07.04.1960
Neðri deild: 64. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. menntmrh. lét það í ljós í lok ræðu sinnar, að nú mundu námsmenn erlendis þakka. Ég býst við, að tilefni til að flytja honum þakkarávarp gefist því aðeins, að þetta frv. geri betur en að rétta hlut þeirra, miðað við það, sem þeir bjuggu þó við áður. Ef það verður ekki, eins og hv. 7. þm. Reykv. taldi nú áðan að mundi vera, að hlutur þeirra yrði mun lakari þrátt fyrir aðgerðir þessa frv., þá virðist mér sem þakkarávörp mundu verða tilefnislítil.

Hins vegar verður því ekki neitað, að það er í samræmi við yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem hann gaf í hv. Ed. í sambandi við afgreiðslu frv. um efnahagsmál, að hlutur námsmanna verði nokkuð réttur, til þess að gera þeim kleift að halda áfram námi erlendis, og þó að ég hins vegar óttist það, að þeirra hlutur sé ekki bættur að fullu með þessu frv., þá er þetta þó í áttina.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að ég tók eftir því, að hv. frsm. n. sagði, að lánstíminn væri 10 ár. Svo leit ég í frv., aðeins í flýti, áður en ég fór hér í ræðustólinn, og sýndist þá, að þar væri reglan þessi, að vextir og afborganir byrjuðu ekki af þessum lánum fyrr en þremur árum eftir að námi lyki, og vil ég spyrjast fyrir um það, hvort það sé rétt, að 10 ára tímabilið sé miðað við námstímann plús 3 ár og svo komi 10 árin þar á eftir til þess að greiða lánin upp að fullu með afborgunum og vöxtum. (Gripið fram í.) Er það rétt? Já, þá finnst mér það vera mjög sanngjörn kjör, og vaxtakjörin þar eru a.m.k. í engu samræmi við hið almenna vaxtaokur, sem hæstv. ríkisstj. hefur ætlað landsbyggðinni að öðru leyti.