24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost að vera hér viðstaddur í d., þegar 2. umr. um þetta mál hófst, og heyrði þess vegna ekki framsöguræðu meiri hl. né heldur 1. minni hl. um málið. Báðir þessir aðilar hafa borið fram brtt., sem ég skal leyfa mér að fara um nokkrum orðum.

Um brtt. heilbr.- og félmn. í heild á þskj. 169 skal. ég aðeins segja það, að ég fyrir mitt leyti get fullkomlega fallizt á þær. Þar er í fyrri brtt., a-liðnum, gert ráð fyrir nokkurri hækkun á utanfararstyrkjum sjúklinga og ráðstöfunum í því sambandi, og er ekkert nema gott um það að segja og ekki um meiri upphæðir að ræða sennilega en að þær muni fullkomlega viðráðanlegar innan þess ramma, sem markaður hefur verið um þessar tryggingalagabreytingar. Önnur brtt. fjallar svo um gildistökuákvæðin, sem ég hef heldur ekkert um að segja, og hvaða lög skuli felld úr gildi, og er þar um nauðsynlega leiðréttingu að ræða.

Auk þess hefur hv. 5. þm. Vestf. (BF) borið fram brtt. á þskj. 231, sem snertir tekjumark skattleysingja, og mun það einnig vera leiðrétting til þess að ná því, sem að var stefnt, en ekki raunveruleg efnisbreyting.

Um brtt. 1. minni hl. hv. heilbr.- og félmn., hv. 4. þm. Reykn. (JSk), á þskj. 190 gegnir nokkuð öðru máli. Aðalatriðin í þeim brtt. eru tvö: annars vegar, að fellt verði niður nú þegar skerðingarákvæði laganna, og hins vegar, að verðlagssvæðin verði sameinuð og landið allt gert eitt verðlagssvæði. Um þessar brtt. og um tilsvarandi breyt. frá hv. 4. landsk. (HV) á þskj. 171, sem einnig stefna sumar að þessu sama marki, skal ég láta mér nægja að segja það, sem ég sagði hér í framsögu um málið, að skerðingarákvæðið fellur úr gildi um næstu áramót, og ég vil vænta þess, að það verði ekki endurnýjað, eins og ég líka sagði þá, en þangað til verði að því unnið í sambandi við ýmislegar aðrar breyt. á tryggingalögunum að útvega eða sjá fyrir nægilegu fé til að standa undir þessari breyt. Um verðlagssvæðin og sameining þeirra í eina heild eða að landið allt verði gert að einu verðlagssvæði skal ég einnig endurtaka það, sem ég sagði í framsögu um málið, að ég tel það eðlilegt, að landið verði gert að einu verðlagssvæði, og að það séu niður fallnar þær ástæður, sem í upphafi voru taldar fyrir því, að þessi svæði voru höfð tvö. En ég benti þá líka á, að nokkur andstaða hefði verið gegn því hjá sveitarfélögunum, að þessi breyt. yrði gerð, og þess vegna yrði að fara að þessari breyt. með nokkru samráði við sveitarfélögin og sjá, hvort ekki mætti takast um það samkomulag.

Ég tel, að aðalbreyt., sem fram koma í till. minni hlutanna tveggja, megi skipta í þrennt: í fyrsta lagi afnám skerðingarákvæðisins, í öðru lagi sameining verðlagssvæðanna og svo til viðbótar frá hv. 4. landsk. þm. nokkrar hækkanir á einstaka bótaliðum frv.

