28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja hér nokkur orð út af till. hv. 9. landsk. (JÞ) í sambandi við 18. gr. fjárl. Það þykir einstaklega vinsælt verk að hafa þá gr. nokkuð til umr. og benda á þá galla, sem á henni eru. Mér er það fullkomlega ljóst, að hún er, eins og önnur mannanna verk, ekki gallalaus og það eru á henni ýmsar fjárveitingar, sem eru lítt þarfar og óeðlilega háar. Til hins mundi ég verða síðastur maður, þó að það kannske kostaði mig einhverjar minnkandi vinsældir, að greiða atkv. með því að fella þá gr. niður. Flestallt það fólk, sem þarna er, hefur unnið í þágu ríkisins um langt skeið. Ég þekki nokkuð til þess, að þetta fólk hefur unnið fyrir mjög lág laun, meðan það var í þjónustu ríkisins, og þegar það stendur uppi eftir margra áratuga þjónustu, þá eru eignir þess hverfandi litlar. Það litla, sem það hefur e.t.v. átt í peningum eða innstæðum á bankabók, hefur svo verðbólgan verðfellt ár frá ári, og það mun ekki draga langt þessu fólki. Það færi vel á því — eða hitt þó heldur — hér á hv. Alþ., sem Leggur á almenning í landinu hærri álögur en nokkru sinni fyrr, ef það mætti nú þessum fyrrv. ríkisstarfsmönnum með slíkum myndarskap að fella niður þá litlu fjárhæð, sem þetta fólk hefur haft á 18. gr. fjárlaga.

Það er skoðun mín, þó að ég ætli ekki að fara út í það mál hér, að íslenzka ríkið megi gæta að sér um það, hvernig það býr að starfsmönnum sínum. Það mun sannast, að það mun reynast því, eins og öðrum húsbændum hér á landi, hollt að búa svo að starfsfólki sínu, að það hafi áhuga á að starfa hjá því og leggi fram krafta sína. Ég hygg hins vegar, að ríkið sé í nokkurri hættu með það, að hæfileikamenn leiti ekki í þess þjónustu. Þess vegna mun ég ekki greiða þeirri till. atkv., sem nú er fram komin, enda virðist mér, að hún sé fyrst og fremst gerð til að sýnast og slá sig til riddara. T.d. er þar lagt til að leggja niður annan liðinn eða a-liðinn í 18. gr. II, en á seinni liðnum eru ekkjur embættis manna. í fyrri liðnum eru margar konur, sem einnig eru ekkjur, en þær hafa komizt inn á 18. gr. vegna þess, að þær tóku við störfum, þegar mennirnir féllu frá, og komust inn sem slíkar. Þær eiga að falla út, en konurnar, sem fóru inn á 18. gr. b, eiga að verða eftir samkv. till. þessa hv. þm.

Ég endurtek, að það er kaldhæðni örlaganna, að mennirnir, sem hafa staðið að þeim álögum, sem á þjóðina hafa verið lagðar, og hafa verið að gorta af því, að þeir séu að bæta hag þeirra, sem miður mega sín, skuli koma með svona till. í lokin.

Um þetta ætla ég svo ekki að segja fleiri orð, en vildi hér segja nokkur orð út af ræðu hæstv. fjmrh.

Hæstv. fjmrh. hóf mál sitt með því að ræða um innflutninginn á hátollavörunum og afkomuna við útlönd. Hæstv. ráðh, lét liggja orð að því, að við stjórnarandstæðingar værum þar ekki nógu framsýnir og vildum leggja of mikið upp úr innflutningi á hátollavörum. Ég vil minna á það, að hér á hv. Alþ. í fyrra deildu framsóknarmenn mjög við þáverandi stjórnarliða, — en hæstv. núv. fjmrh. var þá stuðningsmaður þeirrar stj. — við deildum við þá út af því, að sú stefna væri röng, sem þeir mörkuðu, m.a. með því að leggja of mikið til um innflutning á hágjaldavörum og ætla sér að ná of miklum tekjum af þeim. Við bentum á það, að sú leið væri óheppileg fyrir þjóðina og það bæri að varast hana og það yrði ekki hægt að flytja inn eins mikið af hágjaldavörum og þáverandi ríkisstj. ætlaðist til og lýsti yfir að hún mundi framfylgja.

