30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) óskar skýrra svara um það, hvort ríkisstj. muni gefa út brbl. í þinghléinu um landbúnaðarverðið. Það hefur verið spurt um það einnig, hvort ríkisstj. muni yfirleitt gefa út brbl. Ég vil taka það fram, að á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um það, að hverju leyti ríkisstj. kann að telja sig neydda til þess að gefa út brbl. Ef svo verður sem horfir, að þinghlé verði hátt á annan mánuð, þá geta vítanlega þau atvík komið fyrir, að nauðsyn beri til að gefa út brbl., og það hefur ekki verið vefengt, að í þinghléi, sem er samþykkt af Alþingi, sé tvímælalaust heimilt að gefa út brbl., ef brýna nauðsyn ber til, eins og segir í stjórnarskránni. Að öðru leyti vil ég ítreka það enn, að þingfrestunin er fyrst og fremst til þess gerð, að stjórninni gefist færi á að undirbúa í hendur þingsins sem bezt þau mál, sem það þarf fyrst og fremst að afgreiða, þegar það kemur saman, en það eru efnahagsráðstafanir og fjárlög. Því fer auðvitað fjarri, að tilgangurinn með þingfrestuninni sé sá að taka vald úr höndum þingsins, heldur einmitt að vinna sem bezt þá undirbúningsvinnu, sem að sjálfsögðu kemur Alþingi að gagni, og auðvitað verða allar ákvarðanir í þessum málum teknar af Alþingi, en ekki ríkisstjórninni.