Skerðingarákvæðið og verðlagssvæðin hef ég rætt og tel ekki þörf á að gera það frekar. Ég tel rétt, að þessi mál verði ýtarlega athuguð, þ.e.a.s. um skerðingarákvæðið, að athugaðir verði og fundnir möguleikar til þess að útvega það fé, sem þarf til þess að mæta þeim auknu bótum, sem af því leiðir, og í öðru lagi, að afnám verðlagssvæðanna verði framkvæmt í samvinnu og samráði við sveitarfélög þau, sem málið snertir, sem eru kaupstaðirnir og öll sveitarfélög utan kaupstaðanna með yfir visst íbúamark. Ég held, að það þurfi ekki, eins og raunar hér hefur líka komið fram, að breyta þeim ákvæðum, sem um þetta gilda í núverandi löggjöf, á þann hátt, sem á þskj. 190 segir, að það verði skylt að færa á milli svæða, ef þess er óskað. Ég held, að það hafi aldrei verið staðið á móti því, að það yrði gert, svo að það sé ekki nein raunveruleg breyt., sem í því felst.

En um þriðja atriðið, sem ég nefndi, þær hækkanir, sem hv. 4. landsk. þm. ber fram á þskj. 171, skal ég svo fara nokkrum orðum.

Hann lagði á það talsvert mikla áherzlu og lagði í það nokkurn þunga, að þessar bætur, sem ellilífeyrisbótaþegunum væru nú ætlaðar, væru svo smánarlega lágar, að það væri útilokað, að þeir gætu komizt af með þær án þess að fá viðbótarstyrk frá hinu opinbera, og hann leggur nú til, að í staðinn fyrir 14400 kr. árlegar bætur verði þessar bætur hækkaðar upp í 16000 kr. Ég held nú satt að segja, að ef það er ómögulegt að komast af með 1200 kr. á mánuði fyrir þetta fólk, þá verði lítill munur á afkomunni, þó að bæturnar verði hækkaðar upp í 1333 kr. á mánuði. Þar er um rúml. 100 kr. hækkun að ræða, og það er sýnilegt, að í þessu felst aðeins yfirboð, aðeins það að vera ekki samþykkur því, sem hér er lagt til, heldur að vera ögn hærri til þess að geta slegizt fyrir því og sýnt fram á, hvað ríkisstj. sé vond, en hann ágætur að hækka mánaðarbæturnar úr 1200 kr. og upp í 1333 kr. En sé ómögulegt að komast af með 1200 kr. á mánuði án þess að leita aðstoðar sveitarinnar, þá held ég, að það sé lítill möguleiki að komast af með 1333 kr. í staðinn. Annars var það sá tónn, sem gekk í gegn hjá hv. þm., að hann vildi leitast við — og mér fannst meira af vilja en mætti — að gera lítið úr þeim breyt., sem hér er verið að gera á tryggingalögunum, og taldi, að það, sem hann bar fram til viðbótar, væri eiginlega aðalatriðið, en það, sem hér væru gerðar till. um af hálfu ríkisstj., væri eiginlega smávægilegt og tiltölulega lítils eða einskis virði. Hann ætti þó að hafa gert sér grein fyrir því, að þær hækkanir, sem hér er lagt til að gerðar verði, nema rúmlega 200 millj. kr. á ári og gera meira en að tvöfalda þá upphæð, sem til þessara mála er varið, frá því, sem áður var. Hans till. kunna að vera ákaflega gagnlegar líka, en ég held þó, að þær séu engan veginn gagnlegri eða meiri virði en þær breyt., sem hér er verið að gera. Hækkunartill. eru hreinar yfirboðstill., gera hvorki til né frá um afkomu þeirra, sem hér er um að ræða, en aðeins til þess að láta í ljós, að hann vill sýna ofur lítið hærri tölur en ríkisstj. leggur til.

Um skerðingarákvæðið má þar að auki segja það, að með hinum hækkuðu bótum til lífeyrisþeganna hækkar skerðingarmarkið mjög verulega, eins og fram kemur í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 207. Með núverandi till. um bótagreiðslur, ef að lögum verða, eru tekjur og lífeyrisupphæð samanlagðar án skerðingar komnar upp í 54700 kr., og lífeyrisþeginn þarf að hafa 72 þús. kr. í tekjur, til þess að hann missi algerlega ellilífeyrinn, þannig að þetta er náttúrlega allt annað en áður var.

