24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

65. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar við komum hér til framhaldsfundar kl. 5, hélt ég, að þessum umr. væri u. þ. b. að verða lokið, og allt benti til þess, að svo væri. En eftir að ég hafði sagt hér fáein orð, og voru þau á allan hátt laus við nokkrar ádeilur á nokkurn mann, — ég gerði aðeins grein fyrir erindi, sem mér og fleirum hafði borizt viðkomandi frv., — þá sá hæstv. félmrh. ástæðu til að rísa úr sæti sínu og flytja hér slettur til Framsfl. og nú síðar til annarra einnig í síðari ræðu.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að Framsfl. hefði beitt sér gegn löggjöfinni um almannatryggingar, sem sett var 1946. Ég vil í þessu sambandi benda á, eins og raunar hefur verið minnzt á af hv. 4. landsk. þm., að tryggingalöggjöfin var upphaflega sett árið 1936. Þá voru þetta nefnd lög um alþýðutryggingar. Þetta var mikið deilumál á þeim tíma, og þessi löggjöf var sett af Alþfl. og Framsfl., sem þá höfðu stjórnarsamstarf, gegn harðri andstöðu Sjálfstfl. Síðan fór það svo, að það voru gerðar breytingar á þessari löggjöf, eins og algengt er um lög, að þegar tími líður, telja menn þörf á að gera á þeim breyt., og með l. 1946 voru þetta nefndar almannatryggingar í staðinn fyrir alþýðutryggingar áður. Vitanlega voru þá gerðar á löggjöfinni allverulegar breytingar. En það er bara ekki rétt, sem hæstv. félmrh. heldur fram, að Framsfl. hafi verið á móti því að breyta löggjöfinni. Eins og hv. 4. landsk. þm. tók fram áðan, var það þannig, að framsóknarmenn vildu láta íhuga málið til næsta þings, vegna þess að það var eftir að athuga ýmislegt því viðkomandi, sérstaklega varðandi fjárhagsgrundvöllinn, — það hafði ekki verið athugað eins og þurfti að vera. Á þetta var ekki fallizt af þáverandi stjórnarflokkum. En þrátt fyrir það, þó að ekki væri á þetta fallizt, bessa till. framsóknarmanna, þá beittu þeir sér alls ekki á móti löggjöfinni. Það var einn einasti maður í neðri deild Alþingis, sem greiddi atkv. gegn frv., þegar það var afgreitt héðan, og ég held enginn í Ed. (Gripið fram í.) Já, það voru fleiri en einn með því náttúrlega. Ég held, að það hafi verið samþ. með 10 eða 11 shlj. atkv. þar eða eitthvað svoleiðis, en enginn á móti. Það er því alrangt hjá hæstv. ráðh., að Framsfl. hafi beitt sér gegn þessu á þingi.

Þetta var tímanlega á árinu 1946, sem þessi löggjöf var samþ. hér á þingi. Síðar á því ári fór það svo, að þáv. ríkisstj., sem sumir kalla nýsköpunarstjórn, gafst upp. Þá var það, að þáv. formaður Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, myndaði næstu ríkisstj., og hann fékk þá m.a. Framsfl. til liðs við sig og í stjórn með sér, til þess m.a. að vinna að því, að aflað væri tekna til þess að standa undir útgjöldum ýmsum, sem löggjöf, sem sett hafði verið í tíð fyrrv. stjórnar, hafði í för með sér, og þar á meðal var tryggingalöggjöfin.

Það lítur út fyrir, að hæstv. félmrh. sé mjög ánægður með sína framgöngu og síns flokks í þessu máli nú. Eins og bent hefur verið á, er þetta mál einn þáttur í efnahagsráðstöfunum núv. hæstv. stjórnar og stjórnarflokka. En hvernig eru þær, þessar ráðstafanir, þegar á heildina er litíð, og hver er hlutur Alþfl. í því sambandi? Það eru u.þ.b. 5 mánuðir, síðan kosið var til Alþ. síðast. Fyrir þær kosningar sögðu frambjóðendur Alþfl. í öllum kjördæmum landsins fyrst og fremst þetta: Það er okkar flokkur, sem hefur stöðvað vöxt dýrtíðarinnar á þessu ári. — Þetta var náttúrlega ekki rétt. En þeir sögðu í framhaldi af þessu við kjósendur: Nú þurfum við að fá ykkar atkvæði til þess að halda áfram á sömu braut. Við leitum eftir stuðningi ykkar til þess að geta haldið fast við stöðvunarstefnuna, komið í veg fyrir það, að nýju dýrtíðarflóði verði steypt yfir þjóðina. Þetta er fyrst og fremst það, sem við ætlum að vinna að, og þetta er það, sem þið eigið að hjálpa okkur til að gera með því að veita okkur stuðning í þessum kosningum. — Á þessu var klifað um landið allt, þvert og endilangt, og um þetta voru greinarnar og stóru fyrirsagnirnar í Alþýðublaðinu fyrir kosningar. En jafnskjótt sem kjörseðlarnir voru komnir í kassana um land allt, þá sveik Alþfl. öll sín kosningaloforð viðkomandi dýrtíðarmálunum. Hann gekk í félag við Sjálfstfl., og sá félagsskapur hefur unnið að því síðan að demba yfir landsmenn gífurlegum verðhækkunum á öllu, sem menn þurfa að kaupa. Þeir hafa gengið svo langt í því að þrengja kosti almennings, að þeir sjálfir telja að það sé ekki lengur hægt fyrir ung hjón, frísk og vel vinnandi, að ala upp eitt einasta barn aðstoðarlaust. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, ætla þeir að vísu að láta fólk hafa til baka, þ.e.a.s. suma, lítið brot af því, sem þeir eru að taka af þeim og búnir að taka af þeim með þessum gífurlegu verðhækkunum, — lítið brot af þessu í hækkuðum bótum frá Tryggingastofnuninni.

Það er ekki furða, þó að hæstv. félmrh. sé drýldinn ag drjúgur yfir þessari vasklegu framgöngu sinni og sinna manna í þessum málum og þykist hafa efni á því að vera með árásir á aðra flokka og slettur til þeirra. Hann lítur víst svo á, að hann og hans flokkur verðskuldi þakkir fyrir frammistöðuna. En allur þorri manna í þessu landi veit og finnur — og finnur það enn betur með hverjum deginum sem líður, að útgjöldin, sem núv. hæstv. ríkisstj. og hennar lið eru búin að leggja á landsmenn, eru margfalt meiri en þær bætur, sem hér er verið að veita. Og mér þykir það ekki trúlegt, að þeir, sem veittu Alþfl. stuðning í síðustu kosningum út á hans fögru fyrirheit um að standa á móti aukinni dýrtíð, sjái ástæðu til að gjalda honum miklar þakkir fyrir frammistöðuna.