07.04.1960
Neðri deild: 64. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta það, sem fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ), þær tölur, sem hann birti um kostnað íslenzkra námsmanna erlendis, þar sem hann miðaði við þá tölu, sem er á skrá hjá gjaldeyrisyfirvöldum um þá, sem hafa notið fríðinda í gjaldeyrisyfirfærslum, en eins og ég tók fram í framsöguræðu minni áðan, er tala þeirra manna rúmlega 800. En það mun óhætt að fullyrða, að engan veginn er eðlileg viðmiðun að telja þá alla vera við reglulegt nám erlendis allt árið eða venjulegan skólatíma, því fer víðs fjarri. Miklu nær lagi væri að leggja til grundvallar mati á kostnaði íslenzkra námsmanna erlendis þá tölu manna, sem notíð hafa styrks hjá menntamálaráði, en þeir eru rúmlega 300 að tölu. Allir þeir námsmenn, sem njóta styrks hjá menntamálaráði, eru við reglulegt nám erlendis venjulegan námstíma, en það er ekki helmingur þeirrar tölu, sem notið hefur gjaldeyrisfríðindanna hjá gjaldeyrisyfirvöldum, og þess vegna er sú tala, sem hv. þm. nefndi um kostnað námsmanna erlendis, allt of há, áreiðanlega helmingi of há. — Hitt er ég honum alveg sammála um, að æskilegt er að gera enn meira en þegar hefur verið gert til þess að létta íslenzkum námsmönnum erlendis nám sitt og lífsbaráttu. Það átak, sem Alþingi hefur nú gert, er mjög myndarlegt, og það hygg ég að íslenzkir námsmenn erlendis kunni að meta og muni þakka. En hitt er sjálfsagt, að halda þessu máli vakandi og halda áfram að vinna vel á þessu sviði, því að í sannleika sagt er líklega engin fjárfesting íslenzku þjóðarinnar jafnarðbær og sú að búa vel að námsmönnum sínum, bæði erlendis og hér heima.