Um verðlagssvæðabreytinguna, þó að gagnleg sé og nauðsynleg kannske, þá er hún ekki það aðalatriði sem hækkun ellilífeyrirsins og ýmissa annarra bóta í tryggingalögunum er. Ég meina, að hækkun bótanna, bæði ellilaunanna, mæðralaunanna, slysatryggingabótanna og ýmislegs annars, er miklu meira virði í mínum augum en það, hvort skerðingarákvæðin eru numin úr gildi hálfu árinu fyrr eða seinna og hvort verðlagssvæðin séu sameinuð í eitt strax.

Þetta er að mínu viti fram borið af hv. þm. til þess raunverulega að gera það tortryggilegt, sem verið er að gera, og reyna að mikla það, sem látið er ógert. Það verða alltaf að vera einhver mörk, sem bæturnar eru bundnar við, og ég sé ekki, að þessi mörk, sem hér eru sett í þessu frv., séu svo lág, að það réttlæti hjá hv. þm. að segja, að hér sé um engar gagngerðar breyt. að ræða. Hvenær hafa verið gerðar aðrar eins breyt. á almannatryggingalögunum og nú eru gerðar? Það má vera, að það sé ekki hægt að lifa neinu fullkomnu lífi á tryggingabótunum, eins og þær liggja fyrir. En ég vil þó benda á, að við erum með því frv., sem hér liggur fyrir, komnir upp í það að vera við hliðina á þeim, sem lengst eru komnir á þessu sviði. Við erum komnir upp í það að vera með ellilaun hjóna um 51.3% af árslaunum verkamanna, og það er hærra en bæði er í Danmörku og Svíþjóð, sem hafa þó verið í tölu þeirra þjóða, sem lengst eru komnar á þessu sviði. Þetta kallar hv. þm., að séu engar gagngerar breyt. frá því, sem áður var.

Ég held, að hv. þm. segi þetta gegn betri vitund og meir til áróðurs gegn till. og frv. heldur en að hann virkilega trúi því, að þetta sé svo, eins og augljóst er fyrir hverjum og einum, sem um þessi mál hugsar.

Um þessi atriði, sem ágreiningurinn virðist vera um fyrst og fremst, skerðingarákvæðið og verðlagssvæðin, skal ég geta þess og gat þess raunar líka við 1. umr., að það er nauðsynlegt að setja nefnd til þess að athuga tekjuöflunarmöguleikana, sem eiga að mæta afnámi skerðingarákvæðanna, og sú nefnd þarf og mun taka heildarlöggjöfina enn til gagngerðrar athugunar og þá vitanlega þessi mál einnig.

Hv. þm. gerði mikið úr heilsugæzlukaflanum, og ég skal taka undir það með honum, að það er mjög merkilegt og þýðingarmikið mál. Það hefur verið sýnt fram á, hvers vegna þessi þáttur var tekinn út úr tryggingalöggjöfinni, hvaða rök lágu til þess þá. En ég geri ráð fyrir því, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, milliþinganefndin, muni fá þetta einnig til athugunar og gera till. um, á hvern hátt eða hvort úr þessu megi bæta.

Ég sem sagt tel, að þó að ekki hafi náðzt alveg á leiðarenda með þessu frv., þá sé engan veginn réttlætanlegt að segja, að hér sé um engar gagngerar breyt. að ræða, hér sé um smávægilegar breyt. að ræða og þeir séu lítilþægir, sem ánægðir séu með þær, eins og hv. þm. orðaði það.

Ég vil nú aðeins láta þetta koma hér fram, til þess að það liggi skýrt fyrir, að n. muni verða sett til þess að athuga það, sem enn er ógert af því, sem hér hefur komið fram að þyrfti að gera, og að sú nefnd muni ljúka sínum störfum eða það muni verða séð til þess, að hún muni ljúka sínum störfum það tímanlega, að tækifæri muni fást til þess að taka afstöðu til þeirra um það leyti, sem skerðingarákvæðin falla að eðlilegum hætti úr gildi, sem er um næstu áramót.

