30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

65. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Vegna þess, sem hv. 9. þm. Reykv. (AGI) sagði hér áðan, skil ég það vel, að honum er eðlilega ekki ljóst, hvernig þessi mál hafa verið rædd í mæðrastyrksnefndinni, þeim félagsskap, sem hann vitnaði til. Ég var fyrr í dag að glugga í erindi frammi á lestrarsal í sambandi við annað mál, og ég hafði ekki séð, að þar lægi þetta mál fyrir. En því er þannig varið, eins og ég áðan upplýsti, og það er reyndar þeim konum alveg fullkomlega ljóst, sem sendu þessa grg. og þá væntanlega hafa tekið að sér þarna óbeðnar erindi fyrir mæðrastyrksnefndina með því að koma þessu á framfæri. Þeim var það auðvitað alveg fyllilegaljóst, að n. hafði endurskoðað afstöðu sina og er ekki búin að afgreiða þetta mál endanlega frá sér. — Ég vil sem sé ítreka það, að ég skil, að hv. þm. hafi ekki verið kunnugt um, hvernig málið stóð að því leyti, því að líklega hafa þær konur, sem komu erindinu á framfæri, ekki skýrt honum frá því.