30.03.1960
Efri deild: 51. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. neitt, það er aðeins út af þessari till., sem hv. 9. þm. Reykv. (AGI) ber fram nú aftur við 3. umr. Hann taldi, að þar mundi vera um yfirsjón að ræða, en ég hygg, að svo sé alls ekki. Það mun vera venja, þegar bætur eru ákveðnar, að leitast við að hafa upphæðina í heilum krónum, en sú upphæð, sem þarna er um að ræða og hann gerði svona mikið úr, eru 14 aurar til lækkunar á einhleypum hér í Reykjavík, á fyrsta verðlagssvæði. (Gripið fram í: Til lækkunar, já.) Það er alveg rétt. En það er venja, þegar þessar bætur eru ákveðnar, að færa þær yfir í heilar krónur, ef ekki munar miklu, ýmist til hækkunar eða lækkunar, og þarna hefur verið fært til lækkunar um 14 aura, eins og alveg er rétt. En eins og ég gat um í minni frumræðu, er hér um lágmarksbætur að ræða, en þegar er vitað, og ég upplýsti hér í dag, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur mun greiða miklu hærri bætur en þetta. Ég hygg, að þetta hafi enga praktíska þýðingu, og ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. á móti þessari breytingu.