25.02.1960
Neðri deild: 36. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

65. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af umr. hæstv. ráðh. beggja um það, að þeir séu andvígir því, að sérstakt frv. sé borið fram í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar eru í efnahagsmálunum, þá skal ég taka fram, að það var aðeins ábending frá minni hálfu, vegna þess að ég óttaðist, að um frv. sjálft mundu verða meiri deilur en um þann hluta eða þann kafla frv., og það er að sjálfsögðu ekkert áhugamál frá minni hendi, að það sé slitið úr samhengi. Ég vil aðeins taka þetta fram.

Það kom ljóst fram hjá hæstv. félmrh., að hann er persónulega og sjálfsagt einnig hans flokkur fylgjandi því, að það verði fellt niður að skipta landinu í tvö svæði. Ég tel það mikils virði að hafa fengið þessa játningu hér við þessa 1. umr., og ætti ég sæti áfram í n. og á þingi, þá mundi ég vera miklu fúsari til þess að fylgja þessu máli út úr þinginu eftir að hafa fengið slíka yfirlýsingu, því að það er að sjálfsögðu alltaf hægt að taka upp hitt síðar og vísa þá í slíkar yfirlýsingar frá hæstv. félmrh., sem fer með þessi mál.

Ég get sagt nákvæmlega það sama um hitt atriðið, að með tilvísun til þess, að hann lýsir því yfir, eins og rétt er, að þetta sé í lögum, að skerðingarákvæðið skuli falla niður 1960, — og mér skildist á hans ræðu, að hann væri síður en svo fylgjandi því, að það héldi áfram, hann mundi að sjálfsögðu taka afstöðu til þess, þegar þar að kemur, — og með tilvísun til þess, að mjög skammur tími er þangað til ákvæðið á að falla niður, þá verð ég að líta svo á, að hæstv. ríkisstj. vinni að því, að það verði ekki framlengt um næstu áramót, og þá sé ég heldur enga ástæðu til þess að setja þetta ákvæði inn í þessi lög. En ég tel þá líka, að það hafi verið mjög nauðsynlegt, að um þessi atriði hafi verið rætt.

Eitt kom mér nokkuð á óvart, þegar hæstv. ráðh. sagði, að hér væri ekki um heildarendurskoðun að ræða, því að það hafa þó hvorki meira né minna en tvær nefndir endurskoðað lögin, þótt að vísu hafi verið bent á, að hvor nefnd fyrir sig ætti að hafa sérstök atriði í frv. til að athuga. Og þá finnst mér, að það liggi fyrir nú að skipa þriðju n. til þess að gera heildarendurskoðun á lögunum, og vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé hugsað að setja nú á stofn þriðju nefndina til þess að endurskoða þessa löggjöf, sem raunverulega hefur alltaf verið undir endurskoðun á hverju einasta ári, síðan lögin voru samþykkt 1946.

Um skerðingarákvæðið vildi ég aðeins segja þetta: Hver er ástæðan fyrir því, að það er sótt svo fast að fella niður skerðingarákvæðið á örorkubótum og ellilífeyri? Meginástæðan fyrir því er, að það er talið, að skerðingarákvæðið verki nákvæmlega eins á þjóðartekjurnar í heild og ranglát skattalöggjöf. Þegar fólk, sem nýtur þessara tekna, er komið það hátt upp í tekjum annars staðar frá, að styrkirnir falla í burtu, þá vill það ekki vinna lengur, — alveg eins og maður, sem hefur svo miklar tekjur, að hann fær ekki að halda neinu eftir af sínum tekjum, vegna þess að bæði bæjarsjóður og ríkissjóður fara svo djúpt ofan í vasa hans, hættir að vinna, af nákvæmlega sömu ástæðu, og þess vegna er það sótt svo fast, að skerðingarákvæðið falli niður. Ég tel, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði sé alveg rangt að halda þessu ákvæði. Það á að nota vinnuafl þessara einstaklinga eins mikið og hægt er og eins og þeir treysta sér til og láta það ekki hafa áhrif á það, hvort hætt er að vinna, hvort þeir fá bætur úr tryggingunum eða ekki. Þetta er mín skoðun. Mér er fullkomlega ljóst, að þetta ákvæði kostar ákaflega mikla peninga. En ég hef sjálfur margbent á annan tekjustofn til þess að vega hér upp á móti, og það er erfðaskattur. Það er ekki nema sjálfsagður hlutur, þegar öll gjöldin, framfærslugjöldin og styrkir, eru færð yfir á Tryggingastofnunina, bæði fyrir öryrkja, gamalmenni og fátæklinga, að það, sem eftir er af því fé, einnig frá þessum stofnunum, hjá þessum aðilum, þegar þeir deyja, renni aftur að mestu leyti til stofnunarinnar. Það er mín skoðun. Og hér liggur fyrir nú frv. frá okkur allmörgum þm. um að breyta erfðafjárskattslögunum, að vísu ekki neinar róttækar breytingar, nema síður sé. Þar er gert ráð fyrir að taka nokkuð mikið af fjarskyldum erfingjum, ekkert af nánustu erfingjum, frekar en nú er, og ég tel, að það sé sjálfsagt að láta þetta fylgjast að, að fella niður skerðingarákvæðið og taka þarna inn nýjan tekjustofn á móti á annan hátt, eins og ég hef bent á.

