29.03.1960
Efri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

99. mál, alþjóðasamningur um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal með aðeins örfáum orðum, af því að það er nú komið fram yfir venjulegan fundartíma, gera grein fyrir þessu frv.

Þessi samningur, sem hér er lagt til að verði fullgiltur, er einn þátturinn í viðleitni aðildarríkjanna, sem hér eiga hlut að máli, í þá átt að koma í veg fyrir ofveiði og koma í veg fyrir, að fiskstofnarnir í höfunum verði unnir eða veiddir meira en góðu hófi gegnir. Árið 1946 var samþykktur í London samningur á milli þessara ríkja flestra um möskvastærð og lágmarksstærð á fiski, sem hirða mætti og selja á markaði. Þær aðgerðir, sem sá samningur gerði ráð fyrir, hafa ekki verið taldar nægilegar, og þess vegna hefur þessi samningur, sem hér er á ferð, orðið til.

Aðilar að þessum samningi eru Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Írland, Ísland, Noregur, Pólland, Portúgal, Ráðstjórnarríkin, Sambandslýðveldið Þýzkaland, Spánn og Svíþjóð, þ.e.a.s. flest þau ríki eða öll, sem fiskveiðar stunda í Norðaustur-Atlantshafi. Svæðið, sem samningurinn tekur til, er þannig takmarkað, að það liggur fyrir norðan 36. gráðu norðurbreiddar og á milli 42. gráðu vesturlengdar og 51. gráðu austurlengdar. Það tekur yfir Atlantshafið vestur að Grænlandi og eftir 42. gráðu vesturlengdar suður á móts við Gíbraltar og takmarkast þar að sunnan. Þessu svæði er svo aftur skipt í þrjú minni svæði, sem hvert um sig á að hafa sérstaka eftirlitsnefnd auk þeirrar aðalnefndar, sem hefur með höndum eftirlit með öllu svæðinu. Fyrsta svæðið er norðurhluti Atlantshafsins, svæðið umhverfis Ísland og austur í Barentshaf. Annað svæðið er Norðursjórinn og svæðið í kringum Bretlandseyjar. Og þriðja svæðið er svo suður undir Gíbraltar og Atlantshafið vestur af Frakklands- og Spánarströndum.

Til þess að líta eftir því, að samningurinn sé haldinn, er stofnuð fastanefnd, sem á að hafa aðsetur í London, og undirnefndir, sem líta eftir hinum minni svæðum þremur. Hvert land, sem er aðildarríki að samningnum, á rétt á því að tilnefna mann eða menn í þessa fastanefnd og undirnefndirnar, þar sem það kemur við sögu, en þær samþykktir, sem gerðar eru af þessari fastanefnd eða af aðildarríkjunum, fleiri eða færri, eru ekki skuldbindandi fyrir neitt ríkið, ef það ekki vill hlíta þeim. Hins vegar er hægt með 2/3 atkvæða að fá samþykkt í nefndunum tilmælí til ríkjanna um upptöku ákveðinna aðgerða, og er ætlazt til þess, að um þau megi fá samkomulag og vinna eftir þeim að því takmarki, sem stefnt er að með samningsgerðinni.

Það skal tekið fram mjög greinilega, að þessi samningur tekur á engan hátt til fiskveiðilögsögunnar eða landhelginnar, og var af hálfu íslensku samningsaðilanna, sem að þessari samningsgerð stóðu, unnið að því að fá þetta ákvæði mjög skýrt markað í samninginn, en um það segir í samningnum, með leyfi hæstv. forseta, að „ekkert í samningi þessum getur haft áhrif á réttindi, kröfur eða skoðanir samningsríkjanna að því er varðar víðáttu fiskveiðilögsögunnar.“

Ég skal svo ekki fara frekar út í að ræða efni samningsins. Hann er ákaflega ljós og engin ástæða til þess að rekja ákvæði hans lið fyrir lið. Ég skal aðeins um kostnaðinn, sem af þessu leiðir, segja, að hann skiptist á milli aðildarríkjanna eftir vissum reglum, og er engin ástæða til þess að ætla, að hann verði nema mjög hóflegur, svo að það þarf ekki að óttast þá bagga, sem af þessu verða lagðir á okkur fjárhagslega.

Það hefur nú atvikazt svo, að þessi samningur, sem var undirritaður af okkar hálfu í London í janúarmánuði 1959, gerir ráð fyrir því, að hann verði fullgiltur af aðildarríkjunum fyrir 30. marz 1960, en einhverra ástæðna vegna, sem ég kann nú ekki að skýra, hefur samningurinn lagzt til hliðar í ráðuneytinu og þess vegna ekki komið í mínar hendur fyrr en fyrir örfáum dögum. Ég vildi þess vegna leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að afgreiðslu þessa máls yrði flýtt, þannig að samningurinn gæti orðið undirskrifaður, áður en sá tími er liðinn, sem hann gerir ráð fyrir til fullgildingar, því að það getur valdið nokkrum erfiðleikum og töfum og kannske misskilningi, ef við verðum ekki búnir að ganga frá honum fyrir bennan tíma.

Ég þarf ekki að taka það fram hér, hversu þýðingarmikið það er fyrir fiskveiðaþjóð eins og okkur að standa að öllum ráðagerðum og aðgerðum til þess að koma í veg fyrir ofveiði og til þess að tryggja fiskstofnana í sjónum. Þessi samningur stefnir að því að gera þetta, og þess vegna tel ég, að það sé mikill ávinningur fyrir Ísland að vera aðili að þessari samningsgerð.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., og ítreka þá ósk mína, að afgreiðslu málsins verði hraðað eins og mögulegt er, þannig að fullgildingin geti farið fram, áður en frestur sá, sem ég nefndi, er liðinn.