30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að reyna að kreista úr sér léttan tón, eins og hann væri á bæjarstjórnarfundi, talaði um, að hér hefði verið lesin upp úr Frey saga máls, sem er eitt af þeim málum, sem að sjálfsögðu blandast inn í þessar umr., landbúnaðarverðið, og fleira af því tagi. Það er ekki á hans valdi né neins manns, sem talar um þetta mál, að hafa það í flimtingum. Hann sagði, að það, sem væri verið að gera, væri ekki ofbeldi við þingið, því að meiri hl. á Alþingi stæði á bak við þessa frestun. Honum er algerlega um megn að rökstyðja það, að það séu eðlileg vinnubrögð að kalla þingið saman í örfáa daga til þess að afgreiða í skyndi og með afbrigðum frá þingsköpum, sem fara nú ekki allt of vel úr hendi, heimildir fyrir bráðabirgðagreiðslur og heimild til að afla tekna, án þess, eins og hér hefur verið tekið fram, eftir því sem nú virðist, að eigi að skipa formenn nefnda. Hvað hefur á sér meira einræðissnið en einmitt þetta? Eru ekki þetta hinar venjulegu vinnuaðferðir í einræðislöndum, greiðsluheimildir og tekjuöflun? Það, sem þingið er beðið um, er þetta: Látið mig fá heimild án fjárl. til þess að greiða fé úr ríkissjóði, og látið mig fá heimild til þess að afla tekna. Farið þið svo heim. Þið hafið ekkert meira að gera hér.

Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé gert, og það kemur sjálfsagt í ljós, með samþykki meiri hl. þm. En ég fullyrði, að það eru ekki allir þm. í meiri hl. ánægðir með þessi vinnubrögð. Þegar þessi till. hafði komið fram og mér var kunnugt um hana, hitti ég einn af þm. úr meiri hl., og hann víssi ekki, að till. var komin fram. Þá skildi ég það líka, af hverju það stafaði, að Alþýðubl. sagði, að ríkisstj. hefði ákveðið þingfrestun. Þeir eru orðnir vanir við þann rétta hugsunarhátt, þessir herrar. Ríkisstjórnin hafði ákveðið það. Þá var náttúrlega ekkert að sökum að spyrja, þá varð að greiða atkvæði með því. En ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar hafa þing verið þurrkuð út nema með þessum hætti? Höfðu ekki nazistarnir alltaf einræði í Þýzkalandi? Höfðu ekki nazistarnir meiri hl. þings í Þýzkalandi? Höfðu ekki fasistarnir það á Ítalíu, án þess að ég sé að líkja þingmeirihlutanum við fasista eða nazista? Vissulega höfðu þeir þingmeirihluta á bak við sig og notuðu hann á þann hátt, sem okkur er öllum kunnugt. Þingin urðu í höndum þeirra að samkomum, sem voru kallaðar saman til þess að fyrirskipa þeim að samþykkja þetta eða hitt og sendar síðan heim.

Ef þessi vinnubrögð verða viðhöfð hér, þá hef ég bent á, hverjar afleiðingarnar geta orðið. Það er beðið um tveggja mánaða frest núna. Við skulum segja, að það verði gerðar fjárhagsráðstafanir, sem dygðu ekki betur, þó að vonandi sé, að svo verði, — en svo, að það þyrfti að gera nýjar fjárhagsráðstafanir að hausti. Er þá ekki alveg tilvalið að hafa vinnubrögðin hér til fyrirmyndar: kalla þingið saman og gera það svo að venju í þingstörfum að kalla þingið saman til þess að heimila stjórninni að innheimta tekjur, heimila stjórninni að greiða fé úr ríkissjóði án fjárl., senda það síðan heim? Og verða það þá tveir mánuðir? Hvers vegna ekki þrír mánuðir? Hvers vegna ekki fjórir mánuðir? En hvað er þá orðið eftir af þingræðinu? Og svo skulum við segja, að það verði gefin út brbl. í þinghléinu og síðan verði þessi brbl. tengd í eitt frv. til þess að stytta þingtímann. Það mætti kannske koma honum ofan í 1–2 mánuði, eftir að þing yrði kallað saman að nýju.

Hæstv. ráðh. sagði, að brbl. yrðu lögð fyrir Alþingi. En eitt er það, sem hann gat ekkert um, gaf engar yfirlýsingar um, sem þó hefur verið rætt mikið hér í þessari hv. d. og jafnvel — held ég — í hv. Nd., og víst sumir hafa verið með getsakir um, sem ég tek ekki undir. Er það ætlun ríkisstj. eða ekki að gefa út brbl. um landbúnaðarverðið í þinghléinu? Ég vildi gjarnan fá þessari spurningu svarað, því að þetta er það, sem skiptir meginmáli, en ekki það, hvort frv. verði lagt fyrir, án þess að þingviljinn verði reyndur, eins og raunverulega er skylt.

Ef það væri ætlunin, sem ég vil ekki halda fram að sé, — ef það væri ætlun ríkisstj. að gefa út brbl. í þinghléinu til þess að framlengja brbl., sem voru gefin út í sumar, án þess að þingviljinn fái að sýna sig núna á þessu þingi, þá er hér um svo alvarlegan hlut að ræða, að það er ómögulegt að sjá út fyrir afleiðingarnar. Og þar sem það hafa komið fram getspár um, að þetta sé ætlun stjórnarinnar með þinghléinu, en ekki raunverulega það, að hún geti ekki með öðru fyrirkomulagi en frestuninni búið sig undir að koma fram hér með till. í efnahagsmálunum, — ef þetta er ætlunin, en hitt fyrirsláttur, þá er hér alvarlegur hlutur á ferð. Þess vegna vil ég skora á hæstv. fjmrh. að gefa hér alveg skýlausar yfirlýsingar um það, hvort þetta er ætlun stjórnarinnar eða ekki.