23.03.1960
Neðri deild: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 1. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. (BF) hefur nú rakið mjög ýtarlega þær breyt., sem það frv., sem hér er til meðferðar, mun hafa á gildandi tryggingalöggjöf, og ætla ég ekki að fara neitt nánar út í að rekja það tölulega eða þær hækkanir, sem verða á ýmsum bótaliðum trygginganna.

Eins og hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. gat um, varð ekki fullt samkomulag í n. um frv. Ég fyrir mitt leyti samþ. og styð þær hækkunartill., sem frv. ber með sér, en taldi mig ekki geta fylgt frekari hækkunartillögum umfram þær, sem leiðir af þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 190.

Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv., er það skýrt tekið fram, að þetta frv. sé einn þátturinn í þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem ríkisstj. er nú að framkvæma þessa dagana. Af þeirri ástæðu tel ég vafasamt, að ýmislegt af því, sem í frv. er, sé ætlað til frambúðar, enda þótt mér skildist á hv. frsm. meiri hl. n., að svo mundi þó ætlunin vera hjá ríkisstjórnarflokkunum. Í athugasemdum við lagafrv. er það m.a. tekið fram, að aukning sú á bótagreiðslum almannatrygginganna, sem frv. boðar, sé einn liðurinn í bessum efnahagsmálaráðstöfunum. Þau bráðabirgðaákvæði, sem ég tel sennilegt að séu í frv., eru þau, að í því er ákveðið, að greiða skuli fjölskyldubætur með 1. og 2. barni. Greiðslur þessar munu kosta tryggingarnar á einu ári tæpar 100 millj. kr., og það þurfa alveg sérstakar ástæður að skapast í einu þjóðfélagi til þess, að 100 millj. kr. af ríkisfé og fé sveitarfélaganna sé varið til þess að styrkja hjón, sem eiga eitt barn, til þess að framfæra það. Að taka svo stóra fjárfúlgu, sem annars væri hægt að nota til verklegra framkvæmda, til slíkra bóta tel ég meira en vafasamt, nema eitthvað sérstakt komi til, sem geri það verjanlegt. Og það er einmitt það, sem er að ske nú í dag. Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. er að framkvæma í efnahagsmálum, binda hinu unga fólki, sem nú er að stofna til heimilis, svo þunga bagga um ófyrirsjáanlega framtíð, að ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir viðurkenna, að til þess að bæta það upp að nokkru þurfi að borga ungum hjónum 2600 kr. á ári til þess að framfæra eitt barn.

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. Ég vil þó lítillega víkja að þeim brtt., sem eru ekki margar, er ég hef borið fram við frv.

Í fyrsta lagi er það, að ég legg til, að framan við 2. gr. frv. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Fyrir orðið „heimilt“ í 1. mgr. 10. gr. laganna komi: skylt. — Eins og frsm. meiri hl. heilbr.-og félmn. gat um áðan, er heimild í lögum til þess, að sveitarfélög geti færzt á milli verðlagssvæða. Bætur á 1. verðlagssvæði eru nú 25% hærri en bætur á 2. verðlagssvæði, svo að að sjálfsögðu er þeim, sem bætur kynnu að fá á 2. verðlagssvæði, nokkurt kappsmál að komast yfir á 1. verðlagssvæði. Ég tel, að sveitarfélögin eða sveitarstjórnirnar í viðkomandi sveitarfélögum eigi að ráða því og að það sé ekki nokkur aðili annar, sem geti ráðið því, svo að vel fari, hvort sveitarfélag flyzt af 2. verðlagssvæði yfir á það 1. Ég tel ekki rétt, að það sé lögboðið hér á hinu háa Alþ., að landið skuli allt vera eitt verðlagssvæði, fyrst leið er opin fyrir öll þau sveitarfélög, sem það kunna að vilja, að flytjast yfir á 1. verðlagssvæði. Í þeim sveitarfélögum, sem ég þekki dálítið til, veit ég, að miklir erfiðleikar eru í peningamálum og yfirleitt mjög naumt skorið um allt fjármagn til framkvæmda. Ég tel, að sveitarstjórnir á slíkum stöðum séu eini aðilinn, sem á að dæma um það, hvort rétt sé að flytja sveitarfélagið á milli verðlagssvæða, og m.a. ákveða, að það greiði þá hærra gjald til trygginganna en ella væri. Hins vegar tel ég rétt, að heimildarákvæðinu sé breytt fortakslaust þannig, að ef sveitarfélag óskar að flytjast yfir á 1. verðlagssvæði, þá skuli Tryggingastofnuninni skylt að verða við þeirri ósk, en að það skuli ekki háð duttlungum þeirra, sem þar kunna að ráða á hverjum tíma, hvort farið verður eftir þeirri ósk eða ekki.

