30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Er nú hv. 9. landsk. (JÞ) farinn heim frá börnum sínum? (Gripið fram í: Hann er að svæfa þau. ) Ég er hræddur um, að það fari ekki vel um þau í vöggunni. Annars voru það nú ekki börnin, sem ég ætlaði að minnast á við hann, en ég taldi mig hafa ástæðu til þess að telja, að hann kynni ekki að meta góðlátlega skýringu á því, hvers vegna verkalýðsflokkurinn Alþfl. gengur á hönd stórgróða- og atvinnurekendaflokknum og lætur hann stjórna í gegnum sig. Ég taldi, að sú skýring væri á því, að hann læsi ekki nógu rækilega blað stórgróðaflokksins, að hann læsi bara það, sem minna máli skipti, svo sem framhaldssöguna. Hann sagði, að það væri nú öðru nær. Hann sagðist ekki hafa lesið framhaldssöguna og þeir læsu hana ekki, Alþýðuflokksmennirnir, en hann sagðist hafa óskað eftir því, að hún væri lesin, af því að hún væri skemmtilegri en annað það, sem stæði í Morgunblaðinu. Þarna kom hann upp um sig. Honum fór alveg eins og manninum, sem þóttist vera blindur og sagði: Mér heyrðist svartur ullarlagður detta. — Hann vissi, að honum þótti sagan skemmtilegri en hitt og ég lái honum það ekki sem Alþýðuflokksmanni, þó að honum þyki ekki skemmtilegur leiðaralesturinn í Morgunblaðinu og finni þá til þess, að hann er á villigötum.

Hann sagði, hv. þm., að bandalagið, sem Framsfl. og Alþfl. gerðu með sér, hefði átt áð vera sigurbandalag. Það er alveg rétt. En hann taldi, að það hefði ekki orðið sigurbandalag. Jú, bandalagið var í raun og veru sigurbandalag, og það var aldrei búizt við því, þegar gengið var í þetta bandalag, að það mundi takast í fyrstu kosningum að ná að fullu tilganginum með því.

Við höfum barizt við það í þessu landi að hafa of marga flokka og búið við það ástand, að skort hefur meiri hluta — samstæðan meiri hluta — til þess að fara með stjórn landsins. Nú var það hugmyndin, um leið og Framsfl. vildi bjarga Alþfl. frá algerum dauða„ að stofna bandalag, sem hefði svipaða stefnu, samræmdi stefnu sína og gæti orðið meirihlutaflokkur, meirihlutablokk í landinu, og það var tekið fram af báðum aðilum, og þess má finna stað í blöðum beggja flokkanna, að þeir gerðu ekki ráð fyrir því, að einar kosningar mundu duga til þess, að takmarkið næðist. Þeir gerðu ráð fyrir því, að það þyrfti fleiri kosningar. En hvað gerðist? Alþfl. hljóp úr bandalaginu, áður en reynt var í annað sinn, og gerðist bandamaður stórgróða- og atvinnurekendaflokksins.

Hv. 9. landsk. sagði, að það væri ekki rétt, að Alþfl. hefði týnt sínum gömlu hugsjónum, og hann nefndi eitt dæmi, og dæmið var það, að hann hefði haft það mál á stefnuskrá sinni að breyta kjördæmaskipuninni og nú væri kjördæmabreytingin komin á. En hvernig ætli hafi staðið á því, að svona fór? Þessi flokkur, þótt hann hafi týnt hugsjónum sínum, hefur annað slagið veríð að reyna að rifja upp sínar gömlu kenningar og stefnur. Og það stóð nú svo á 1958, á haustmánuðum, að hann fór að rifja upp á flokksþingi sínu stefnu sína í kjördæmamálinu og gaf út yfirlýsingu á sínu flokksþingi eða fulltrúasamkomu, þó ekki án fyrirvara. Og Sjálfstfl. veitti þessari yfirlýsingu athygli og tók Alþfl. á orðinu, og vegna þess knúðist hann út í stjórnarskrárbreytingarmálið, sem að vísu hefur ekki enn þá sýnt, að það hafi verið giftuspor, því þegar hið fyrst kosna þing eftir hínum nýju lögum er kallað saman, þá þykir það ekki virðulegra en það, ekkí starfhæfara en það, að einmitt Alþfl. og Sjálfstfl. sýnist rétt að senda það heim og vilja heldur grípa til þess að stjórna með bráðabirgðalögum.

Upphaf sögunnar í Morgunblaðinu, Óþreyju hjartans, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Það byrjaði með smávægilegri óheppni af minni hálfu,“ — það má segja, að þetta eigi við um Alþfl., samband hans við Sjálfstfl. byrjaði af hans hálfu sennilega með óheppni, að því er kjördæmamálið snertir, — „meinlausum klaufaskap, „gaffe“, eins og Frakkar kalla það, því næst kom tilraun til að bæta úr þessari heimsku minni, en ef maður reynir að gera við úr í of miklum flýti, getur alveg eins farið svo, að sigurverkið raskist allt.“ Er ekki von, að Alþýðuflokksmaðurinn hv. 9. landsk. vilji heyra þetta? Er þetta ekki eins og það væri talað af Alþfl.? Hann er að rjála í sigurverki og hefur verið að rjála í sigurverki í flýti í samvinnu við Sjálfstfl., og það getur alveg eins farið svo, að sigurverkið raskist allt, og allar líkur til þess, að svo verði.

Þá hef ég orðið við óskum hv. 9. landsk. þm. og lofað honum að heyra svolítið úr þessari hans eftirþráðu sögu, Óþreyju hjartans.

En mér þótti afar gott að heyra hæstv. fjmrh. gefa þá yfirlýsingu áðan, að vel getur komið til mála, að stjórnað verði með brbl. Mér þótti það gott, vegna þess að það er upplýsing, en slæmt, að þetta skuli vera sagt hér á Alþingi og að búast megi við því.