30.03.1960
Efri deild: 51. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég tók aftur eina af till. mínum á þskj. 255 við 2. umr. til 3. umr. Þessi till. er sú 11. í röðinni á þessu þskj. og er við 20. gr. frv., á þá leið, að greinin orðist svo:

„53. gr. laganna, 4. mgr., orðist svo: Sjúkradagpeningar skulu ekki vera lægri en 30 kr. á dag fyrir einhleypan karl eða konu, 34 kr. fyrir kvæntan karl eða gifta konu, sem er fyrirvinna heimilis, og 7 kr. fyrir hvert barn á framfæri.“

Ég leyfði mér að taka þessa till. aftur til 3. umr., vegna þess að ég hygg, að hún hafi í augum hv. stjórnarsinna sérstöðu á meðal till. minna. Það hefur sem sagt ásannazt það, sem ég sagði þegar við 1. umr., að það láðist algerlega að endurskoða kaflann um sjúkratryggingar. Í þeim kafla eru fáar tölur og því auðveldara að láta sér yfirsjást tölurnar í þessari gr. l., 53. gr., þar sem tiltekið er um sjúkradagpeninga. Afleiðingin hefur orðið sú, að nú ráðgerir frv. lækkun á sjúkradagpeningum frá því, sem gilt hefur og gildir enn. M.ö.o.: sjúkradagpeningar eru ákveðnir lægri í þessu frv. en gildir nú. Að vísu munar þetta ekki miklu, en þó munar um það í lækkunarátt. Það er ekki einu sinni, að staðið sé í stað, og þaðan af síður, að nokkuð sé hækkað. Þetta er geysilegt ósamræmi og getur ekki verið öðru að kenna en misgáningi.

Ég vil því enn einu sinni beina þeirri áskorun til hv. þm. úr stjórnarliði að endurskoða afstöðu sína enn einu sinni til þessa máls. Enn er tími til að leiðrétta þetta grófa óréttlæti.

Það er nú sýnt, að málið verður afgreitt hér í þessari hv. deild í kvöld. Enn er einn dagur til stefnu, og væri auðvelt að fá frv. afgr. frá Alþ. á morgun eða m.ö.o. í tæka tíð, þótt þessi leiðrétting yrði gerð.