2. brtt., sem ég flyt, er sú, að ég legg til, að 2. mgr. 5. gr. frv. falli niður, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við ákvörðun fjölskyldubóta skulu ekki talin með þau börn í fjölskyldunni, sem eiga framfærsluskyldan föður utan hennar.“ Ég tel, að það sé ekki réttmætt, að bessi börn, sem eru á framfæri foreldra, njóti ekki fjölskyldubóta eins og önnur börn í landinu, og legg því til, að þessi grein sé felld niður.

3. brtt. mín og sú, sem er mikilvægust, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 9. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: 1. og 2. mgr. 22, gr. laganna falli niður.“ Breyt., sem ég legg til að hér verði gerð, er sú, að felld verði niður skerðingarákvæðin á elli- og örorkulífeyrinum, sem svo mjög hefur verið talað um á undanförnum árum. Ég tel, að þessi skerðingarákvæði séu á allan máta óeðlileg. Þeir, sem verða fyrir þessum skerðingum, hafa í öllum tilfellum greitt sín fullu gjöld til trygginganna ákveðið árabil, og er því ekki rétt, a.m.k. í langflestum tilfellum, að beita skerðingarákvæðunum gegn þeim, þegar þeir komast á ellilífeyrisaldur og hafa kannske einhverjar smáar tekjur. Fyrir liggja samþykktir frá ýmsum félögum og félagasamtökum í landinu með áskorunum á hv. Alþ. um að fella þessi skerðingarákvæði niður, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp bréf, sem mér hefur borizt og ég reikna með að aðrir hv. alþm. hafi fengið, en það er frá Sjálfsbjörg, félagi fatlaðra í Reykjavik. Þar segir:

„Sjálfsbjörg, félag fatlaðra í Reykjavík, leyfir sér hér með að skora á hið háa Alþ. að taka inn í frv. það til laga um breytingu á almannatryggingunum, sem nú liggur fyrir Alþ., ákvæði um, að skerðingarákvæði þau á elli- og örorkulífeyri, sem skv. núgildandi lögum eiga að falla niður í árslok 1960, falli niður með samþykkt þessara laga. Viljum vér benda á, að fjölskyldubætur eru greiddar án tillits til tekna, en undir langflestum kringumstæðum standa líkamlega heilbrigðir foreldrar mun betur að vígi við að mæta auknum útgjöldum vegna uppeldis eins eða tveggja barna en öryrki að kljúfa þann kostnað, sem fötlun hans veldur honum. Má í því sambandi nefna, að margt fatlað fólk hefur ekki aðstöðu til að stunda atvinnu, nema það hafi umráð yfir einhverju farartæki. Kaup og rekstur slíkra tækja er það kostnaðarsamur, að það er tæpast öðrum kleift en þeim, sem annaðhvort eru í vel launuðum stöðum eða fá aðstoð til þess frá ættingjum eða vinum. Þá eru margir öryrkjar, sem ekki eiga eða hafa ekki af einhverjum ástæðum möguleika til þess að eiga slík farartæki sjálfir, háðir því að taka leigubifreið til að komast ferða sinna. Oft veldur veður og færð því, að viðkomandi kemst ekki ferða sinna á annan máta. Í mörgum tilfellum getur fatlaður maður ekki unnið nema víssa vinnu. Er hann þá verr hæfur til lífsbaráttunnar en líkamlega heilbrigði maðurinn, sem getur óhindraður unnið sín heimilisstörf, unnið að viðhaldi íbúðar og margt fleira, sem hinn fatlaði verður oft að kaupa vinnu við. Þar sem ríkisstj. ætlar að koma til móts við þá, sem erfiðast eiga með að mæta vaxandi dýrtíð, með auknum tryggingum, teljum vér eðlilegast, að áðurnefnd skerðingarákvæði verði felld niður, um leið og þessi lög verða samþ.

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn gat um það áðan, að til stæði, að bessi skerðingarákvæði féllu úr gildi að enduðu þessu ári. Það er að vísu rétt, að í l. er gert ráð fyrir, að lögin falli niður, ef ekkert annað verður gert. En mér skilst, að þetta séu ekki fyrstu áramótin, sem til hafi staðið að fella niður skerðingarákvæðin, en þó hafa þau lifað allt til þessa dags. Ég tel, að einmitt nú sé tækifærið, með þeim miklu breytingum og þeim auknu bótum, sem almenningur á að njóta frá tryggingunum, að afnema nú, einmitt nú, þessi skerðingarákvæði. Þau eru á allan máta óeðlileg og koma í langflestum tilfellum mjög óréttlátlega niður.