Og ég vil líka minna á það, að með yfirfærslugjaldinu 1958, sem við Framsóknarflokksmenn höfum alltaf kannazt við sem okkar mál, — og enginn þarf að halda, að það sé eitthvert nýtt mál að fara að bendla okkur við það núna, — að þá bentum við á, að það væri ekki hægt nema að takmörkuðu leyti að byggja á innflutningi hágjaldavöru. Þess vegna er ég hæstv. ráðh. alveg sammála um það og undirstrika það, að þessu sjónarmiði höfum við haldið fram. En ég vil jafnframt minna á það, að þeir hv. sjálfstæðismenn greiddu atkv. gegn bjargráðunum 1958, þó að þetta væri höfuðatriðið í stefnunni, svo að þeir hafa þá ekki verið búnir að gera sér þessa hættu ljósa, sem hæstv. ráðh. er nú búinn að koma auga á. Er vel, að svo er.

Þá benti hæstv. ráðh. á, og þakka ég honum fyrir það, að það kom greinilega fram í ræðu hans hér áðan, að hann reiknar með verulegum greiðsluafgangi samkv. því fjárlagafrv., sem hér er verið að afgreiða. Þessu höfum við haldið fram, og eins og ég tók fram í ræðu minni hér í dag, er það stefnumunur hjá okkur, hvernig með það eigi að fara. Það er alveg óhugsandi, að hægt verði að draga úr innflutningnum á þessu ári, eins og hæstv. ríkisstj. ætlast til, nema, eins og ég tók fram við 2, umr. fjárl., hér skapist hrein vandræði seinni hluta ársins. Það er t.d. kunnugt, að í janúarmánuði s.l. var flutt meira inn en í janúarmánuði 1959, og ég hygg, að svipaða sögu sé að segja a.m.k. um febrúar og jafnvel þennan mánuð líka. Þess vegna orkar það varla tvímælis, að tekjur ríkissjóðs á þessu ári verða mun meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Hinu held ég hins vegar fram, að það sé ekkert óvanalegt og það sé ekkert afbrigðilegt að gerast, þó að innflutningur í ár verði svipaður eða litið eitt minni en hann var 1958, því að till., sem við framsóknarmenn gerðum hér, eru miðaðar við verulegan samdrátt frá því, sem var, miðað við 1958. Þær eru miðaðar við það, því að þar er reiknað með, að tolltekjur ríkisins af innflutningi minnki um hálft annað hundrað millj. kr., miðað við þá tekjustofna, sem nú eru til staðar. Þess vegna viðurkennum við samdráttinn. Hins vegar viðurkennum við ekki, að það sé hægt að koma á eins miklum samdrætti og hæstv. ríkisstj. ætlast til, nema með þeim hætti, að hér skapist hrein vandræði. Og ég álít, að við séum ekki að fara hér út úr neinum ramma í gjaldeyrisviðskiptum, þó að tekjuáætlunin, eins og við reiknuðum með henni, standist.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um, að það væri óheppilegt að byggja tekjur ríkissjóðs svo mikið á innfluttum vörum. Ég hygg, að það skapist aldrei nein vandræði af þessu, því að ef innlend framleiðsla eykst svo mikið, að hægt sé að ná tekjum þar af, held ég, að hvorki þessi hæstv. ríkisstj. né aðrar muni ekki finna þann möguleika. Mér sýnist allt benda til þess, að það hafi fullkomlega verið um það hugsað og við séum ekki í hættu um þá hluti.

