24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. (BF) ræddi hér áðan um nokkur atriði tryggingalöggjafarinnar, sem okkur kemur ekki að öllu leyti saman um.

Hann sagði í fyrsta lagi viðvíkjandi skerðingarákvæðunum, að hann væri sannfærður um það, að þau yrðu afnumin með næstu áramótum, en reynslan yrði auðvitað að skera úr því, hvort svo yrði. Vissulega er það svo. En hins vegar er það, að ég er búinn að heyra loforð um afnám skerðingarákvæðanna hvað eftir annað, og þau loforð hafa ekki staðizt, og nú, þegar við höfum rætt um skerðingarákvæðin á nefndarfundi, þá hefur forstjóri trygginganna sjálfur vakið athygli á því, að endurskoðun þurfi að fara fram, áður en skerðingarákvæðin verði felld niður, og vitnað til ummæla um það, að þau beri varla að fella niður sjálfkrafa um áramótin næstu nema með nýrri athugun á því máli og á tryggingunum kannske í heild. Við að heyra einmitt forstjóra trygginganna, Sverri Þorbjarnarson, ræða um þetta á nefndarfundinum hjá okkur, þá óx uggur minn og kvíði um, að það stæði einmitt til að komast hjá því að afnema skerðingarákvæðin nú og setja síðan endurskoðun í gang og gefa þeim enn líf, eins og búið er að gera nú í á milli 13 og 14 ár. En reynslan sker úr þessu, og ég fagna því, ef þau falla við næstu áramót.

Þá taldi hv. þm., að ef horfið yrði að því ráði að láta þau börn, sem eiga framfærsluskyldan föður utan framfærslufjölskyldunnar, komast undir fjölskyldubætur, þá mundi af því leiða mjög víðtækar afleiðingar og að mér skildist mjög alvarlegar, án þess að hann gerði nánar grein fyrir því. Mér er ekki kunnugt um þessar víðtæku afleiðingar. En hins vegar játaði forstjóri trygginganna það hjá okkur, að það væri mjög sársaukafullt og í mörgum tilfellum mjög miklum vandkvæðum bundið að undanskilja slík börn fjölskyldubótum, og ég heyrði ekki betur á honum en að hann tryði því, að ef ekki yrði gerð breyting á þessu í þá átt, sem ég legg til, þá væri þar horfzt í augu við margvísleg vandkvæði í framkvæmdinni.

Þá er það um það, að ég beri fram mínar till. og kæri mig ekkert um, hvað þær kosti, ef til framkvæmda kæmi. Út af þessu vil ég upplýsa það, að þegar ég hafði gert grein fyrir mínum margvíslegu brtt. í n., þá sagði ég við mína meðnefndarmenn, að ef nokkur hljómgrunnur væri fyrir því að þeir vildu veita þeim stuðning, einni eða fleiri, þá væri ég reiðubúinn til að leggja tíma í það að reyna ásamt beim að finna fjárhagslegan grundvöll fyrir framkvæmd þessara tillagna, annaðhvort með nýrri fjáröflun eða tilfærslu innan tryggingakerfisins að einhverju leyti. Undir það var ekki tekið. Mínir meðnm. sögðu það hreinskilnislega, að þeir hefðu ekki svigrúm til þess að vera með þessum tillögum.

Þá er það viðvíkjandi heilsugæzlukaflanum. Það þurfti ekki að segja. mér það, ég vissi það ósköp vel fyrir, að það var hörfið að því óheillaráði að fella heilsugæzlukaflann niður eftir till. frá mþn., og ég held, að ég hafi sagt frá því í ræðu minni áðan. Hins vegar upplýsti hv. 5. þm. Vestf., að sú mþn. hefði farið að spyrja ýmsa aðila, m.a. sveitarstjórnirnar, hvort þær vildu ekki, að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda, og þær svöruðu neitandi flestar, ekki alveg gagnteknar af hugsuninni um að beita þeim vinnubrögðum í heilbrigðismálunum, sem gegnsýrir þennan kafla, heldur lítandi eingöngu á það, eins og vænta má frá sjónarmiði sveitarstjórnarmanna, að þetta yrði dýrara í bili. Og þær leggjast á móti. — og þá á það að ráða. Svo voru einhverjir læknar spurðir, og þeir voru nú á því, að það væri bezt að vera ekki að leggja á sig þá fyrirhöfn að fara inn á þessar nýju brautir. Það var búið að spyrja ýmsa aðra lækna áður. Það var búið að spyrja fyrrv. landlækni, og það hafði verið haft samband við núverandi landlækni, sem lengi hefur starfað sem læknir trygginganna, og það er ekki lengra en síðan 1953, að hann var settur í embættið til þess að undirbúa og framkvæma heilsugæzlukaflann. Embættið var búið til til þess 1953. Hvað skyldi hafa gerzt síðan, sem gerir það að verkum, að þetta sé núna eiginlega allt saman úrelt hugsun — að veita heilsugæzlu og heilsuvernd í staðinn fyrir lækningar eftir á? Og svo voru þeir settir í sérstaka n. til þess að rannsaka þetta nýmæli, — öllum var ljóst, að það væri vandasamt, — prófessor Jóhann heitinn Sæmundsson, Guðmundur Thoroddsen, Snorri Hallgrímsson, og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það bæri að taka upp þessa starfsemi í því formi, og gerðu þar litlar breytingar á. Það er að vísu rétt, að það eru liðin 14 ár, síðan heilsugæzlukaflinn var upphaflega saminn, en hann hefur verið endurskoðaður síðan, og maður var settur 1953 í embætti til þess að undirbúa framkvæmdina á hónum og framkvæma hann. Það er því engin fjarstæða að taka upp kaflann, eins og frá honum er gengið, því að það hefur sjaldan verið vandað betur til undirbúnings löggjafar en einmitt að þessum kafla tryggingalaganna, sem nú er búið að fella í burtu, — taka hann upp aftur óbreyttan. Ef við ættum þeirri gæfu að fagna, að Alþingi samþykkti heilsugæzlukaflann, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að svo framarlega sem agnúar kæmu fram, þá hefði ríkisstj. bæði þann möguleika að bera fram brbl. til breytinga, ef þætti bráðaðkallandi og að bera breyt. sem fyrst undir Alþingi viðvíkjandi framkvæmdaratriðum, þegar reynslan sýndi, að betur mætti fara á einhvern annan hátt.

