30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

65. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það er nú búið að segja svo margt hér í hv. Alþingi í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, að það ex tæpast ástæða til þess að lengja þær umr. mikið. Frv. hefur af hálfu stjórnarandstæðinga verið rætt á ýmsan veg í sambandi við efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta og ýmsar fullyrðingar flotið þar með.

Við 1. umr. hér í þessari hv. þd. hjó ég eftir einu atriði í ræðu hv. 9. þm. Reykv. (AGI). Hann sagði þar eitthvað á þá leið, að ríkisstj., sem styddist við eins veikan meiri hluta og hæstv. núv. ríkisstj., ætti ekki að ráðast í svo róttækar aðgerðir sem nú væri verið að gera. Og grunntónninn í þessum kafla í ræðu hv. þm. var eitthvað á þá leið, að slík ríkisstj. ætti ekki að gera annað en það, sem hún fyrir fram vissi að ekki yrði óvinsælt með almenningi. Hitt átti ekki að vera leiðarljós ríkisstj., að gera það, sem hún teldi rétt og óhjákvæmilegt, jafnvel þótt ekki væri líklegt til vinsælda.

Þá var það annað, að hér á hv. Alþingi hefur mjög verið fjargviðrazt yfir því, að nú eigi að greiða fjölskyldubætur strax með fyrsta barni. Hins vegar hefur gengið hér barlómurinn út af þeim árásum, sem með efnahagsráðstöfununum sé verið að gera á kjör unga fólksins í landinu, unga fólksins, sem er í þann veginn að setja saman heimli og má þá búast við að eignist síðan sitt fyrsta barn, svo að nokkuð stangast þetta á.

En það, sem kom mér til þess að taka þátt í þessum umr., var atriði, sem kom fram í ræðu hv. 9. þm. Reykv., frsm. 2. minni hl. heilbr.- og félmn. Hann las hér upp tillögu, sem samþ. hefur verið á fundi mæðrastyrksnefndar í Reykjavík, las hér einnig upp grg. frá fimm nafngreindum konum í þessum félagsskap. Ég vil taka það fram, að ég efast um, að sú grg. hafi verið til umr. í þessu félagi eða verið lögð þar fram, svo að hún út af fyrir sig er auðvitað algert einkamál þeirra ágætiskvenna, sem undir hana skrifa. Þessi till. gengur í stuttu máli út á það, að upp skuli tekin ný stefna í bótagreiðslum almannatrygginganna, sem sé sú, að nú skuli greiða öllum fjölskyldubætur, sem sé greiða fjölskyldubætur ofan á barnalífeyrinn og ofan á aðrar þær bætur, sem nú þegar er heimilt að greiða ásamt og með barnalífeyri, eins og t.d. mæðralaun, elli- og örorkulífeyri. Þessi umrædda till. var lögð fram á fundi í mæðrastyrksnefndinni, var þar að vísu samþykkt samhljóða, með hjásetu ýmissa fundarkvenna þó. En vegna þess að það var mjög dregið í efa, að á þessum fundi hefðu komið fram nógu ýtarlegar upplýsingar um fyrirhugaðar hækkanir eða fyrirhugaðar bótagreiðslur almannatrygginga, samanborið við það, sem nú er, — dregið í efa, að þær hefðu komið fram svo ýtarlegar, að unnt hefði verið fyrir konurnar að gera sér fyllilega grein fyrir væntanlegri stórhækkun á bótagreiðslum til einstæðra mæðra, en hag þeirra ber þessi félagsskapur aðallega fyrir brjósti, þá var skömmu síðar boðað til fundar á ný í n. til þess að ræða málið. Á þeim fundi kom fram till., sem gekk í töluvert aðra átt en sú fyrri, og vegna þess að það þótti ekki æskilegt, að í n. næðist ekki full samstaða um málið, áður en því væri komið á framfæri við Alþingi, var kosin n. og henni falið að athuga báðar þessar till. og leggja síðan till. sínar fyrir félagsfund. Það mun ekki hafa náðst samstaða í þeirri n. og málinu síðan vísað til stjórnarinnar, og mér er kunnugt um, að stjórnin er þeirrar skoðunar, og hún mun hafa staðfest það í bókun á stjórnarfundi, að n. hafi ekki enn afgreitt málið frá sér endanlega.

Mér er það satt að segja óljúft að gera innanfélagsmál mæðrastyrksnefndarinnar að umræðuefni hér á hv. Alþingi, en ég taldi þó rétt, að þetta kæmi fram.

Það mun nú vera svo, að flestir hv. alþm. séu á einu máli um það, að ýmislegt standi til báta í almannatryggingalögunum. Hv. 3 þm. Vestf. (KJJ), frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., drap í sinni framsöguræðu á ýmis atriði, sem athuga þyrfti og lagfæra í lögunum, og get ég verið honum þar fyllilega sammála. Endurskoðun laganna stendur nú fyrir dyrum. Því hefur begar verið lýst yfir, að það muni fara fram á þeim allsherjarendurskoðun nú á þessu ári, og því eðlilegt, að ýmsar þær breytingar og lagfæringar, sem menn teldu æskilegar, biðu þá þess, því að það hlýtur eðlilega óhjákvæmilega að taka alllangan tíma að viða að sér ýmsum upplýsingum, sem nauðsynlegt er að fyrir hendi séu, þegar gera á miklar breyt. á slíkum l. sem almannatryggingalögunum.

Ég vil taka undir það, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan um till. hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), varðandi flutning milli verðlagssvæða, að það er auðvitað í rauninni sjálfsagt, að hún bíði slíkrar endurskoðunar. Ef ég man rétt, gaf forstjóri Tryggingastofnunarinnar þær upplýsingar á fundi heilbr.- og félmn., að það væri komið á annan áratug, síðan borizt hefðu tilmælí um flutning milli verðlagssvæða frá einstökum sveitarfélögum.

Að öðru leyti vil ég segja það um brtt. hv. stjórnarandstæðinga, að það er auðvitað hryggilegt til þess að vita, að ýmsir meiri háttar gallar á almannatryggingalögunum skuli ekki hafa orðið beim ljósir fyrr en eftir það, að þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Það má sjálfsagt leggja það út á ýmsan veg og kannske jafnvel á þann veg, að þeir hafi verið svo önnum kafnir, meðan þeir áttu sæti í vinstri stjórninni, hafi verið svo önnum kafnir við að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar, ekki höndulegar en það tókst nú, eins og endalok þeirrar stjórnar sýndu, að þeir hafa ekki getað gefið sér tóm til þess að snúa sér að því að lagfæra það, sem þeim sýnilega nú er mjög svo vel ljóst.

Ég vil svo aðeins ítreka það, sem reyndar kemur fram í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn., nál., sem ég á aðild að, að ég tel rétt, að frv. verði samþ. óbreytt.