30.03.1960
Efri deild: 49. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í áliti meiri hl. heilbr.- og félmn., átti n. nokkra fundi um þetta mál og ræddi það við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, sem veitti n. upplýsingar, sem einstakir nm. óskuðu eftir að fá.

Nm. voru allir sammála um, að breyt. þær, sem frv. gerir ráð fyrir, séu til mikilla bóta frá því, sem nú er, en er þó öllum ljóst, að enn eru lögin ekki komin í æskilegt horf og aðkallandi er að gera á þeim fleiri breytingar.

Meiri hl. n. leggur þó til, að frv. sé nú samþ. óbreytt, eins og það kom frá Nd., en þar voru gerðar á því smávægilegar leiðréttingar.

Minni hl. n. vill fá á frv. nokkrar breyt., áður en það er afgreitt nú, og munu þeir lýsa þeim hér á eftir.

Það, að við, sem myndum meiri hl. n., viljum samþ. frv. óbreytt nú, er af þeim ástæðum, sem nú skal greina: Við teljum, að þær breyt., sem þetta frv. fjallar um, séu svo aðkallandi, að ekki megi dragast, að þær komi til framkvæmda. Þær frekari breytingar, sem helzt koma til mála, kosta sumar mikið fé. Er því eðlilegt að gefa nokkurt ráðrúm til þess að athuga þær nánar.

Hæstv. félmrh. hefur einnig víðurkennt þetta, þar sem hann lýsti því yfir við 1. umr. hér í d., að skipuð yrði n. til þess að endurskoða almannatryggingalögin í heild, og væri ætlazt til, að niðurstöður og till., byggðar á þeirri endurskoðun, gætu legið fyrir á næsta þingi. Ég tel þetta vera eðlileg vinnubrögð og raunar alveg nauðsynleg vegna þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á ýmsum þáttum laganna, síðan allsherjarendurskoðun fór síðast fram 1956. Þessar breytingar hafa reynzt nauðsynlegar vegna óstöðugleika efnahagskerfis okkar, en hafa verið með þeim hætti, að einstakir kaflar laganna hafa verið teknir út úr og þeim breytt, og hefur af þessu leitt nokkurt misræmi.

Hæstv. félmrh. lýsti því við 1. umr., í hverju þær breyt., sem í þessu frv. felast, eru fólgnar og hvernig þær koma til með að verka, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það eða taka það aftur upp hér, sérstaklega af því, að það virðast allir vera sammála um, að breytingarnar séu flestar til bóta. En í stuttu máli eru breyt. þær, að flestar bætur trygginganna hækka og sumar mjög mikið.

Verulegur hluti kostnaðarins af þessari hækkun greiðist nú beint úr ríkissjóði, en auk þess greiðir ríkissjóður 3% hærri hluta af öðrum kostnaði lífeyristrygginganna en nú er, en kostnaðarhluti hinna tryggðu, sveitarsjóða og atvinnurekenda lækkar að sama skapi.

Markmiðið með þessu er að leiðrétta það misræmi, sem orðið var vegna breytinga verðlags og kaupgjalds í landinu á undanförnum árum, og í öðru lagi að hjálpa þeim, sem tekjuminnstir eru í þjóðfélaginu, til þess að mæta þeim verðhækkunum, sem fram undan eru.

Ég ætla, eins og ég sagði áðan, ekki að ræða frv. lið fyrir lið, en mun drepa á nokkur atriði, sem ha:fa verið umdeild eða ég tel að athuga þurfi við væntanlega endurskoðun.

Það er mikið rætt í sambandi við þetta frv. um skiptingu landsins í verðlagssvæði. Ég átti sæti í þeirri n., sem endurskoðaði lögin 1956, og ég var þá þeirrar skoðunar, að þessi svæðaskipting ætti ekki rétt á sér, og ég er enn sama sinnis. Það, sem olli mestu um, að breytingin var ekki gerð 1956, var, að meiri hluti sveitarfélaga, sem svöruðu fsp. nefndarinnar, sem endurskoðaði lögin þá, mælti gegn henni. Mér er kunnugt um, að ýmsir, sem þá vildu halda skiptingunni, telja nú, að hún elgi að hverfa.