Enn fremur talaði hæstv. ráðh. um það, að beinu skattarnir væru líka varasamir og hættulegir. Það er nú verið að hverfa mjög svo frá þeim af núv. hæstv. ríkisstj., og ég vil ekki á þessu stigi málsins segja um það, hvort þar er lengra gengið en eðlilegt er, ég ætla að bíða með það, þangað til hæstv. ríkisstj. sýnir hér á hv. Alþ. frv. um breyt. á tekjuskattinum. Hitt talaði hæstv. ráðh. um að væri nauðsynlegt, að skattleggja eyðsluna, og því væru veltuskattarnir æskilegastir. Nú vaknar spurningin um það, hvað er eyðsla. Ég vil t.d. ekki halda því fram, að það sé eyðsla, þótt fólk kaupi sér mat. Það er bara það, sem hver og einn verður að gera. En það, sem hæstv. ríkisstj. gerir núna, er það, að hún skattleggur m.a. það, sem fólk þarf að kaupa sér í matinn, eins og fisk og kjöt. Þetta finnst mér lengra gengið en eðlilegt er, þegar talað er um að skattleggja eyðslu. Þess vegna er það um veltuskattana eins og annað að segja, að þeir hafa líka sína galla og verða að vera takmarkaðir, ef þeir eiga ekki að fara út í það að vera bara beinar álögur á fólkið í landinu engu siður en beinu skattarnir, og koma oft og tíðum miklu verr við, vegna þess að það verða allir að greiða þá, hvernig sem ástæður þeirra á annað borð eru.

Þá drap hæstv. fjmrh. á það, sem við í stjórnarandstöðunni eða við framsóknarmenn hefðum rætt um samdráttinn í verklegum framkvæmdum. Ég sýndi fram á það hér í dag, að á tímabilinu 1950–58, að báðum árum meðtöldum, hefði verið varið til uppbyggingar og til atvinnuveganna í landinu 28.5% af rekstrarútgjöldum fjárl. Hins vegar væri á þessu fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir við 3. umr. og líkur eru til að verði niðurstaða þess, þetta ekki nema 19.7%.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að einn þátturinn í, hvernig ástand okkar í efnahagsmálum væri, væri það, að fjárfestingin hefði verið of mikil. Um þetta atriði hefur verið mikið deilt og mikið rætt, en á það hefur hins vegar verið bent, að vegna þess, hvað við höfum lagt mikið í fjárfestingu á síðari árum, höfum við aukið framleiðslu okkar alveg stórkostlega, og það hefur sannazt, að velmegun íslenzku þjóðarinnar hefur farið batnandi ár frá ári, eftir því sem uppbyggingin hefur verið meiri, og t.d. hefur einn af hagfræðingum okkar, dr. Benjamín Eiríksson, sýnt fram á það í blaðagrein í vetur og það með rökum, að erlendar lántökur til uppbyggingar hér væru þess valdandi, að við stæðum betur í viðskiptunum við útlönd en áður.