Ég skal svo aðeins benda á tvö atriði, sem fóru fram hjá mér áðan, og vildi beina því til hæstv. ráðherra.

Það er út af 12. gr., að eins og hann minntist á, þá raskast mjög mikið viðmiðunin, sem nú er, um það, hvenær eigi að greiða tryggingagjöldin fyrir hina einstöku aðila. Það var miðað við tekjuskatt áður. Nú er talað um hér að miða þetta við útsvar eða eignarskatt. Ég hefði nú talið, að það væri miklu eðlilegra að miða þetta við einhverjar sérstakar tekjur, hvort sem þær koma frá Tryggingastofnun eða annars staðar frá. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess að greiða tryggingagjaldið fyrir aðila, sem hefur t.d. 30–40 þús. kr. tekjur úr tryggingasjóði eða jafnvel meira. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég sé ekki annað en hann geti alveg eins greitt það og ýmsir aðrir og að það ætti að miða þetta hreint og beint við þær tekjur, sem viðkomandi aðilar hafa, hvort sem þeir komast undan á einn eða annan hátt að greiða skatt, annaðhvort réttilega eða ranglega. Og við vitum ekkert um, hvort skattákvæðin breytast í framtíðinni, því að það virðist, að hér liggi nú fyrir að taka stórt stig eða gera stórar breytingar á tekjuskattinum. Það getur vel verið, að það verði gerðar stórkostlegar breytingar á útsvörum. Það getur vel verið, að farið verði inn á það að taka öll útsvör af fasteignum eða í hafnargjöld af vörum, við vitum ekkert um það. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að þetta sé miðað við eitthvað annað en hér er miðað við. En þetta er nú aðeins formsatriði. (Gripið fram í.) 23. gr., já, nánar tiltekið hér. Þetta er nú aðeins formsatriði.

Hitt er aftur á móti efnislegt atriði, sem ég vildi ræða um. Það er samkvæmt 17. gr. Þar stendur, eins og hæstv. ráðherra lýsti, að ekkja skuli fá 90 þús. kr. sem dánarbætur, hvort heldur viðkomandi aðili, hennar maki, ferst af slysi á sjó eða landi. Ég tel þetta algerlega rangt. Ég tel, að sú kona, sem missir mann sinn í sjó, eigi kröfu á að fá miklu hærri bætur en sú, sem missir hann af slysi í vegavinnu. Mér er alveg ókunnugt um það, að konur yfirleitt eigi margar andvökunætur um það, hvort menn þeirra slasist við vegavinnu, á bíl eða traktor. En hinar eru ekki fáar, sem eiga andvökunætur í vondum veðrum um það, hvort þær fái manninn sinn heim vestan frá Grænlandi eða ekki. Og ég tel, að það sé mjög misráðið hér að það sé einn þátturinn í því að draga fólkið frá hættustörfum á sjó, að dánarbætur fyrir eftirlifendur þeirra séu miklu lægri eða jafnar og þær eru á landi. Ég vil mjög beina því til hv. félmn, og hæstv. ráðherra, sem fara með þessi mál, að þessu verði breytt. Og verði því ekki breytt, þá verður áreiðanlega sótt á seinna að hækka þessar bætur stórkostlega fyrir þá aðila, sem eiga sína fyrirvinnu á sjó. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að að ræða málið nánar.