26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

65. mál, almannatryggingar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að vera stuttorður. Hæstv. félmrh. hefur svarað sumu af því, sem ég spurði um, en ekki sumu. Hann kom með þá skýringu, að þau 13%, sem talað væri um í grg. með efnahagsmálafrv., væru ekki reiknuð af þeim gjöldum vísitölufjölskyldunnar, þeim 61 þús., sem greinir frá í Hagtíðindum, heldur af launum verkamanns, sem væru tæpar 50 þús. kr. Ég ætla ekki að þessu sinni að segja, að þetta sé rangt hjá hæstv. ráðh. Ég ætla ekki heldur að segja, að það sé rangt hjá mér. Ég ætla að afla mér upplýsinga um þetta, hvor okkar hefur réttara fyrir sér. (Gripið fram í.) Ég nefndi tölu, hvað væri kaup verkamanns, sem ynni 8 tíma á dag alla daga ársins. En í Hagtíðindunum er birt tala yfir verðlag þeirra lífsnauðsynja, sem vísitölufjölskyldan þarf að kaupa. Það eru 60975 kr. Og það er út frá þeirri tölu, sem þessi 13%, að mínum dómi, eru reiknuð, en ekki út frá kaupi mannsins. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, að hagstofan reikni út frá kaupi mannsins, heldur út frá því verði, sem er á lífsnauðsynjum fjölskyldunnar. Og 13% af þeirri upphæð gerir, eins og ég sagði áðan, tæpar 8000 kr. En um þetta skal ég fá fyrir 2. umr. tæmandi upplýsingar, hvor okkar hefur réttara fyrir sér í þessu. Ég held, að það sé einhver misskilningur í því hjá hæstv. ráðh., að það sé reiknað út frá 50 þús. kr. eða tekjum verkamannsins.

Þá minnir hann á, að það eigi að borga niður vörur. Jú, rétt er það. En ég skildi það svo, að þá væru niðurgreiðslurnar komnar með, þegar fundin voru út þessi 13% . En hvernig er það um þær vörur, sem allur almenningur kaupir tiltölulega meira af en aðrir, það eru allar baðmullarvörur í fatnaði, það er gúmmískófatnaður og fleira af þessu tagi, sem ekki á að borga niður og hækkar nú yfir 80%? Hvernig ætli hagsbæturnar verði hjá þessum verkamannafjölskyldum af niðurgreiðslunum hvað þetta snertir?

Þá talaði hæstv. ráðh. um 44% hækkun á elli- og örorkubótum. Ef þetta er rétt, að nú sé að koma 44% hækkun á þetta, þá hef ég misskilið hæstv. ráðh. áðan. Ég skildi hann svo, að 20% hækkun hefði komið 1958 (Gripið fram í: Nei, nei.) eða hefði verið undirbúin af nefnd 1958, m.ö.o. af vinstri stjórninni, og þau 20% hefðu komið jafnt fyrir það, þó að engin gengislækkun hefði komið og enginn söluskattur og engin vaxtahækkun, svo að það er hæpið að skrifa þetta allt á reikning núv. hæstv. ríkisstj.

Þá vil ég benda hæstv. ráðh. á eitt í dæmi hagstofunnar, sem ég hef ekki nefnt áður, og það er það, að húsaleigukostnaður fjölskyldu er ekki metinn þar nema á 10200 kr., þ.e. 850 kr. á mánuði. Heldur nú hæstv. ráðh., að þetta sé raunveruleg húsaleiga alls almennings í landinu, 850 kr. á mánuði? Ætli það sé ekki staðreynd, að flestar fjölskyldur verða að borga allt að því tvöfalda þessa upphæð? Ef ég hefði bætt henni við þá tölu, sem ég nefndi áðan, þegar ég taldi, að vísitölufjölskylda mundi hafa eftir efnahagsráðstafanir ríkisstj. um 75–80 þús. kr. útgjöld, þá hefði hún hækkað verulega. En ég gerði það bara ekki. Þó vita allir, að fólkið verður að borga miklu hærri húsaleigu en reiknað er með hjá hagstofunni, og þó að menn eigi húsin sjálfir, þá kemur alveg það sama út.

Það, sem hæstv. ráðh. svaraði mér ekki, var, hvernig eða hvar fjölskyldan eigi að taka tekjur til að greiða útgjöldin eftir þessar ráðstafanir. Það má deila um það, hve há upphæðin verður hjá þessari fjölskyldu í heild. Ég tel, að þessi útgjöld hennar muni verða a.m.k. 75–80 þús., eftir að öll þessi frv. hæstv. ríkisstj. eru orðin að lögum, og ég spurði: Hvaðan getur fjölskyldan tekið tekjur til þess að greiða þennan gífurlega kostnað? Og ég gat þess líka áðan, að ég sæi enga leið fyrir þetta fólk aðra en þá að minnka við sig kaup á lífsnauðsynjum. Og þá fer nú stærsti gljáinn að fara af fjölskylduuppbótunum, ef það verður niðurstaðan.