Ég hef gagnstæða skoðun á því, sem hæstv. ráðh. sagði um fjárfestinguna. Hann vildi, að lögmálið um framboð og eftirspurn, eins og hann orðaði það, yrði látið ráða í uppbyggingunni, en það þýðir það, sem við höfum haldið fram, að þeir einir geta að uppbyggingu staðið, sem hafa ráð á fjármagninu, annaðhvort eigin fjármagni eða góða aðstöðu til þess að fá lánsfé. Það hefur hins vegar verið stefnan á síðari árum að veita hinum dreifðu byggðum þessa lands, þeim sem minna máttu sín, aðstoð við uppbygginguna. Þess vegna eru að koma upp staðir eins og t.d. Ólafsvík, svo að ég nefni einn stað, sem mönnum er nú orðið ljóst að hefur borgað sig að leggja fjárfestingu í. En það var ekki meiri skilningur á því, að það þyrfti að koma upp atvinnustöðvum í Ólafsvík, heldur en annars staðar á landinu. Þetta hefur tekizt á síðari árum. Nú er þessi staður að verða einn með meiri framleiðslustöðum hér landi, og ef tekið er tillit til mannfjölda þar, mun hann vera einhver sá afkastamesti. Þannig fer það, þegar haft er eitthvert vald á uppbyggingunni, þá finnast staðir, sem lögmálið um framboð og eftirspurn tekur ekki eftir.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að við hefðum verið hér með villandi tölur í sambandi við fjárfestinguna eða framlag ríkisins í því skyni. Nefndi hann í því sambandi fjárlagaafgreiðsluna 1958. Í sambandi við þetta mál vil ég segja það, að þegar fjárlög voru afgreidd hér 1958, var það fyrir áramót það ár. Efnahagsmálin voru hins vegar ekki afgreidd fyrr en í maí vorið 1958. Þess vegna voru fjárlög löngu afgreidd á undan efnahagsmálunum og við það ástand miðað, sem þá ríkti í fjármálum og efnahagsmálum, þegar fjárlögin voru afgreidd. Þess vegna var ekki hækkað til vega á fjárlögum fyrir 1958. En í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. talaði um framlög til vega nú, tók hann einnig með í það uppgjör viðhaldið eða allan liðinn til vegamála, eins og hann er á yfirlitinu hér á öftustu síðu. En þá er því við að bæta, að á árinu 1958 var aukið framlag til viðhalds á þjóðvegum um það, sem hækkunin nam, eftir að efnahagsmálin voru afgreidd, og mun það hafa verið um 7 millj. kr. Og ég vil líka benda á það, að þegar fjárlagafrv. þáverandi vinstri ríkisstj. var lagt fram haustið 1958, þá var veruleg hækkun á þessum lið og öðrum, svo að í því fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 82.8 millj. kr. móti 90.9, sem nú er eftir 2. umr. fjárl., þ.e. hér á þessu frv., þar tek ég með aukið framlag til vegaviðhaldsins, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan. Þess vegna verður þessi samanburður á engan hátt hagstæðari en annar, enda var við afgreiðslu efnahagsmálanna benzíngjaldið hækkað og tekinn verulegur hluti af því til millibyggðavega og brúasjóðs. — Um raforkumálin er það að segja, að það er sá liðurinn á núv. fjárlagafrv., sem hefur hækkað frá í fyrra, vegna þess að þá voru teknar út 10 millj. kr. eða rúmlega það, þar sem 15 millj. til raforkusjóðs voru lækkaðar um 5%, og þetta var leiðrétt núna, og er það auðvitað spor í rétta átt, sem ber að virða. Um skólana er einnig það að segja, að skólarnir eru liður á fjárl., sem heldur nokkurn veginn réttu hlutfalli. En þegar liðirnir til verklegra framkvæmda og atvinnuveganna eru teknir í heild, eins og ég gerði hér í dag, er niðurstaðan sú, sem ég þá greindi.

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um sparnaðinn og tal okkar í sambandi við hann. Ég tók það fram hér við 2. umr. fjárl., að við framsóknarmenn værum ekki með neinar sparnaðartill., vegna þess að það væri skoðun okkar, að sparnaði yrði ekki við komið, nema hann væri undirbúinn áður, og vísa því á bug öllu tali um yfirskinshátt í sambandi við sparnaðinn hvað okkur áhrærir. Við höfum einmitt forðazt það og við vöruðum við því við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra að taka upp þann hátt að áætla gjaldaliði eða tekjuliði, sem fá ekki staðizt, það yrði að gera athugun, áður en í það yrði farið. Ég skal endurtaka það, sem ég mun hafa sagt hér við 2. umr. fjárlaga, að ég bíð a.m.k. átekta með sparnaðinn hjá hæstv. ríkisstj., þangað til sparnaðartillögurnar sjást. Og ég kann a.m.k. eins vel við það, að þær komi, eins og að boða sparnaðinn með löngum fyrirvara. Mér er það alveg fullkomlega ljóst, eða ég a.m.k. held því fram sem minni skoðun, að sparnaði í rekstri ríkisins má koma við að einhverju leyti, en stórkostlegt verður það ekki nema með verulegri lagabreytingu, þar sem við tökum aftur þó nokkuð af því, sem við höfum talið okkur til tekna, til þess við það að bæta aðstöðu fólksins í landinu. Það er mál, sem við yrðum að gera upp við okkur hverju sinni og þýðir ekki boðskapur um.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram í sambandi við ræðu þessa hæstv. ráðh., en vildi minna á þetta, enda stendur það óhaggað, sem ég hef áður haldið hér fram í þessum umræðum.