar þurfa að borga. Till. þessari var vísað til n., en hún hlaut ekki afgreiðslu.

Á næsta þingi, árið 1947, var málið enn tekið upp. Þá bárum við 6 þm. úr öllum þingflokkum fram þannig orðaða tillögu, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að afnema þau sérréttindi, sem nokkrir viðskiptamenn Áfengisverzlunar ríkisins njóta nú, að fá þar keypt vínföng fyrir lægra verð en aðrir kaupendur þurfa að borga fyrir þá vöru.“

Till. fór til allshn. Einn nm. skilaði minnihlutaáliti og mælti með till., en meiri hl. skilaði ekki áliti, og málið hlaut ekki afgreiðslu.

Á þessu þingi, 1947, gerðist það einnig, að borin var fram fsp. varðandi þetta mál. Það var þáv, hv. þm. S.Þ., Jónas Jónsson, sem spurðist fyrir um það, hvaða menn það væru, sem nytu þeirra fríðinda að fá áfengi fyrir svona ákaflega lítið verð. Þessari fsp. var svarað í Sþ. 22. nóv. það ár af þáv. hæstv. fjmrh., Jóhanni Jósefssyni. Hann gaf þær upplýsingar, að þeir, sem nytu þessara hlunninda væru forseti Íslands, stjórnarráð Íslands samkvæmt fyrirlagi einhvers af ráðherrunum, Alþingi samkv. fyrirlagi forseta sameinaðs þings, ráðherrar, allir forsetar Alþingis og forstjóri Áfengisverzlunar ríkisins. Nú er mér ekki kunnugt um það, hvort einhverjir kunna að hafa bætzt við í þennan hóp síðan. En ég var að segja frá árinu 1947.

Árið 1948 fluttum við enn 7 þm., einnig úr öllum flokkum, till. eins og árið áður um þetta efni, samhljóða þeirri, sem flutt var árið áður. Þá fór till. til fjvn., og meiri hl. n., 5 af 9, gaf út nál. og mælti með samþykkt till. Minni hl., 3 nm., gaf út álit og lagði til, að málinu yrði vísað til ríkisstj., en einn nm. tók ekki afstöðu til málsins. Málið var einu sinni tekið á dagskrá Sþ., eftir að nál. var komið fram, en þá tekið út af dagskránni og ekki sett á dagskrá aftur.

Það lá þannig fyrir, að það gekk afar illa að fá þetta mál undir atkv. í þingi, og því var það, að við 5 þm. bárum fram á sama þingi brtt. um þetta við fjárl., og hún var nákvæmlega eins orðuð og sú till., sem ég

leyfi mér að leggja hér fram, var um það, að það kæmi athugasemd við þennan lið eða þessa liði báða í fjárlagafrv. um það, að engir viðskiptamenn mættu þar njóta sérréttinda, hvorki um verðlag á vöru né annað, nema ákveðin væru í lögum. Við atkvgr. um þetta á því þingi fór svo, að till. voru felldar með aðeins eins atkv. mun, 24 á móti 23.

Hér munaði litlu, og því þótti okkur rétt að taka málið upp aftur á næsta þingi, 1949, og fluttum þá — þá vorum við 8, sem bárum fram till.þáltill. eins og áður um þetta mál. Hún fór til fjvn., og nú gerðist það, að 8 af 9 nm. skiluðu áliti og lögðu til, að till. yrði samþ. óbreytt. Það var aðeins einn af 9 nm. í fjvn., sem lagði til, að málinu yrði vísað til ríkisstj. En það fór eins og fyrri daginn, að till. var tekin á dagskrá aðeins einu sinni, eftir að nál. var komið fram, en tekin út af dagskránni á þeim fundi, og sást þar ekki framar.

Enn var gerð tilraun og nú árið 1951, þegar afgreidd voru fjárlög fyrir 1952. Þá fluttum við 7 þm, brtt. við fjárlagafrv., samhljóða þeirri, sem ég er nú með og áður hafði verið flutt, því að reynslan hafði sýnt, að það var ákaflega erfitt, þó að menn bæru fram sérstakar till. til þál. um þetta, að fá þær hér bornar undir atkv. En þá munaði meira við atkvgr. Þá var till. felld með 27 atkv. gegn 17.

Málið féll niður í bili, en þegar núgildandi áfengislög voru sett á þinginu 1954, tímanlega á því ári, var í sambandi við þau lög borin fram till. um þetta efni, en náði ekki heldur samþykki.

Mér hefur þótt rétt að taka þetta mál upp aftur nú. Mér vannst ekki tími til að leita meðflm. úr öðrum flokkum og vænti, að það komi ekki að sök. Slík mál eru ekki flokksmál og hafa aldrei verið, og ég vænti þess, að þó að ég sé aðeins einn flm. að þessari till., þá fylgi henni allir þeir, sem þannig eru sinnaðir, að þeir telji rétt að afnema þessi óeðlilegu sérréttindi. En ég tek till. upp núna vegna þess, að síðan málið var síðast til meðferðar á þingi fyrir um það bil 6 árum, hefur orðið mjög mikil breyting á skipun þingsins. Ég held, að það sé rétt, að það séu fast að því 30 menn nú hér á hæstv. Alþ., sem áttu ekki þar sæti síðast, þegar þetta mál var til meðferðar.

Það er öllum kunnugt, að vörur hækka mjög í verði um þessar mundir. Menn þurfa að borga meira fyrir allt, sem þeir þurfa að kaupa. Áfengi og tóbak hefur nýlega verið hækkað í verði, a.m.k. áfengið, — ég man nú ekki fyrir víst um tóbakið, en það kemur þá auðvitað líka, ef það er ekki þegar fram komið. Út af fyrir sig er ég ekki að finna að því, að þær vörur hækki eitthvað í verði, því að það er varningur, sem menn ættu að sneiða hjá að kaupa. En á tímum þessara miklu verðhækkana, ekki síður en áður, er það náttúrlega ákaflega óeðlilegt og óviðeigandi, að einstakir menn í þjóðfélaginu geti gengið inn í þessar ríkisverzlanir og tekið þar vörur til eigin nota fyrir aðeins örlítið brot af því almenna útsöluverði á vörunum, sem allir aðrir þurfa að sæta. Ég vildi því vænta þess, að þessari leiðréttingu verði vel tekið hér á hæstv. Alþingi.