Ég sagði áðan, að sumar þær breyt., sem líklegast er að gerðar verði á almannatryggingalögunum, muni kosta mikið fé. Ýmsir hafa þó bent á eina breytingu á lögunum, sem hefur mjög komið til álita og mundi spara tryggingunum verulega fjárhæð, en það er að hækka aldursmarkið úr 67 í 68 ár. Vitanlega næði það ekki nema til þeirra, sem halda heilsu og eru vinnufærir, en sem betur fer eru þeir æ fleiri, sem það gera nú. Sú skoðun á einnig vaxandi fylgi að fagna, að æskilegt sé að leyfa mönnum að vinna eins lengi og kostur er, því að það hefur komið í ljós, að með því móti verða þeir bæði hraustari og hamingjusamari en ella. Þetta er eitt þeirra atriða, sem grandskoða þarf í sambandi við fyrirhugaða endurskoðun.

Fjölskyldubætur verða nú greiddar með hverju barni. Sumir telja óþarft að greiða með fyrsta barni, en hér mun hafa ráðið nokkru það sjónarmið, er ég nefndi áðan, að mæta væntanlegum verðlagsbreytingum hjá þeim, sem þær bitna mest á.

Í þessu ákvæði er þó undantekning um börn, sem eiga framfærsluskyldan föður utan fjölskyldunnar, og getur það verið ósanngjarnt, og tel ég, að það þurfi athugunar við við væntanlega endurskoðun laganna. Enn fremur væri ástæða til að rýmka nokkuð það ákvæði laganna, að þessar bætur skuli greiddar með börnum á aldrinum 1–16 ára. Gæti komið til mála t.d. að greiða til 18 ára aldurs fyrir þau börn, sem halda áfram kauplausu námi, sem þau þurfa að vinna að mestan hluta ársins og fá þess vegna ekki möguleika til að afla sér neinna verulegra atvinnutekna.

Það nýmæli er einnig um fjölskyldubæturnar, að þær eiga nú að vera eins á 1. og 2. verðlagssvæði.

Í 4. gr. frv. um almannatryggingar segir, að greiða megi eiginkonu elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80% óskerts lífeyris, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Upphæðin er breytt frá núgildandi lögum úr 60 í 80% til hækkunar. En ég tel, að þessari grein ætti að breyta þannig, að maki elli- eða örorkulífeyrisþega fái bætur, þegar ástæða er til. Það getur alveg eins verið ástæða til að greiða eiginmanni slíkar bætur. Aðstaða getur verið þannig, eins og við vitum nú, þegar erfitt er eða ómögulegt að fá neina húshjálp, að eiginmaðurinn engu síður en eiginkonan sé bundinn yfir maka sínum og geti þess vegna ekki aflað sér nauðsynlegra tekna til að sjá heimilinu farborða, og ég tel því, að sjálfsagt sé að breyta þessu, þegar l. verða endurskoðuð.

Þá skal ég fara örfáum orðum um skerðingarákvæðin. Ég taldi 1956, að þau væru óheppileg og hefði átt að nema þau burt þá. Að vísu voru ákvæðin milduð verulega þá, og við hækkun bótanna nú valda þau bótaþegum síður frádrætti en verið hefur til þessa, og er það til verulegra bóta nú þegar. En auk þess er, eins og komið hefur fram hér áður í umr., gert ráð fyrir því í núgildandi lögum, að skerðingin eigi að hverfa um næstu áramót. Þótt það sé að vísu í núgildandi lögum, að skerðingin eigi að hverfa að fullu, þá er þó a.m.k. nokkur skoðanamunur um það, hvort rétt sé að láta sömu ákvæðin um afnám skerðingar í þessu tilfelli ná til bæði ellilífeyris og örorkulífeyris. Hjá þeim nágrannaþjóðum okkar, sem fullkomnastar alþýðutryggingar hafa, er gerður verulegur munur á þessu. Þar er ekki gert ráð fyrir því að veita fullan örorkulífeyri þeim öryrkjum, sem annaðhvort fyrir aðstoð hins opinbera, trygginganna eða af eigin rammleik hefur tekizt að vinna svo bug á örorku sinni með því að breyta um starf eða annað því um líkt, að þeir hafa fullkomlega sambærilegar atvinnutekjur við aðra launþega, og þetta er m.a. ein af ástæðunum, sem ég tel að liggi til þess, að rétt sé að athuga og endurskoða lögin, áður en þau koma til framkvæmda.

