26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég hélt því aldrei fram, eins og hv. þm. virtist meina, að útgjöld vísitölufjölskyldunnar væru 50 þús. kr. Ég tók aðeins þá tölu, af því að hv. þm. nefndi hana sem dæmi um tekjur manns, sem vinnur árið um kring á verkamannakaupi, og hvað sem útgjöldin þurfa að vera, þá vaxa ekki tekjurnar hjá verkamanni, sem vinnur 8 tíma á sólarhring, þó að útgjaldaþörfin sé meiri. Hann verður að sætta sig við það, sem hann hefur. Og af því að hv. þm, nefndi töluna, þá tók ég hana. Hins vegar gat ég þess og tók það alveg skýrt fram í minni frumræðu, að vísitölufjölskylduna mundi samkv. þeim útreikningi, sem gerður hefur verið og miðaður er við 13 stiga hækkun á verðlagi eftir ráðstafanirnar, vanta um 3% til þess að ná því að standa jafnrétt eftir og áður. En ef börnin væru 3 og tekjurnar þær sömu, þá mundi sú fjölskylda komast jafnvel af og áður. Þetta voru þær tölur, sem ég nefndi, og ég álít, að hv. þm. þurfi ekki að vefengja þær eða telja, að þær séu ekki rétt með farnar. Svo náttúrlega er það í óvissu, hvort það stenzt, að hækkunin verði 13%. Hún getur orðið eitthvað meiri, hún getur orðið eitthvað minni, því verður aðeins reynslan að skera úr. En miðað við þessa útreikninga, sem gerðir hafa verið og ég fyrir mitt leyti vil trúa á að séu réttir, þangað til annað reynist, er þetta svona. En tryggingalagafrv., sem hér liggur fyrir, gerir, eins og ég tók fram og hef raunar margtekið fram, ráð fyrir ýmsum bótum, sem eru miklu meiri en þær bætur, sem fyrst og fremst eru hugsaðar til þess að jafna afleiðingarnar af gengisbreytingunni. Það eru bætur hinna öldruðu og öryrkjanna og ýmissa annarra. Þær eru miklum mun hærri en þetta, og það vænti ég að hv. þm. skilji, að það er ekki síður þýðingarmikið að jafna þeirra met heldur en annarra.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið vinstri stjórnin, sem hefði eiginlega staðið að 20% af þessum 44, sem hér væri lagt til að hækkað væri um hjá gömlum mönnum og öryrkjum. Það er á vissan hátt rétt. Till. um nefndaskipunina, sem var undirstaðan undir þeim till., var gerð í tíð vinstri stjórnarinnar, en till. komust ekki til framkvæmda, og enn situr við það sama og áður var, þannig að 20% þar eru ekki komin til framkvæmda frekar en 20% síðari, sem núverandi stjórn hefur bætt við. En við höfum slegið þessum tvennum prósentum saman og vonum, að nú takist að fá hækkunina í einu lagi, 20% fyrst og svo 20% á það aftur, sem gerir í heild 44% , sem ég vænti að hv. þm. og aðrir hv. þdm. muni ljá lið sitt til þess að staðfesta.