Þessi hv. þm., hv. 4. landsk. þm., ræddi nokkuð um það, að Alþfl. hefði staðið illa á verðinum og að hann hefði nú valið sér það vafasama hlutskipti að standa með Sjálfstfl. um afgreiðslu þessa máls. Ég veit, að hv. þm. man svo langt aftur í tímann, þegar almannatryggingalögin voru sett 1946. Hverjir voru það þá, sem stóðu að afgreiðslu málsins, og hverjir voru það, sem snerust á móti? Ég man ekki betur en Alþfl., Sósíalistafl. og Sjálfstfl. stæðu að afgreiðslunni sameiginlega þá. Framsfl. einn var á móti, og hann var það mikið á móti, að það var aðeins einn af þm. hans, sem vogaði sér að greiða atkv. með frv., þegar það var samþ. þá, þannig að liðs úr Framsfl. með þessu máli var ekki þá að vænta og hefur ekki verið síðan. Þess vegna gleðst ég yfir því, að hv. 1. þm. Norðurl. v. skuli nú hafa fengið þann áhuga fyrir málinu, sem lýsti sér í ræðu hans hér áðan.

Hv. 4. landsk. þm. hélt því líka fram, að Alþfl. hefði átt þess kost, þegar hann var í samstjórn með Framsfl. og Alþb. 1956–58, að koma fram með till. um málið, en hann hefði bara ekki gert það. Þetta er ekki rétt hjá honum. Alþfl. kom fram með till. um málið. Við efnahagsmálaundirbúninginn 1958 voru lagðar fram af hálfu allra flokkanna í ríkisstj. till., af hálfu Alþb., af hálfu Framsfl. og af hálfu Alþfl. Í till. Framsfl. og Alþb. örlaði ekki á neinum till., sem snertu alþýðutryggingarnar, en í till. Alþfl. var beinlínis lagt til, að tekna væri aflað til þess að auka og bæta við almannatryggingarnar með aukningu fjölskyldubóta og hækkun ellilífeyris, en áhuginn hjá samstarfsflokkunum innan þeirrar ríkisstj. var ekki svo mikill, að þessar till. næðu fram að ganga.

Ég vil aðeins láta þetta koma fram, til þess að það liggi ljóst fyrir, að hv. þm. mælir það annaðhvort vegna þess, að hann man ekki betur, eða þá gegn betri vitund, að Alþfl. hafi ekki borið fram till. til bóta í þessum málum í vinstri stjórninni svokölluðu. Það komu engar till. frá Alþfl., sagði hv. þm., en þær komu vissulega og hafa meira að segja verið prentaðar og birtar opinberlega.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. En ég vildi í fyrsta lagi fá tækifæri til þess að lýsa afstöðu til þessara brtt., sem fyrir liggja. Ég legg til, að till. heilbr.- og félmn. í heild verði samþ. og till. hv, 5. þm. Vestf., sem er þeim tengd og er eingöngu lagfæring, en ég vildi leyfa mér að leggja til, að hinar till., á þskj. 171 og 190, verði ekki samþ., þar sem ég tel, að þau efnisatriði, sem till. bera í sér, verði athuguð á milli binga af nefnd, sem til þess mun verða sett nú að lokinni afgreiðslu þessa máls hér. Ég vildi ekki heldur láta ómótmælt ummælum hv. 4. landsk. þm. um afstöðu Alþfl. og afstöðu annarra flokka til þessara mála yfirleitt. Sjálfstfl. hefur ekki verið sá mesti dragbítur, sem um getur í sambandi við breyt. á almannatryggingal., eins og hv. þm. vildi vera láta. Ég skal að vísu ekki taka upp hanzkann fyrir hann, hann getur gert það sjálfur, en ég vil aðeins, að það rétta komi fram, að það hafa aðrir verið, sem ýmist með þögninni, eins og Alþb., hafa komið í veg fyrir framgang málsins eða beinlínis beitt sér á móti því, eins og Framsfl. gerði 1946 með heiðri og sóma. En Sjálfstfl. hefur bæði þá og nú stutt að því, að þessar till. næðu fram að ganga, og það tel ég að megi gjarnan koma fram.