Þá vil ég aðeins minnast á sjúkradagpeninga og vil þar vekja athygli á því, að upphæðirnar eru lágmarksbætur. Sjúkrasamlögin ákveða dagpeningana sjálf innan þeirra takmarka, sem lögin setja, þ.e. ekki lægri en lágmarkið, sem nefnt er í l., og ekki hærri en 3/4 hlutar þeirra tekna, er sjúklingurinn missir vegna veikindanna. Sjúkradagpeningar eru ekki heldur greiddir, nema sjúklingur sé veikur meira en 14 daga, og aldrei á meðan sjúklingur samkv. samningum heldur kaupi sínu. Það er rétt að geta þess, að til þess að láta dagpeninga standa á heilum krónum er upphæðin 14 aurum lægri í dag en hún er samkv. núgildandi lögum, þ.e.a.s. í fyrsta tilfelli, um dagpeninga einhleypings, og tilsvarandi á öðrum bótum. En nú er það reiknað frá grunnupphæð þeirri, sem var í l. 1956, með vísitöluálagi og þeim prósentuhækkunum, sem orðið hafa síðan 1956 með sérstökum lögum. Væntanlega sækir þó ekkert samlag um lækkun bóta. Þvert á móti er kunnugt, að í undirbúningi er og hefur nú þegar enda verið samþ. hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur að hækka bætur allverulega frá því, sem nú er. Þar er búið að samþykkja að hækka dagpeninga á dag fyrir einhleyping úr 30 kr., eins og þeir voru hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur eða hafa verið til þessa, — þeir voru ekki í lágmarkinu, eins og það var í l., og hafa raunar aldrei verið það hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. En dagpeningarnir eiga nú að hækka í 50 kr. fyrir einhleyping og síðan 6 kr. fyrir hvern fjölskyldumeðlim umfram einn í fjölskyldu.

Þá vil ég, áður en ég lýk máli mínu, minnast á 34, gr. frv., sem fjallar um, að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að fresta að veita viðurkenningu sérstökum lífeyrissjóðum. Það hefur komið í ljós, að stofnun slíkra sjóða hefur farið svo í vöxt, að nauðsynlegt er að breyta löggjöfinni, sem nú gildir í þessu efni. Eftir því sem þátttakendum í löggiltum lífeyrissjóðum hefur fjölgað, þá fækkar þeim, sem greiða venjuleg almannatryggingaiðgjöld, og raskar það verulega grundvelli trygginganna. Þetta tel ég að sé óeðillegt, og ég held, að flestir, sem mikið hafa um tryggingamál fjallað á undanförnum árum telji það líka. Ég tel, að eðlilegast sé, að þátttakendur í slíkum sjóðum séu eftir sem áður fullgildir og gjaldskyldir þátttakendur í almannatryggingunum og njóti réttar þar, en sú trygging, sem þeir fái frá hinum sérstöku sjóðum, verði viðbótartrygging, sem vitanlega má þó ekki valda skerðingu, á meðan slík ákvæði eru enn í gildi.

Það er ýmislegt fleira, sem ég tel eðlilegt að athugað verði við endurskoðun laganna, t.d. hvort ekki væri rétt, að allir landsmenn væru slysatryggðir. Sérstaklega tel ég orðið úrelt og raunar ótækt ákvæðið um, að atvinnurekendur, t.d. bændur og smáútgerðarmenn, sem róa á eigin skipi eða bát, séu ótryggðir, eins og getur verið eftir núgildandi lögum. Eins ættu unglingar, sem vinna störf, sem eru tryggingaskyld í rauninni, að vera tryggðir, þó að þeir séu innan 16 ára aldurs. Sömuleiðis er mikil þörf á því, að íþróttamenn séu tryggðir, og mun líka vera mikill áhugi á því meðal íþróttamanna sjálfra. Þá tel ég einnig, að til álita komi að athuga, hvort ekki væri hægt að auka slysatrygginguna þannig, að hún verði fullnægjandi bæði fyrir hina tryggðu og fyrir atvinnuvegina. Nú er það oft svo, að bótaþegar telja trygginguna svo ófullnægjandi, að þeir leita bóta úr hendi atvinnurekenda og fá þá stundum tildæmdar miklu hærri bætur en slysatryggingin veitir. Sumir atvinnurekendur tryggja sig gegn þessari áhættu, en aðrir ekki, og er því oft undir hælinn lagt, hvort hinir tryggðu hafa nokkra möguleika á að fá þessar auknu bætur úr hendi atvinnurekenda, sem vitanlega eru misjafnlega stæðir, og oft mun það hafa komið fyrir, að það hefur verið vitað, að atvinnurekandi væri ekki svo vel stæður, að hugsanlegt væri fyrir hinn slasaða að fá nokkrar verulegar aukabætur úr hendi hans, og það þá jafnvel valdið því, að ekki var einu sinni leitað eftir þeim. Þetta tel ég vera ótækt og þurfa að athuga mjög gaumgæfilega, hvort ekki er unnt að auka tryggingarnar að þessu leyti.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en eins og ég sagði í upphafi, leggur meiri hl. til, að frv. verði samþykkt óbreytt.