Það veitir því engan rétt til þess að snúast gegn því, að heilsugæzlukaflinn í heild sé tekinn upp aftur, og það eru engin rök að halda því fram, að á þeim 14 árum hafi þeir atburðir gerzt, að heilsugæzlukaflinn sem stefna í heilbrigðismálum sé orðinn úreltur. Það er fjarri því. Hafi það verið einmitt réttlætanlegt nýmæli þá, þá er það það ekki síður nú. Og ég vildi helzt spyrja: Hvað í heilsugæzlukaflanum, eins og lagt er til að hann verði nú tekinn inn í tryggingalöggjöfina, er orðið úrelt? Hvað er orðið úrelt?

Nei, ég er alveg sannfærður um, að það var óheillaspor, sem stigið var, þegar þessi mþn. lagði til, að horfið yrði frá því að hafa heilsugæzlukaflann í lögum. Það var undanhald. Og ég held, að þeim mönnum hafi missýnzt, en ekki hinum, sem höfðu samið þennan kafla og viljað gerbreyta okkar heilbrigðisþjónustu í þá átt,.

Þá er það viðvíkjandi þeim mikla þætti, sem Sjálfstfl. ætti í tryggingamálum á Íslandi. Hann á fyrst og fremst þann þátt, sem hér hefur verið rakinn, að hann hefur barizt á móti endurbótum á tryggingum á hvaða stigi sem er, allt frá 1930 og fram til þessa dags. Hann gerir það ekki núna að berjast á móti tryggingunum eða leggja til, að þær séu afnumdar. Það gerir enginn andstæðingur trygginga lengur. Það er ekki til, hvorki í Sjálfstfl. né annars staðar. En fjandskapurinn við tryggingar frá andstæðingum trygginga kemur nú fram í því, birtist í því að standa gegn öllum verulegum umbótum á tryggingunum. Lengra þora andstæðingarnir ekki að fara. Og það er ekki von, að mikið þokist til umbóta í tryggingamálum, þegar Alþfl. nú stendur í þeim sporum að hafa stjórnarsamstarf við þennan fyrrverandi og núverandi og ævarandi andstæðing tryggingamála, Sjálfstæðisflokkinn.

Þá var vikið að því, að ég hefði ekki komið með umbætur á tryggingalöggjöfinni, meðan ég var í ríkisstj. Ég flutti meginhlutann af þeim brtt., sem ég flyt nú, þegar ég var í Alþfl., og þá með fullu samþykki Alþfl., um það, að landið yrði eitt verðlagssvæði, að skerðingarákvæðin yrðu felld niður og að heilsugæzlukaflinn yrði tekinn upp. Ég hef það á þskj, frá 1955, og það þóttu raunsæjar till. þá. Þær voru þá metnar þannig af Alþfl., þótt þær séu kallaðar óraunhæfar till. ábyrgðarlauss manns nú.

En af hverju flutti ég ekki till, um breyt. á tryggingunum, þegar ég var ráðh.? Heyrðu þessi mál undir mig? Eða er það venjulegt í sambræðslustjórnum, að sjútvmrh. flytji frv., sem heyra undir landbrh., að heilbrmrh. flytji frv., sem heyra undir menntmrh., eða að félmrh. flytji frv. um mál, sem heyra undir utanrrh.? Nei, það mun ekki vera venjulegt. En þannig stóð á, að Alþfl. hafði tryggt sér það, sett það að skilyrði fyrir þátttöku sinni í ríkisstj., að tryggingamálin heyrðu undir Alþfl.-ráðh. Og tryggingamálin heyrðu, meðan vinstri stjórnin sat, undir utanrrh. Guðmund Í. Guðmundsson. Alþfl. hafði þá öll þau skilyrði til þess að flytja sínar hugmyndir um endurbætur á tryggingunum, og ég þori að fullyrða það, að a.m.k. hefðu ekki hugsjónir Alþfl. um bættar tryggingar strandað á mér eða mínum flokki, það er ég alveg víss um. En það komu bara engar till. til umbóta á tryggingunum, meðan þær heyrðu á dögum vinstri stjórnarinnar undir Alþfl.- ráðh., Guðmund Í. Guðmundsson, og við mig er ekki að sakast um það. Ég vísa því alveg frá mér. Það er að hengja bakara fyrir smið að ætla að fara að hengja mig fyrir það, að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi ekki lagt fram breyt. til endurbóta á tryggingunum á dögum vinstri stjórnarinnar.