30.03.1960
Efri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

65. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú verið rætt nokkuð hér í d., og er það ekki óeðlilegt, því að tryggingalöggjöfin er í sjálfu sér mjög merk löggjöf og víðtæk og þær breyt., sem nú á að gera á þessari löggjöf, eru allveigamiklar, eins og sýnt hefur verið fram á í þessum umr.

Þróun tryggingamála hér á landi er orðin alllöng, og skal ég ekki fara að lengja þessar umr. með því að rekja þá sögu. En þróun þessara mála er þó ljós vottur þess, að þeim, sem forustu höfðu í þjóðfélaginu, hefur snemma orðið það ljóst, að einhver tryggingastarfsemi þyrfti að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Ég ætla, að slysatryggingar og sérstaklega vegna sjómanna séu sá þátturinn, sem eigi lengsta sögu í tryggingastarfseminni, og hafi upphaflega verið grundvöllur að þeirri víðtæku löggjöf, sem hér er nú fjallað um.

1936 voru gerðar mjög veigamiklar breytingar á tryggingalöggjöfinni með setningu laga um alþýðutryggingar. Þá var miðað við það, að Tryggingastofnunin starfaði á tryggingagrundvelli, þannig að sjóðir yrðu myndaðir og að gjaldendur til tryggingasjóðanna öðluðust síðan rétt til bóta og sá réttur yxi, eftir því sem lengur yrði greitt í sjóðina. Með löggjöfinni um almannatryggingar, sem sett var 1946, var að verulegu leyti horfið frá þessum megingrundvelli og Tryggingastofnunin ekki aðallega byggð á sjóðmyndun, þar sem ríkissjóður tók þá að sér að leggja fram verulegan hluta af því fé, sem varið er til bótagreiðslna hverju sinni. 1946 voru því bæði að þessu leyti og í mörgum öðrum atriðum löggjafarinnar stigin mjög stór spor til breytinga á þessari löggjöf, og reynslan sýndi, að þau spor, sem þá voru stigin, voru að sumu leyti þess eðlis, að þau voru ekki nægilega grundvölluð í sjálfu fjárhagskerfi þjóðarinnar, svo að sum ákvæði löggjafarinnar frá 1946 hafa aldrei komið til framkvæmda. Nefni ég í því sambandi heilsugæzlukaflann, og ég hygg, að það hafi reynt á það nú í hv. Nd., að það hafi ekki fengizt meirahlutasamþykkt fyrir því að taka nú inn í löggjöfina hliðstæð ákvæði um heilsugæzlu og sett voru þó inn í lögin 1946. Þetta m.a. sýnir, hve það er nauðsynlegt, þegar gerðar eru mikilvægar breyt. á tryggingalöggjöfinni, að þær séu vel undirbúnar og athugaðar í beinu sambandi við fjárhag þjóðfélagsins og fjárhagskerfi þjóðarinnar á þeim tíma, sem breyt. eru gerðar.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gengið enn lengra á þeirri braut en gert var 1946 að hverfa frá því, að Tryggingastofnunin starfi á tryggingagrundvelli, og hverfa frá sjóðmyndun. Nú er horfið að því ráði að auka framlag ríkissjóðs að miklum mun til tryggingastarfseminnar frá því, sem verið hefur, og breyta í því sambandi hlutföllunum á milli greiðslna frá ríkissjóði, sveitarsjóðum, hinum tryggðu og atvinnurekendum, ef útgjöld samkvæmt löggjöfinni í heild eru skoðuð í þessu sambandi, þ.e.a.s. fjölskyldubæturnar eru reiknaðar með í því dæmi. Um þetta er í sjálfu sér ekki nema gott að segja, ef Alþ. og ríkisstj. virðist hagur ríkissjóðs leyfa, að þetta sé af mörkum látið. En ég hef bent á það áður og minni á það enn, að vitanlega ýtir þetta undir þá þróun, að aðrir aðilar, sem þurfa að leggja fram verulegt fé til að standa straum af almannatryggingunum, leiti eftir því, að ríkið taki greiðslur til Tryggingastofnunarinnar á sig í æ vaxandi mæli, og því lengra sem gengið er á þessari braut, því erfiðara virðist mér að það verði að hamla gegn slíkri þróun.

Það kom fram í ræðu hjá einum ræðumanni, sem talaði hér í þessari umr., sú skoðun, að stjórnarandstæðingar, sem gerðu nú ýmsar brtt. við þetta frv. og gagnrýndu málið að ýmsu leyti eða einstök atriði þess, höguðu sér svo sem gallar tryggingalöggjafarinnar hefðu ekki verið þeim ljósir, á meðan þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu, áttu aðild að ríkisstjórn. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á það, að ég ætla, að það hafi verið einn af þm. Framsfl., sem fór með stjórn félagsmála og þar með yfirstjórn tryggingamála 1954, þegar ákveðið var að skipa n. til endurskoðunar á löggjöfinni, og sú endurskoðun, sem gerð var af þeirri milliþn., var grundvöllur að lagabreyt. 1956, sem fól í sér ýmsar mikilvægar endurbætur á tryggingalöggjöfinni. Enn fremur hefur á það verið minnt í þessum umr., að af hálfu vinstri stjórnarinnar eða þess félmrh., sem þá fór með stjórn tryggingamála, hafi verið skipuð n. til þess að endurskoða vissan þátt löggjafarinnar, og er sú endurskoðun að nokkru leyti lögð til grundvallar þessu máli. En það frv., sem hér liggur fyrir, ber að ýmsu leyti öðruvísi að en áður hefur verið, þegar gerðar hafa verið mikilvægar breytingar á tryggingalöggjöfinni. Á bak við þetta frv. stendur ekki allsherjar endurskoðun á löggjöfinni eða a.m.k. ekki að því er snertir suma þætti þessa frv., heldur virðist svo sem hækkun fjölskyldubóta og fleira í þessu sambandi hafi verið ákveðið í skyndi, án þess að milliþn. hafi um það fjallað eða leitað hafi verið álits sveitarfélaganna í landinu um þau atriði. Þetta er nýjung á þessu sviði. En skýringanna á því er vitanlega að leita til þess, sem bent hefur verið á af öðrum ræðumönnum, að þetta frv. er jafnvel fyrst og fremst liður í efnahagsaðgerðum núverandi ríkisstj. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Nei, ég á lítið eftir. (Forseti: Það er ætlunin að reyna að ljúka þessu í kvöld, en af sérstökum ástæðum er ekki hægt að halda kvöldfund.) Ég skal ljúka máli mínu á 3–5 mínútum.

Ég ætla þá ekki að ræða almennt um þessa löggjöf umfram það, sem þegar er tekið fram, enda er 3. umr. málsins eftir, ef ástæða þykir til að taka fram einhver atriði. En ég vil að allra síðustu minna á eitt atriði, sem mér finnst að hv. dm. megi ekki láta fram hjá sér fara við afgreiðslu þessa máls. Sú meginbreyting er nú gerð að miða við að greiða fjölskyldubætur með öllum börnum, einnig með fyrsta og öðru barni í hverri fjölskyldu, og þá er grundvöllurinn sá, að hver sú fjölskylda, sem hafi barn á framfæri undir 16 ára aldri, skuli njóta nokkurrar aðstoðar frá Tryggingastofnun ríkisins. En samkv. 2. mgr. 5. gr. þessa frv. virðist mér, að það sé gerð óeðlileg undantekning frá þessari meginreglu. Ef heimili er þannig myndað, að kona hefur átt eitt eða fleiri börn í fyrra hjónabandi eða áður en hún giftist, en hefur síðar gifzt og elur upp hin eldri börn sín og hefur þau með í heimili sínu og innan fjölskyldunnar, þá fær hún að sönnu eða á rétt á að fá meðlag frá barnsföður með þeim börnum, sem Tryggingastofnunin ber ábyrgð á að sé greitt, en Tryggingastofnunin á þó ekki að leggja fram úr sínum sjóðum, heldur að innheimta og bera ábyrgð á að sé greitt. En mér skilst, að samkv. 2. mgr. 5. gr. eigi kona, sem þannig er ástatt um, ekki rétt á neinni greiðslu úr sjóðum Tryggingastofnunarinnar sjálfrar, því að meðlagsgreiðslan er af atvinnutekjum barnsföður, en ekki úr sjóðum Tryggingastofnunarinnar. Þessi undantekning eða þessi regla virðist mér að hafi verið eðlileg, á meðan meginreglan var sú og grundvöllurinn að greiða ekki fjölskyldubætur með öllum börnum, t.d. fyrsta eða öðru barni í fjölskyldu. En þegar meginreglan er sú, að allir, sem hafa börn á framfæri, eiga að fá nokkra greiðslu frá Tryggingastofnuninni, þ.e. úr sjóðum hennar, þá virðist mér þetta ákvæði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, vera orðið óeðlilegt. Þetta vil ég benda á, svo að þm. létu það ekki fram hjá sér fara í sambandi við síðustu afgreiðslu þessarar löggjafar. Ég skal á allra síðustu mínútunni taka það fram, að þetta dæmi, sem ég nefni, er alveg raunhæft. Ég þekki beinlínis fólk, sem svona er ástatt um, og ég hef nú síðustu dagana verið spurður að því, hvernig þessu væri varið og að hverju væri stefnt í þessu efni, og mér hefur hálfgert vafizt tunga um tönn að skýra það, hvernig á þessu ákvæði stæði.